Alþjóðaþingmannasambandið 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 17:52:37 (5413)

2002-02-28 17:52:37# 127. lþ. 85.7 fundur 390. mál: #A Alþjóðaþingmannasambandið 2001# skýrsl, EKG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[17:52]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég get svo sem farið fljótt yfir sögu varðandi þær breytingar sem við höfum verið að leggja til á starfi Alþjóðaþingmannasambandsins. Eins og ég sagði áðan verðum við að aðlaga okkur þeim breytingum sem hafa orðið með minnkandi tekjum sambandsins og það höfum við verið að gera með því að leggja til þær breytingar sem hv. þm. vakti athygli á og eru út af fyrir sig ekki mjög mikil tíðindi. Það út af fyrir sig endurspeglar ekkert mat okkar á stöðu Alþjóðaþingmannasambandsins að einu eða neinu leyti. Við vorum einfaldlega að reyna að bregðast við ákveðnum veruleika og reyna að gera það á þann hátt að það dragi sem minnst úr mikilvægu starfi sambandsins að öðru leyti.

Varðandi þau pólitísku álitamál sem hv. þm. ræddi um, þá var það þannig að þarna var tekist mjög harkalega á. Og þetta atriði var mál sem ég hygg að íslenska deildin hafi ekki stutt, a.m.k. ekki í heild sinni. Greidd eru atkvæði um einstök atriði og það er stundum þannig í ýmsum málum að þó menn séu að leita málamiðlunar þá eru slíkar málamiðlunar auðvitað afar erfiðar á þingi þar sem yfir 140 ríki eiga fulltrúa og við höfðum okkar fyrirvara um þetta atriði sérstaklega, eins og hefur reyndar komið fyrir á ýmsum öðrum vettvangi, að við höfum ekki stutt einstök atriði sem hafa komið fram þó það hafi orðið niðurstaða þingsins. Og ég verð að hryggja hv. þm. með því að það eru engin stórpólitísk tíðindi af vettvangi Sjálfstfl. sem endurspeglast í þessari niðurstöðu.