Norrænt samstarf 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 16:50:18 (5399)

2002-02-28 16:50:18# 127. lþ. 85.6 fundur 483. mál: #A norrænt samstarf 2001# skýrsl, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[16:50]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Í kjölfar ræðu formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar, vil ég greina örstutt frá því starfi sem ég hef komið að í tveimur nefndum Norðurlandaráðs, Evrópunefnd og eftirlitsnefnd, á síðasta starfsári.

Fulltrúar Íslands í Evrópunefndinni voru sú sem hér stendur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Hlutverk Evrópunefndar var að sinna samstarfi Norðurlanda og EES/ESB-ríkja og fjalla um stefnu norrænu ríkjanna í þeim málaflokki. Nefndin hefur einkum fjallað um atvinnumál, hagstjórnarmál, neytendamál og meðferð evrópskrar löggjafar á Norðurlöndum, auk þess að fjalla um starfsáætlanir formennskuríkja og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Nefndin hélt sex fundi árið 2001.

Evrópunefndin fór í fræðslu- og fundaferð til Strassborgar í mars. Hélt nefndin fundi með varaforseta Mannréttindadómstóls Evrópu, Elisabet Palm, þar sem rætt var um réttindaskrá ESB og þau mál sem lágu fyrir dómstólnum. Þá kynnti Evrópunefnd sér starfsemi Rannsóknarmiðstöðvar um Evrópumál og ræddi stöðuna í samrunaþróun Evrópu eftir Nice-sáttmálann. Enn fremur voru haldnir fundir Evrópunefndar með þingmönnum Evrópuþingsins og loks með umboðsmanni ESB, Jacob Söderman. Á síðastnefnda fundinum var m.a. aðgangur almennings að skjölum ESB til umfjöllunar en opin stjórnsýsla hefur verið sérstakt baráttumál þeirra Norðurlandaþjóða sem eru í Evrópusambandinu.

Sumarfundur Evrópunefndar var haldinn í Dyflinni. Nefndin átti m.a. viðræður við Evrópunefnd írska þingsins og fulltrúa írsku ríkisstjórnarinnar um stefnu landsins í Evrópumálum og þá staðreynd að Írar höfnuðu Nice-sáttmálanum. Einnig voru Iðnþróunarstofnun Írlands og Evrópustofnunin um lífs- og starfsskilyrði heimsóttar. Í viðræðum við forsvarsmenn þessara stofnana voru rædd vinnumarkaðs- og skattamál á Írlandi auk félagslegra afleiðinga sameiginlegs gjaldmiðils Evrópusambandslanda og áhrif stækkunar ESB á vinnumarkaði sambandsins.

Auk setu í Evrópunefnd var ég eins og fyrr segir fulltrúi Íslands í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs árið 2001. Nefndin tók tvö málefni til sérstakrar skoðunar á starfsárinu. Í fyrsta lagi kannaði hún aðgang erlendra ríkisborgara frá ríkjum utan ESB/EES, sem eru búsettir á Norðurlöndum, að hinum ýmsu stofnunum, verkefnum og styrktarsjóðum á vegum Norðurlandaráðs. Niðurstaða athugunarinnar varð sú að umræddir erlendir ríkisborgarar hafa óskoraðan aðgang að starfsemi á vegum ráðsins ef undan er skilin Nordjobb-áætlunin um sumarvinnu fyrir ungt fólk. Á 53. þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í október sl. brást ráðið við þessari niðurstöðu og beindi þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að tryggja ungum íbúum Norðurlanda með erlent ríkisfang aðgang að Nordjobb-áætluninni. Seinna verkefni eftirlitsnefndar var úttekt á norrænum styrkjum til rannsókna sem veittir eru í gegnum fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar. Það verkefni er nú á lokastigi og verður kynnt menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs á næsta nefndarfundi. Sá fundur verður haldinn í tengslum við þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um lýðræði sem fram fer í Reykjavík þann 15. og 16. apríl nk.

Herra forseti. Ég tek undir með fyrri ræðumönnum sem greint hafa frá breyttu nefndakerfi Norðurlandaráðs um að þar sé breyting til batnaðar. Með því að hverfa frá skipulagi þriggja stórra svæðisnefnda og taka upp málefnanefndir er verkaskipting Norðurlandaráðs skýrari en áður. Tel ég því að hin nýja nefndaskipan muni styrkja ráðið og starf þess í framtíðinni.

Að lokum má geta þess að eftirlitsnefnd hefur ákveðið að fylgjast grannt með því hvernig starf Norðurlandaráðs gengur samkvæmt hinu nýja skipulagi á þessu fyrsta starfsári. Að ári liðnu getur mat eftirlitsnefndar legið til grundvallar frekari fínstillingu á skipulagi ráðsins ef þurfa þykir.