Alþjóðaþingmannasambandið 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 17:43:36 (5411)

2002-02-28 17:43:36# 127. lþ. 85.7 fundur 390. mál: #A Alþjóðaþingmannasambandið 2001# skýrsl, EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2001.

Hlutverk Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU, er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum, hlúa að samstarfi þeirra og auka skilning á milli þjóða. Aðild að sambandinu eiga nú 142 þing en aukaaðilar að sambandinu eru fimm svæðisbundin þingmannasamtök.

Starfsemi okkar Íslendinga á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins snýr fyrst og fremst að þeim ráðstefnum eða þingum sem haldin eru tvisvar á ári samkvæmt stofnskrá sambandsins. Vegna eðlis sambandsins, sem eru vitaskuld alþjóðleg samtök, eru þessi þing haldin í ýmsum heimshornum. Svo var á sl. ári. Fyrra þingið var haldið 1.--6. apríl í Havana á Kúbu. Það sóttu auk þess sem hér stendur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Ásta Möller, auk Belindu Theriault, ritara deildarinnar. Síðara þingið var haldið 9.--14. september í Ouagadougou í Afríku. Auk þess sem hér stendur sóttu þingið hv. þm. Gísli S. Einarsson og Drífa Hjartardóttir, auk ritara Íslandsdeildarinnar, Belindu Theriault.

Í sjálfu sé er engin ástæða til að rekja það starf sem fram hefur farið á okkar vegum. Undirritaður sótti líka sérstakan fund Alþjóðaþingmannasambandsins um alþjóðleg viðskipti sem haldinn var í tengslum við WTO í Genf í júní á sl. ári. Sá fundur var afar gagnlegur og er viðleitni af hálfu þessara samtaka til að taka upp aukið samstarf. Þeirrar viðleitni hefur þó reyndar gætt, sem ég tel miður, hjá ýmsum alþjóðlegum stofnunum að reynt hafi verið að setja á laggirnar pólitíska eða þinglega deild slíkra samtaka. Dæmi um þetta er auðvitað Alþjóðaviðskiptastofnunin og raunar fleiri stofnanir, Alþjóðabankinn og fleiri sem hafa þróað sig nokkuð í þessa átt. Það er að mínu mati varhugavert vegna þess að það er kostnaðarsamt og eins held ég að hin eðlilegu þinglegu samskipti verði ekki eins og eðlilegast væri.

Því er ekki neita að Alþjóðaþingmannasambandið hefur gengið í gegnum nokkuð erfitt tímabil á undanförnum árum. Það stafar fyrst og fremst af því að Bandaríkjamenn drógu sig út úr samtökunum, fyrst með því að draga við sig greiðslur og síðan með því að draga sig út úr samtökunum. Það olli 15% tekjutapi og það er erfitt fyrir samtök af þessu tagi að aðlaga sig því í ljósi þess að það er enginn vilji til þess að auka greiðslur einstakra ríkja heldur frekar að reyna að draga úr umfanginu. Íslendingar hafa haft mikið frumkvæði í þessum efnum, að reyna að leggja fram tillögur sem snúa að því að draga úr kostnaði og höfðu að því frumkvæði meðal Norðurlandaþjóðanna og reyndar hóps vestrænna lýðræðisríkja sem starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins á þessu sviði. Ég held að óhætt sé að segja að margar af tillögum okkar hafi fengið talsvert mikinn hljómgrunn meðal þessara þjóða og litla Ísland hafi látið í sér heyra svo um munar á þessum sviðum. Markmið okkar hefur verið tvenns konar. Annars vegar að tryggja aukna skilvirkni og hagkvæmni í starfi samtakanna og hins vegar að gæta þess að ekki sé dregið úr þeim pólitísku áhrifum sem þingmenn hafa í gegnum samtök af þessu tagi. Við verðum auðvitað að gæta þess að ganga ekki svo nærri samtökunum að það dragi úr hinni pólitísku virkni þeirra.

Það er hins vegar athyglisvert og undirstrikar kannski þá breytingu sem hefur orðið í heiminum frá 11. sept., frá hinum hræðilegum hryðjuverkum sem þá voru framin, að Bandaríkjamenn hafa sýnt töluverðan áhuga á að koma aftur til liðs við samtök Alþjóðaþingmannasambandsins. Það sýnir kannski að Bandaríkjamenn, sem höfðu að sumu leyti aukið einangrun sína á fyrri árum, hafa áttað sig á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs. Það er enginn vafi á því að á margan hátt töldu Bandaríkjamenn að hið alþjóðlega samstarf þjóðþinga á þessum vettvangi þjónaði ekki sínu hlutverki fyrir þá sem stórveldi. En ég held að atburðirnir 11. sept. hafi kannski dregið það betur fram eða undirstrikað að það er mikilvægt fyrir þetta öfluga ríki að eiga sem víðtækast samstarf við sem flestar þjóðir í því skyni að treysta áhrif sín og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að orðlengja þetta mál frekar. Ég tel að hlutur okkar Íslendinga í þessu mikla samstarfi sé býsna mikill. Við látum til okkar taka á fundum, flytjum tillögur og fylgjum þeim eftir og ég held að það undirstriki að hlutverk okkar í alþjóðlegu samstarfi getur verið mikið.