Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:33:23 (5390)

2002-02-28 15:33:23# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst áðan hæstv. menntmrh. vera kominn í mikla stemmningu og miklar hæðir. Nú er hann kominn niður á jörðina og mér heyrist hann kominn alveg niður í kjallara.

Ég hef aldrei andæft því að Íslensk erfðagreining sé hluti af íslensku efnahagskerfi (Menntmrh.: Jú.) Það var það sem ég var að segja. Ég var að segja að það væri hluti af íslensku efnahagskerfi, þetta væru fjármunir sem væru hluti af því. Það var það sem ég var að sjálfsögðu að segja.

Ég var að lýsa stuðningi við og ánægju með að fyrirtæki á þessu sviði væru að hasla sér völl á Íslandi, þó að ég væri að gagnrýna stefnu stjórnvalda varðandi gagnagrunn á heilbrigðissviði, sem er allt önnur saga. Menn skulu ekki snúa út úr orðum mínum að þessu leyti.

Varðandi stofnanirnar er ég að vísa til Háskóla Íslands. Ég nefndi stofnanir og starfsemi á borð við Hjartavernd, ég nefndi Keldur og ég get nefnt fjölmargar aðrar. Þar starfa að sjálfsögðu vísindamenn sem sinna vísindarannsóknum. Að sjálfsögðu mælist ég til þess að fjármagnið renni til þeirra og að vísindamennirnir hafi aukið frelsi en ekki skert frelsi. Þetta var ég að leggja áherslu á og ég vildi að þeir kæmu meira og betur að allri stefnumótunarvinnu en ekki stofnunin, ríkisstjórn Íslands, sem ætlar að hlussa sér þarna í formi fjögurra hæstv. ráðherra í stjórnun þessa batterís. Sú stofnun er mér ekki að skapi í þessu samhengi.