Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:01:55 (5379)

2002-02-28 15:01:55# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka þær góðu umræður sem hér hafa farið fram um þessi frumvörp og tel mjög mikilvægt að þessi mál, vísinda- og tæknimál, séu rædd í sölum Alþingis og áhrif þeirra á þróun samfélagsins. Það var einmitt einn tilgangurinn með frumvörpunum að skapa grundvöll fyrir slíkar umræður í þinginu. Hér hafa farið fram umræður um frumvörpin en ég er sannfærður um að verði frumvörpin að lögum muni verða hér umræður um framkvæmd þeirra áætlana sem menn munu setja fram og inntak og hvernig að þessum málum verður staðið. Og það verður til þess að efla þennan málaflokk og styrkja forsendur fyrir fjárveitingu til málaflokksins og þar með ná þeim markmiðum sem við setjum okkur með frumvörpunum.

Rætt hefur verið um fjármagn og það er vissulega rétt að huga þarf að því hvernig unnt er að efla rannsóknir hér á landi og rannsóknaumhverfið með opinberu fé. Aukið opinbert fé hefur verið veitt til þessara málaflokka á undanförnum árum. Við sjáum það líka í frv. og í grg. sem fylgir frv. hæstv. forsrh. Þar koma fram þær upplýsingar um útgjöld til rannsókna og þróunar á Norðurlöndunum frá 1999 að Ísland var með hæstu árlegu raunaukningu á Norðurlöndum á síðasta áratug eða um 12,6%.

Einnig kemur fram ef menn líta á hlutfallstölur og samanburð á hlutfalli af landsframleiðslu til rannsókna að orðið hefur stórstökk hér á landi. Áður vorum við í neðstu sætunum, nú erum við að komast upp í efstu sætin þegar litið er á slíkar hlutfallstölur. Það er sama hvernig menn líta á þetta, við höfum verið að auka okkar hlut en spurningin er: Hver á að vera hlutur ríkisins og hvernig á að standa að fjárveitingum á vegum ríkisins? Gert er ráð fyrir því að móta þann farveg í þessum frumvörpum og það hefur síðan líka verið gert með samningum við háskólana um rannsóknafé til þeirra.

Og þar kem ég að því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi þegar hann spyr: Hvar kemur það fram í þessum frumvörpum að menn tali um að efla sérstaklega unga vísindamenn og menntun ungra vísindamanna? Það kemur vissulega fram þegar menn fjalla um Rannsóknarnámssjóðinn, en ég vil lesa úr grg. með frv. til laga um vísinda- og tækniráð þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Krafan um að vel sé fylgst með nýtingu opinbers fjár felur í sér að skilgreina verður hlut ríkisins í stuðningi við vísindi og tækni með skarpari hætti en gert hefur verið. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að á sviði menntamálaráðuneytisins verði höfuðáherslan lögð á að styrkja og styðja við bakið á vísindarannsóknum, án tillits til þess hvort þær megi flokka undir grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir, jafnframt því að stuðla að menntun ungra vísindamanna. Hlutverk ríkisins á þessu sviði verður samkvæmt því annars vegar að fjármagna öfluga sjóði til þess að styrkja vísindarannsóknir og hins vegar að stuðla að meistara- og doktorsnámi á háskólastigi.``

Það er gert með samningum við háskólana, bæði um kennslufé til háskólanna og líka rannsóknarfé. Menn verða því að líta á það í heild þegar menn átta sig á heildarstefnumörkuninni að líta bæði á það sem við höfum verið að gera í þessum málum varðandi þá sjóði sem hér eru til umræðu og hins vegar þá samninga sem við höfum verið að gera við háskólana og hvernig við höfum nálgast það að gera þeim kleift að auka framhaldsnámið og rannsóknarnámið, ekki síst Háskóla Íslands, sem á að vera í fararbroddi. Þar vil ég leggja áherslu á að gæði til háskólanáms verður náttúrlega að tryggja og kröfurnar verða að vera skýrar. Í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem við erum má ekki slaka á kröfunum sem menn gera til náms á háskólastigi, hvort sem háskólarnir eru ríkisreknir eða einkareknir. En Háskóli Íslands er í fararbroddi sem rannsóknaháskóli hér á landi og stendur á 90 ára starfi eins og við vitum. Það minnir okkur á að bera saman við 100 ára starf akademíunnar í Finnlandi og þróun þar.

Að sjálfsögðu getum við ekki sett okkur í sömu spor og Finnar miðað við þeirra langa tíma og hvernig þeir hafa byggt upp kerfi sitt í grunninn með vísindaakademíu sem við höfum ekki. Við höfum 90 ára gamlan háskóla og við höfum rannsóknakerfi sem má rekja 70 ár aftur í tímann eða svo þegar menn fóru fyrir stríðið að velta fyrir sér hvernig Íslendingar gætu staðið á eigin fótum ef til styrjaldar kæmi. Þá var það eitt af því sem þeir ákváðu að gera að fara út í rannsóknir og efla rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Við erum ekki í sambærilegri stöðu að þessu leyti en við getum sett okkur markmið og byggt upp skipulag sem gerir okkur kleift að nálgast úrlausnarefnin með svipuðum hætti og gert er í Finnlandi.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræddi um grunnrannsóknir og það er vissulega mál sem við höfum tekið afstöðu til í þessum frumvörpum og greinargerðum og ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, úr grg. um frv. til laga um Vísinda- og tækniráð þar sem segir:

,,Í núverandi skipulagi sjóða í vörslu Rannsóknarráðs eru mörkin dregin milli grunnrannsókna annars vegar og hagnýtra rannsókna og þróunarverkefna hins vegar. Þessi skilgreining er hefðbundin en að margra mati úrelt. Einkum hafa hugtökin grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir nálgast mjög í hugum þeirra sem fást við rannsóknir. Það er til dæmis tímanna tákn að rannsóknir á ýmsum sviðum hátækni og líftækni eru oftar en ekki grunnrannsóknir í þeim skilningi að aflað er nýrrar þekkingar á meginundirstöðum fyrirbæra, þótt þær séu hagnýtar í þeim skilningi að þeim er beint að sérstökum hagnýtum markmiðum. Mörkin eru einnig óljós í jarðvísindum svo annað dæmi sé tekið. Markmið tækniþróunar og nýsköpunar lýtur hins vegar fyrst og fremst að hagnýtingu vísindalegrar þekkingar til að skapa nýjar afurðir og aðferðir eða bæta þær sem fyrir eru.``

Sú skilgreining sem við erum með í grg. byggist að sjálfsögðu á mati þeirra sem að þessu verki hafa komið, sem eru færir vísindamenn ásamt lögfræðingum og sérfræðingum á vegum ráðuneytisins og þannig tekið mið af því hvernig menn skilgreina þetta í samkeppnislöndum okkar og leggja upp með þegar rætt er annars vegar um grunnrannsóknir og hins vegar um hagnýtar rannsóknir. En ég tek undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að meginatriðið í öllu þessu máli er, og vikið er að hér einnig, að skapa tengslin á milli þessa rannsóknastarfs og hins vegar að nýta þekkinguna, nýta rannsóknirnar til þess að það skili okkur út í þjóðfélagið, að fara út úr rannsóknaumhverfinu yfir í þekkingarþjóðfélagið og verði verðmæti í þekkingarþjóðfélaginu með þeim hætti sem við getum lagt annars konar mælistiku á. Það tel ég að sé grunnþáttur í því kerfi sem við erum að byggja upp, að leiðin á milli þess sem menn eru að rannsaka og þess sem menn eru að framleiða á grundvelli rannsóknanna er að styttast.

Það á að verða tengingin á milli þessara sjóða, annars vegar þess starfs sem unnið er undir forræði sjóðanna sem menntmrn. fer með og hins vegar sjóðsins sem iðnrn. fer með. Og dæmið gengur ekki upp að mínu mati nema gráa svæðið þarna á milli verði sem minnst og það verði leið sem menn sjá með sínar uppgötvanir og rannsóknir og niðurstöður, það verði leið sem sé skýr og það er lykilatriði og ég tek undir þau orð sem hv. þm. lét falla um það. En ég tel að hugmyndir hans um muninn á milli grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna, ótti hans í því efni eigi kannski rætur að rekja til þess að hann nálgast skilgreiningarnar á annan hátt en við gerum í þessum frumvörpum, en í því felst ekki að við séum að draga úr áherslunni á grunnrannsóknir. Menn verða einnig að líta á hvaða hugtök það eru sem við notum og þau hugtök eru skilgreind nánar í grg. En allt eru þetta mál sem mér finnst eðlilegt að menn ræði um, einnig á vettvangi nefndanna og kalli til sín sérfræðinga til þess að átta sig á þessum hugtökum sem eru ákaflega mikilvæg í þessu sambandi.

Ég var spurður um rannsóknarprófessorana. Það er rétt að gert er ráð fyrir að stöður þeirra leggist niður. Það eru fimm rannsóknarprófessorar sem voru skipaðir fyrir fimm árum og skipunartímabilið er að renna út. Heimild er í lögum að framlengja tímabil þeirra um tvö ár ef svo ber undir. Viðræður hafa farið fram varðandi tvo af prófessorunum sem jafnframt eru prófessorar við Háskóla Íslands, og verið er að vinna í því að fara yfir óskir þeirra. Háskóli Íslands mun taka það verkefni með þeim hætti sem honum ber lögum samkvæmt, en ekki er gert ráð fyrir því í þessum frv. að stöður rannsóknarprófessora verði áfram heldur er áherslan flutt yfir á það sem við köllum ,,öndvegisrannsóknir`` þar sem menn stuðla þá frekar að því að veita stóra styrki líkt og verið er að gera á vegum Rannsóknarráðs Íslands nú þegar, að búa til rannsóknaumhverfi með stærri styrkjum.

Varðandi uppstokkun á hinum opinberu rannsóknastofnunum þá ætla ég ekki í sjálfu sér að fara út í það í smáatriðum, enda er tími minn að renna út hér, ég verð að fá tækifæri til að gera það með öðrum hætti. En ég er sammála því að það þarf að endurskipuleggja og ég hef oft talað um það á ársfundum Rannsóknarráðs Íslands að smákóngaveldið í rannsóknaheiminum hér sé of mikið, það verði að stækka þessar einingar og að auka verði samstarfið. Við vitum að þverfaglegar rannsóknir eru hvað mest spennandi rannsóknir núna og þær ná ekki að þróast nema menn séu reiðubúnir til þess að starfa saman að ólíkum rannsóknasviðum og skapa þar með eitthvað nýtt.