Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 13:57:33 (5367)

2002-02-28 13:57:33# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég hlýt að nálgast þetta mál að nokkru frá leikmannssjónarmiði og velta fyrir mér styrkleika og veikleika þeirra hugmynda sem hér eru á ferðinni í frumvarpsformum þessara þriggja frv. sem eru til umræðu. Ég nálgast þetta mál, virðulegi forseti, í heilu lagi. Ég geri ekki greinarmun á því eða tala t.d. um vísindarannsóknir.

Í fyrsta lagi er ástæða til að velta því fyrir sér sem er í frv. sem hæstv. forsrh. lagði fram og talaði fyrir. Þar er um að ræða gjörbreytingu á Rannsóknarráði Íslands sem felst í því að ráðherrar forsrn., menntmrn., sjútvrn., landbrn., umhvrn. og fjmrn. verði í ráðinu auk vísindamanna og fulltrúa atvinnulífsins. Þetta er það sem frv. fjallar í fyrsta lagi um og það sem ég velti fyrir mér og er mér umhugsunarefni er hvort menn séu á réttri leið með aðkomu ráðherranna í Vísinda- og tækniráði. Mér fyndist farsælli leið að frekar yrði myndað ráðherraráð sem hefði það hlutverk með höndum að fara yfir tillögur og ákvarðanir varðandi verkefni sem vísindamenn leggja til að hafin verði vinna við. Ég óttast að skilin verði ekki nógu skörp milli vísindarannsókna og nýsköpunar með því lagi sem verið er að leggja til að vinna eftir. Mín skoðun er að þetta þurfi að vera algjörlega aðskilið í grunni. Á síðari stigum nýsköpunar, svo dæmi sé nefnt, komi vísindarannsóknir frekar og meira inn í dæmið. Rannsóknastarf þarf að vera eins sjálfstætt og óháð og mögulegt er. Þetta tel ég vera mjög mikið lykilatriði og ítreka að rannsóknastarf þurfi að vera eins sjálfstætt og óháð og mögulegt er.

[14:00]

Vísindasamfélagið getur að mínu mati líklega best skipað sínum málum með tilliti til árangurs og ég segi að aðkoma ríkisstjórnar ætti að byggjast á ráðgjöf varðandi fjárveitingar og val verkefna. Ríkisstjórn á hverjum tíma er skylt að móta stefnu í tækni-, mennta- og vísindamálum ef við orðum þetta þannig og hún verður að vera opin fyrir þeim stórfelldu möguleikum sem felast í framþróun tækni og vísinda.

Virðulegur forseti. Ég hef tekið eftir mjög athyglisverðum framförum hjá frændþjóð okkar, Finnum, og nágrannaþjóð og frændþjóð okkar Írum. Þeir hafa náð mjög langt á síðustu árum á sviði vísinda og tækni. Mér finnst að hægt sé að styðjast við þann grunn sem þeir hafa byggt upp á síðustu árum. Mér finnst ekki að finna þurfi upp grundvallaratriði, þ.e. skipan og framkvæmd á hverju sviði. Við eigum að nota okkur reynslu annarra þjóða á þessu sviði sem öðrum.

Ég geri mér grein fyrir því, virðulegur forseti, að í frv. sem hæstv. forsrh. mælti fyrir er stuðst við reynslu að einhverju leyti en við erum samt að setja hér á nýskipan eins og ég skil málið. Þess vegna er mér til efs að sú skipan Vísinda- og tækniráðs sem hér er fyrirhuguð sé í samræmi við þær aðferðir sem ég var að vitna til.

Ég hef reynt að kynna mér þessi málefni eftir föngum með hliðsjón af þeirri þekkingu sem ég hef út frá tæknimenntun og fróðleik sem maður óhjákvæmilega nálgast í þessu starfi. Til að koma skoðunum mínum að í sem stystu máli, þá væri líklegt til árangurs og samstöðu um þetta málefni að ríkisstjórnin skipaði nefnd sem fjallaði um vísinda- og tæknimál. Líklega væri hægt að fallast á það og skynsamlegt að í þeirri þröngu nefnd sætu forsrh. og menntmrh. ásamt þremur fulltrúum vísindaakademíunnar og sú nefnd mundi móta stefnu og verkaskiptingu milli ráðuneyta og gerði tillögu um fjárveitingar til fjárln. og fjmrh. því að þar er endapunkturinn, hjá fjárln., hvaða fjármunir eru veittir til þessarar starfsemi.

Með þessum orðum er ég að undirstrika að ég er ekki á móti breytingum. Því ber að fagna sem hér kemur fram í frv. að stefnt er að því að þessi mál séu til endurskoðunar á þriggja ára fresti þannig að unnt sé að aðlaga stefnumótun að þeim aðstæðum sem eru á hverjum tíma. Það er ekki síst vegna setu minnar í fjárln. sem ég tek þátt í þessari umræðu því að framlög ríkisins sem stöðugt þurfa að vaxa hafa mjög mikil áhrif á umfjöllun um fjárlagagerð og framtíðarafkomu.

Herra forseti. Raunaukning hefur að vísu orðið í útgjöldum til rannsókna og þróunar á Íslandi ef litið er beint til krónutölunnar eins og hún er sett fram og þá er ég að miða við þau fjárlagafrv. sem ég hef verið með í að fjalla um og þekki til á síðustu árum. Ég nefni að í síðasta fjárlagafrv. var um að ræða tæpa 9 milljarða samtals í fjárframlögum úr ríkissjóði að meðtöldu sjálfsaflarfé frá öllum stofnunum. Þetta er frá öllum ráðuneytunum samtals.

Ég hef ekki eins og ég sagði áðan aðgreint þessi þrjú frv. Ég horfi í raun á þetta allt saman sem eina heild.

Herra forseti. Það er almennt viðurkennt að mikla fjármuni þarf til rannsókna og vísindastarfa, ekki síður til þróunar tækninýjunga og það eru margir í samfélagi okkar sem telja að allt of litlum fjármunum sé varið til þessa. Menn verða að ákvarða á hverjum tíma hvernig fjármunum er ráðstafað til framtíðarfjárfestinga. Vísinda- og tæknirannsóknir eru ekki verkefni sem leyst verða með áhlaupum en til lengri tíma litið er víst að ef við drögumst aftur úr öðrum í frumkvöðlastörfum og vísindarannsóknum, þá drögumst við einnig aftur úr efnahagslega.

Virðulegur forseti. Þar sem hér er líklega um að ræða lokamálflutning hæstv. menntmrh. að sinni, þá er ástæða til að þakka honum samstarf og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi og ég geri það hér með.