Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 13:37:11 (5366)

2002-02-28 13:37:11# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[13:37]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að beina þeirri fyrirspurn til forseta þingsins hvort einhver af þeim þremur ráðherrum sem flytja þessi mál sé viðstaddur í húsinu.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. forsrh. er í húsinu. Óskar hv. þm. eftir að honum séu send boð?)

Ég hefði haldið að viðeigandi væri, meðan umræða fer fram um þessi mál sem skipta miklu fyrir íslenskt vísindaumhverfi, að þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á málinu væru viðstaddir.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. forsrh. hafa verið send boð um að nærveru hans sé óskað í þingsal.)

Hæstv. forseti. Það mun hafa verið 9. apríl í fyrra sem hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason gerði í mjög ítarlegu máli, á aðalfundi Rannís, grein fyrir hugmyndum sínum um nýtt skipulag í vísindaheiminum á Íslandi, ef svo má orða það. Það fór nokkur hrollur um ýmsa, verður að segja, og margir höfðu samband við mig í framhaldi af þessum fyrirlestri, sem ég gat því miður ekki verið viðstödd. Ég bað þá um utandagskrárumræðu um málið. Þær fóru fram í aprílmánuði. Ég átti þar orðastað við hæstv. menntmrh. Síðan við áttum orðaskipti hefur orðið nokkur breyting á því sem hæstv. ráðherra hafði í huga. Alla vega horfir þar sumt til hins betra. Mér virðist sem hér sé ekki eins afdráttarlaust að orði komist með að aðeins einstaklingar geti notið þessara styrkja. Þetta hefur verið orðað þannig að nú er vinnandi vegur að þeir sem sækja um þessa styrki geti verið stofnanir, sem sækja t.d. líka um styrki frá norrænum aðilum eða frá Evrópusambandinu. Ég verð að segja að það er auðvitað til mikilla bóta. Þó finnst mér að það hefði mátt orða þetta afdráttarlausar.

Hér er talað um að á undanförnum áratug hafi blásið nýir vindar í íslensku atvinnulífi. Það er eins og fleira í þessum frumvörpum. Mér finnst sterk framtíðarsýn í þeim en hins vegar hefur ekki enn orðið af öllu því sem hæstv. ráðherrar virtust binda vonir við að gerðist á árunum eftir að þeir væru farnir að móta stefnuna. T.d. er talað um aukið frelsi á fjármálamarkaði á Íslandi. Það má auðvitað til sanns vegar færa. Einnig er vísað sérstaklega í einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Þegar maður fer að hugleiða það þá hefur hún kannski ekki gengið alveg eins og til var stofnað. Það hefur ekki tekist að einkavæða nema Stofnfisk og Áburðarverksmiðjuna. Ef við lítum enn þá lengra til baka þá var SR-mjöl einkavætt. Önnur einkavæðing sem áformuð var á þessu kjörtímabili hefur ekki gengið eftir, ekki eins og áformað var. Það verður kannski breyting á því, ég er ekki að segja það geti ekki orðið.

Margt í þessu virðist hins vegar miðað við einhverja framtíðarsýn ráðherrans og mikla bjartsýni. Að sumu leyti vil ég deila þeirri bjartsýni með honum. Ég held að fjárfesting í menntun, vísindarannsóknum og tækniþróun sé afar mikilvæg. Ég held að þessi mál hafi aldrei borið svo á góma á hv. Alþingi að ég hafi ekki reynt að koma þeirri sýn minni að. Ég tel mjög mikilvægt að hlúa að þeim vaxtarsprotum sem eru í þjóðfélaginu en ég tel að það sé skot yfir markið að breyta grundvallarskipulagi vísindasamfélagsins eins og hér er ráð fyrir með þessum tillögum.

Hér er vísað til þess að Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunin hafi nýlega bent á að menntun, rannsóknir, nýsköpun og framtakssemi séu drifafl hagvaxtar í þekkingarþjóðfélaginu. Ég tek heils hugar undir þau orð. Ég tel að þau hafi verið sögð margoft á Alþingi, m.a. af nokkrum hv. þingmönnum sem hér sitja í salnum og ekki þurfi að leita langt út fyrir landsteinana eftir þeim vísindum.

Ísland hefur á síðustu árum staðið sig allvel í alþjóðlegum samanburði. Eins og með annað er það töluvert háð þeim viðmiðunum sem við höfum. Hér kemur fram að umtalsverðar breytingar hafi orðið frá því sem áður var að þjóðin varði hlutfallslega litlum fjármunum til vísindarannsókna og umhverfi til nýsköpunar var óhagstætt fyrir aðrar greinar en sjávarútveg. Ég vil segja að samkvæmt skýrslu Vilhjálms Lúðvíkssonar á nýliðnum fundi Reykjavíkurakademíunnar hefur framlag til Vísindasjóðs á undanförnum árum því miður ekki farið hækkandi. Framlag Vísindasjóðs var árið 1994 um 90 mannár, en árið 2000 er framlag Vísindasjóðs ekki nema rúmlega 50 mannár. Samkvæmt þeim reikningskúnstum sem ég hef reynt að tileinka mér um dagana eru þetta ekki aukin framlög til vísindarannsókna, a.m.k. ekki á vegum Vísindasjóðs. Ég veit auðvitað að tala má um að vísindarannsóknir í landinu, t.d. á vegum fyrirtækja eins og Íslenskrar erfðagreiningar. Þar hefur auðvitað orðið gríðarlegur vöxtur. En það er ekki beint hægt að heimfæra það undir fjármuni frá ríkinu.

[13:45]

Hér segir að ,,þótt framsækni nýrra fyrirtækja á nýjum sviðum veki mesta athygli má ekki gleyma því að hefðbundnir atvinnuvegir byggja einnig á nýrri þekkingu sem fæst með rannsóknum og þróunarstarfi og aðgangi að menntuðu fólki sem tryggt getur endurnýjun á þekkingarinnviðum fyrirtækja og stofnana. Þörf fyrir vísindalega þekkingu og þjálfun fer vaxandi á öllum sviðum þjóðlífsins, ekki síst í mörgum þjónustugreinum, bæði á vegum hins opinbera og í einkageiranum.`` Þetta er mjög vel sagt í þessu frv. eins og raunar ýmislegt annað því að að samningu þessa frv. hafa komið margir og miklir gáfumenn. En ég ekki alveg sammála hæstv. ráðherrum í hvaða samhengi þetta er sett og hvað er talin forsenda fyrir því að þessi þróun geti átt sér stað.

Hér er vísað til þess að Rannsóknarráð Íslands, sem tók við árið 1994 eftir sameiningu Rannsóknaráðs ríkisins og Vísindaráðs, sé samkvæmt lögum sjálfstæð stofnun sem hefur ítarlega skilgreint hlutverk. Það á að vera til ráðuneytis um stefnumörkun á sviði vísinda og tækni og gera árlega tillögur um útdeilingu framlaga úr ríkissjóði til vísinda- og tæknimála, móta úthlutunarstefnu og veita styrki úr þeim sjóðum sem eru í vörslu ráðsins, annast kynningu á rannsóknastarfsemi, mat á árangri rannsóknastarfs og samvinnu við hliðstæðar stofnanir erlendis, beita sér fyrir, í samráði við rannsóknastofnanir og atvinnulíf, áætlun um rannsóknir og þróun og skila árlega skýrslu til menntmrn. Þetta starf hefur verið unnið í gegnum fagráð þannig að margir hafa komið að því. Fagráðin gera m.a. stefnumótandi tillögur um mál sem varða verksvið þeirra hvers um sig. Að þessu starfi hafa fjölmargir vísindamenn komið og fyrirkomulagið hefur reynst gegnsætt, lýðræðislegt og opið eins og vera ber. Þess vegna hefur ríkt góð sátt um starfið undanfarin ár, öfugt við það sem var áður þegar mikillar tortryggni gætti oft og tíðum um starfsemi Rannsóknaráðs ríkisins. Ég verð að segja að mér kom á óvart að einmitt núna skyldi þurfa að fara að gera meiri háttar skipulagsbreytingar á fyrirkomulagi þessara mála á Íslandi. Svo mikil sátt hefur í rauninni verið um skipanina undanfarin ár þrátt fyrir að fjármagnið hafi verið allt of lítið og farið minnkandi. Vandinn sem hefur verið við að etja hefur fyrst og fremst verið vegna fjársveltis.

Nú þykir tímabært, segir í frv., ,,að færa samræmda umfjöllun um málefni vísinda og tækni á efsta stig stjórnsýslunnar``. Ég tek undir með mörgum sem hafa haft samband við mig og þessi mál varða að þarna gætir ákveðinnar tortryggni. Ég veit að hæstv. menntmrh. telur það ástæðulausa tortryggni eftir því sem hann sagði í andsvörum áðan og telur að ekki verði reynt að hafa áhrif frá þessum æðstu stöðum stjórnsýslunnar á úthlutun styrkja. En með því að þarna er ætlað að hafa áhrif á stefnumótun er náttúrlega um leið verið að hafa áhrif á það hvert styrkirnir renna.

Svo kemur ein af þessum bláeygu fullyrðingum um að ,,framlög atvinnulífsins til rannsókna fari ört vaxandi``. Ég hef heyrt marga efast um þetta og segja að framlög atvinnulífsins yfirleitt til rannsókna hafi síst farið vaxandi. Það eru ákveðin rannsóknarfyrirtæki eins og ég hef áður getið um sem hafa gert góða hluti og auðvitað veitt mikið fé til rannsókna en atvinnulífið yfirleitt er lítt tilbúið til að veita fé til rannsókna nema það sé í rauninni algjörlega gulltryggt að þar séu niðurstöður á borðinu, a.m.k. innan tveggja ára. Atvinnulífið á Íslandi er ekki og hefur ekki hingað til verið tilbúið til að taka áhættu í fjárveitingum til rannsókna. Þetta er ein af þeim fullyrðingum í frv. sem ég dreg í efa.

Þótt framlög ríkisins til mennta- og vísindamála hafi lengst af verið hlutfallslega mikil miðað við framlög atvinnuveganna má búast við að kröfur til stjórnvalda um aukin framlög til vísinda og tækni og til stuðnings við nýsköpun aukist á næstu árum. Þurfti þess vegna að taka þetta algjörlega í greip sér þannig að ekkert færi annað en það sem ríkisvaldinu kæmi best?

Hér er setning sem veldur okkur mörgum svolitlu hugarangri sem eigum að fara að fjalla um þessi frv. í framhaldinu. Hér stendur: ,,Með markvissri stefnumótun`` --- sem fer fram í ráðherranefndinni, og aumingja ráðherrarnir sem ekki fá að koma að þeirri stefnumótun hljóta náttúrlega að missa töluvert af sinni ,,prestige`` þá þegar. --- ,,Með markvissri stefnumótun, aukinni samvinnu og samhæfingu rannsóknastofnana og skýrri verkaskiptingu þeirra er hægt að nýta betur opinbert fjármagn sem rennur til rannsókna og þróunar og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.`` Það á sem sagt að taka þetta núna föstum tökum. Ráðherrarnir móta skýra og ákveðna stefnu um hvert fjármagn til vísindarannsókna á Íslandi á að fara svo að það skili snöggum árangri og markvissum. Ef ég stundaði rannsóknir á t.d. nýrri gerð lygamæla, svo að ég segi bara það, hvernig stendur þá á því að hæstv. dómsmrh. fær ekkert að koma að málinu og þess vegna fæ ég kannski engan styrk? Mér finnst þetta bara verulegt áhyggjuefni og þannig geta fjöldamörg atriði snert aðra ráðherra en einmitt þá sem þarna er ráðgert að komi að. (ÖJ: Þetta getur nú snert mörg ráðuneyti.) (Gripið fram í: Já.)

Niðurstaða þeirrar endurskoðunar sem hefur farið fram á undanförnu einu og hálfu ári --- og hugmyndafræðinni gerði hæstv. menntmrh. grein fyrir á aðalfundi Rannsóknarráðs 9. apríl sl. --- liggur fyrir þannig að hér er reiknað með að lögð verði fram þrjú frv. Þetta frv. sem ég hef verið að vitna í greinargerðina með lagði hæstv. forsrh. fram og það er um Vísinda- og tækniráð. Þar á stefnumótunin að fara fram, stefnumótun í málefnum vísinda-, rannsókna- og tækniþróunar, og þar eiga fjórir ráðherrar sæti. Þar koma einnig að vísindamenn og fulltrúar atvinnulífs. Ég sé hins vegar hvergi njörvað niður að þeir fulltrúar sem ráðherrarnir tilnefna þurfi endilega að vera vísindamenn. Ég hefði áhuga á því að við meðferð í hv. nefnd yrði heldur betur hnykkt á þessu því að, eins og við vitum, geta ýmsir verið stjórnskipaðir hér á landi til að sitja í hinum merkustu ráðum eins og nýleg dæmi sanna. Við gætum sem best raðað okkur þar niður, þingmennirnir, við hliðina á ráðherrunum okkar til að gulltryggja stefnumörkunina.

Það er ýmislegt vel sagt í þessu frv. og það eru mörg spök ummæli sem ég vildi gjarnan taka undir. Ég sé hins vegar ekki að þörf sé á þessari skipulagsbreytingu, sérstaklega þar sem samkvæmt sérstakri umsögn fjmrn. í þessum þremur frv. er ekki gert ráð fyrir einni krónu til viðbótar í þennan málaflokks. Og finnst mér vera fugl í skógi þar sem flogið hefur fyrir, hæstv. forseti, að það að ráðherrarnir beri orðið meiri ábyrgð leiði til þess að þeir tryggi betur fjármagn.