Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 13:00:55 (5362)

2002-02-28 13:00:55# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[13:00]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess að þegar menn tala um áhrif á efnahags- og atvinnustefnu er ekki verið að fjalla um hana í því ljósi að hún eigi að ráða styrkveitingum. Það á að leggja faglegt og vísindalegt mat á þær. En bæði hér á landi, í Evrópusambandinu, á norrænum vettvangi, alls staðar þar sem menn sinna þessum málum vill fjárveitingavaldið, Alþingi hér á landi og ríkisvaldið, hafa afskipti af því hvaða meginstraumar ráða þegar þessu fé er ráðstafað. Við erum þátttakendur í rammaáætlunum Evrópusambandsins þar sem þetta er mótað. Við erum jafnframt þátttakendur í norrænu samstarfi sem leggur þessar línur. Mismunandi áherslur eru lagðar á ýmsar greinar vísinda á ýmsum tímum til þess að þróunin sé með skipulögðum og góðum hætti. Það er þessi stefnumörkun sem ég held að okkur sé akkur í að fá hingað inn á Alþingi í meira mæli en áður hefur verið og líka á vettvang ríkisstjórnarinnar.

Varðandi aukið fé vil ég láta þess getið að á næstu þremur árum er í fjárlögum ríkisins gert ráð fyrir 450 millj. kr. aukningu til rannsóknarmála.