Norræna ráðherranefndin 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:40:02 (5393)

2002-02-28 15:40:02# 127. lþ. 85.5 fundur 490. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2001# skýrsl, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf norrænu ráðherranefndarinnar árið 2001.

Finnland fór með formennsku í ráðherranefndinni það ár og beindi í formennskuáætlun sinni, Norðurlandabúa 2001, kastljósinu að einstaklingnum sem norrænum borgara. Í samstarfinu var því lögð áhersla á starfsemi sem snýr að réttindum almennings, aðallega þess hluta sem flyst milli norrænu landanna. Meðal annars var kannað hvernig þeir norrænu milliríkjasamningar reynast sem ætlað er að bæta hag þessa hóps.

Könnunin leiddi í ljós að þeim sem fara á milli landanna til lengri eða skemmri tíma er margvíslegur vandi á höndum. Ein ástæða þess er að stjórnvöld virðast ekki þekkja nægjanlega vel til þeirra skuldbindinga sem felast í þessum norrænu samningum. Því verða í næsta mánuði lagðar fram tillögur til úrbóta. Hugmyndin er m.a. að opnuð verði aðgengileg upplýsingaveita, bæði fyrir almenning og stjórnvöld, þar sem unnt verði að nálgast upplýsingar um flest af því sem brennur á þeim sem flytja milli landa.

Annar þáttur, sem trúlega er enn mikilvægari þessum hópi Norðurlandabúa, er þjónustusíminn Halló Norðurlönd. Starfsemi hans var styrkt á árinu og hugmyndir eru um að styrkja þá starfsemi frekar enda sýnir mikil aðsókn að þörfin er ótvíræð.

Starfsemi ráðherranefndarinnar er bæði víðtæk og fjölbreytt. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar komu að henni á einn eða annan hátt. Þó að forsætis- og utanríkisráðherrar norrænu ríkjanna sitji ekki í ráðherranefndum eiga þeir sem aðrir ráðherrar með sér reglubundið norrænt samstarf og hafa bein tengsl, bæði við ráðherranefndina og Norðurlandaráð. Að starfseminni koma og æðstu embættismenn ráðuneytanna og fjöldi annarra.

Ráðherranefndirnar áttu gott samstarf við Norðurlandaráð á samstarfsárinu. Sérstök alúð var af hálfu beggja lögð við að vinna úr athyglisverðri skýrslu hins svokallaða vitringahóps ,,Norðurlönd 2000 -- umleikin vindum veraldar``. Niðurstöður ráðsins og ráðherranefndarinnar um viðbrögð við skýrslunni birtust á árinu undir formerkjunum ,,Ný norræn dagskrá`` og voru tillögurnar samþykktar á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn haustið 2001.

Ráðið breytti þegar í kjölfarið nefndarskipan sinni sem nú samræmist betur en fyrr skipan mála hjá ráðherranefndinni. Viðbrögð ráðherranefndarinnar við skýrslunni snúast nánast alfarið að þeim áherslum samstarfsins. Samkvæmt þeirri stefnumótun sem lögð var fram í Nýrri norrænni dagskrá verður megináherslan næstu ár lögð á fimm víðtæk og þverfagleg svið.

Þessi svið eru:

1. Tækniþróun, sérstaklega hvað varðar upplýsingasamfélagið og rannsóknasvið þar sem Norðurlöndin skara fram úr.

2. Velferðarkerfi, þar með talin réttindi íbúa Norðurlanda og möguleikar þeirra til að búa, starfa og stunda nám í norrænu nágrannaríki, ásamt málefnum sem tengjast lýðþróun og fólksflutningum.

3. Innri markaður á Norðurlöndum, að meðtöldu samstarfi sem beinist að afnámi landamærahindrana.

4. Samstarf við nágrannalönd og -svæði.

5. Umhverfismál og sjálfbær þróun.

Af áherslusviðunum, sem ég tel öll vera mikilvæg við núverandi aðstæður, vil ég gera að umræðuefni þrjú, þ.e. samstarf við grannsvæðin, tækniþróun og sjálfbæra þróun. Áherslusviðið Samstarf við nágrannalönd og -svæði tekur í raun til alls svæðisins kringum Norðurlönd, þ.e. grannsvæðanna við Eystrasalt, Evrópusambandssvæðið auk norðlægra og vestlægra grannsvæða.

Um samstarfið við ESB segir eftirfarandi í skýrslunni Ný norræn dagskrá:

,,Samrunaferlið í Evrópu og sér í lagi stækkun ESB og framtíðarþróun þess er einn mikilvægasti viðmiðunarrammi fyrir aðgerðir Norðurlanda og norrænt samstarf. Þegar þörf og sameiginlegir hagsmunir krefjast, munu málefni sem ofarlega eru á baugi innan ESB og EES hafa áhrif á skipulag alls samstarfs innan norrænu ráðherranefndarinnar í formi upplýsingaflæðis, samráðs, samræmingar og sameiginlegra aðgerða. Þetta starf mun í framtíðinni verða nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í norrænu samstarfi.``

Vestlæg grannsvæði Norðurlandanna hafa hingað til ekki verið meðal þeirra svæða sem skilgreind hafa verið sem hluti þeirra grannsvæða sem norrænt samstarf nær til. Það er því nýmæli, sem ég met mikils, að slíkt skuli fært í letur í skýrslunni þó að orðalagið sé varfærið. Reyndar er þegar fyrir hendi vísir að slíku samstarfi. Í fyrra var haldin í Færeyjum gagnleg ráðstefna um verndun sjávar og sjálfbæra auðlindanýtingu í Norður-Atlantshafi. Auk ráðherra frá öllum norrænu ríkjunum sátu ráðstefnuna ráðherrar frá Skotlandi og Kanada auk fulltrúa frá ESB og Hjaltlandseyjum. Fyrirhugað er að sömu aðilar hittist á ný á Hjaltlandseyjum árið 2003. Ég bind vonir við að þetta samráð geti leitt til gagnlegra viðbragða til hagsbóta fyrir Norður-Atlantshafssvæðið.

[15:45]

Annað áhersluatriði sem ég vil nefna hér, virðulegur forseti, er tækniþróunin. Það svið tekur m.a. til samstarfs um málefni upplýsingasamfélagsins og samstarfs um rannsóknir þar sem Norðurlöndin skara fram úr, en það er mikilvægt nú á tímum þar sem hnattræn samkeppni ríkir nánast á öllum sviðum að styrkja samkeppnisfærni Norðurlandanna. Við á Norðurlöndum erum þegar í hópi þeirra þjóða sem fremstar standa í flokki á sviði upplýsingatækni og á ýmsum öðrum sviðum vísinda og hátækni. Ætlunin er að stuðla í sameiningu að frekari framgangi á þessum sviðum en huga jafnframt að verndun tungu og menningar og jafnræði þegnanna hvað varðar möguleika á að tileinka sér þá tækni.

Undir formerkjum tækniþróunar eru einnig athyglisverð áform um stofnun norrænna öndvegissetra. Þannig gengst ráðherranefndin í samstarfi við rannsóknaráðin í löndunum fyrir áætlun um nettengingu milli vísindahópa á Norðurlöndunum sem skara fram úr. Þeir hópar sem í upphafi munu starfa saman sem norræn öndvegissetur stunda grunnrannsóknir á áhrifum hnattrænna breytinga á veðurfræði, loftslag og hafstrauma. Áætlun sú sem gerð hefur verið um norræn öndvegissetur nær til áranna 2002--2007.

Þriðja áherslusviðið sem ég vil nefna er sjálfbær þróun. Norðurlandaráð samþykkti á starfsárinu áætlun ráðherranefndarinnar um sjálfbæra þróun á Norðurlöndunum fram til ársins 2020. Þetta er að mínu mati merkur áfangi sem vert er að fylgja eftir innan og utan Norðurlandanna enda hafa norrænu umhverfisráðherrarnir nú þegar ákveðið að kynna áætlunina og leggja fram á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem haldinn verður í Jóhannesarborg í september nk. Áætlunin er sú fyrsta sem samþykkt hefur verið í heiminum um sjálfbæra þróun á svæði sem nær yfir fleiri lönd. Jafnframt er nú unnið af hálfu umhverfisráðherranna að Staðardagskrá 21 fyrir Norðurlönd og Eystrasaltslöndin.

Fjárlög ársins 2001 voru 774 milljónir danskra kr. eða um 9,3 milljarðar ísl. kr. Fjárveitingarnar skiptast þannig að 3/4 fjárlaganna runnu til hefðbundins norræns samstarfs, 17% til starfs um málefni grannsvæðanna og 8% til samstarfs um Evrópumál.

Eins og fram kemur í skýrslunni sem mælt var fyrir árið 2000 var gerð úttekt á norrænu fjárlagagerðinni og lagðar fram fjölmargar tillögur til úrbóta. Markmiðið var að nýta fjárlögin betur en áður til að stýra fjármagninu til pólitískra forgangsverkefna. Breytingar þær sem gerðar voru í kjölfarið komu að fullu til framkvæmda við fjárlagagerðina fyrir árið 2003. Meðal helstu markmiða er að bæta forsendur Norðurlandaráðs til áhrifa á fjárlagagerðina jafnframt því sem ábyrgð fagráðherranefndanna verður aukin. Sátt ríkti í stórum dráttum um tillögur úttektarinnar nema um þann þátt er sneri að rekstri norrænu stofnananna. Hvað þær varðaði var lagt til að teknar yrðu upp af hálfu samstarfsráðherranna samningaviðræður við forsvarsmenn stofnana um róttækar breytingar á rekstrarforminu. Í stað slíkrar heildarendurskoðunar ákváðu samstarfsráðherrarnir að fela fagráðherranefndunum, hverri á sínu sviði, að meta ef ástæða þætti til, í samstarfi við stjórnir stofnananna möguleika þess að bæta eða breyta rekstrinum.

Ég hef hér gripið niður í ýmsa þætti skýrslunnar án þess að hafa gefið heildarmynd af samstarfinu sem er of fjölþætt til að þess sé kostur. Þess í stað vísa ég til skýrslunnar, sem að venju er gerð í samstarfi allra ráðuneytanna og er afar efnismikil.

Ég tel að norrænt samstarf liðins árs hafi verið frjósamt og gagnlegt. Meðal mikilvægra áfanga tel ég vera sameiginlega niðurstöðu Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar um viðbrögð við ,,vitringaskýrslunni`` svokölluðu sem náðist í góðu og trúnaðarfullu samstarfi þeirra.

Að endingu, virðulegi forseti, vil ég segja að ég bind vonir við þær breytingar sem Norðurlandaráð og ráðherranefndin ákváðu og tóku til framkvæmda á árinu og ég bind vonir við að þær leiði til aukins samráðs á næstu árum þeirra á millum, bæði um norrænu fjárlögin og um markmið og innihald starfsins á hinum fjölmörgu fagsviðum þess.