Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 13:03:25 (5364)

2002-02-28 13:03:25# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[13:03]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að í þessu tilviki eigi annars vegar að hugsa um þá meginstefnu sem við gerum ráð fyrir að verði mótuð í Vísinda- og tækniráðinu og hins vegar úthlutunarkerfið. Ég er viss um að þegar þingmenn fara í gegnum það í menntmn. eða nefndum þingsins átta þeir sig nákvæmlega á því hvernig þetta er uppbyggt og þessi ótti sem hv. þm. reifaði mun hverfa úr huga þeirra.

Hitt er aðalatriðið að að sjálfsögðu eiga stjórnvöld landsins, bæði Alþingi og ríkisstjórn og einstök ráðuneyti, að koma að þeirri stefnumörkun sem ræður því á hverjum tíma í hvaða meginþætti við viljum beina rannsóknum okkar og starfi á þessum sviðum. Aðeins þannig verður stefnumörkunin skýr og þá getur fjárveitingavaldið fylgst með því hvert aukið fé rennur. Þess vegna tel ég þennan ramma vera nauðsynlega forsendu fyrir því að við látum aukið fé renna til rannsókna.