Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 14:54:34 (5375)

2002-02-28 14:54:34# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Við ræddum aðeins í andsvari hér áðan samhengið á milli vísindarannsókna, markaðar og framfara og hvernig þetta tvinnaðist saman. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir að öll þekking nýtist einhvern tíma. Ég held að þetta kunni að vera rétt. Þannig hefur verið bent á að nýjungar í tengslum við vopnaiðnað hafi komið að notum á alls óskyldum sviðum. Nú vitum við að vopnaiðnaðurinn hefur löngum verið arðvænlegur vegna stefnu stjórnvalda í herveldunum.

Vandinn er hins vegar sá að ef við beinum rannsóknarstarfi fyrst og fremst í þágu markaðar og hámarksarðsemi erum við komin út á mjög hála braut. Það hefur t.d. verið bent á að á sviði lyfjarannsókna beini lyfjafyrirtækin fyrst og fremst kröftum að því að finna lyf sem lækna sjúkdóma þeirra sem eru aflögufærir en beini síður sjónum sínum að sjúkdómum fátæks fólks í Asíu og Afríku. Af þessu hafa menn miklar áhyggjur og á þetta hefur verið bent og um þetta fer fram mikil umræða.

Þetta vildi ég segja um þessa tengingu milli markaðar, arðsemi og rannsókna.