Alþjóðaþingmannasambandið 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 17:55:47 (5415)

2002-02-28 17:55:47# 127. lþ. 85.7 fundur 390. mál: #A Alþjóðaþingmannasambandið 2001# skýrsl, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[17:55]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í þessum fylgiskjölum eru bornar þarna upp gríðarlega margar ályktanir. Eins og ég sagði áðan hefur viðleitnin mjög verið sú að reyna að ná einhverri sameiginlegri niðurstöðu. Það tekst oft en alls ekki alltaf. Menn gera sér grein fyrir hvar mörkin liggja og stundum kjósa menn einfaldlega að láta skerast í odda eins og varðandi Palestínumálið.

Því er ekki að neita að þetta er eitt erfiðasta og vandasamasta málið sem rætt er á þessum vettvangi. Ég geri t.d. ráð fyrir að á þinginu sem fram fer núna um miðjan eða eftir miðjan næsta mánuð verði þetta eitt erfiðasta málið í ljósi þeirra deilna sem uppi eru fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir okkur Íslendinga að tala þar eins og íslenska ríkisstjórnin hefur gert annars staðar, þannig að enginn vafi er á því að það verður.

Annað mál sem oft hefur verið rætt eru t.d. viðhorf varðandi umhverfismálin og þá höfum við haldið uppi okkar séríslensku afstöðu og reynt að gera það skilmerkilega. Hins vegar eru málin dálítið flókin í svona stórum samtökum. Þau eru afgreidd í undirnefndum og síðan borin upp, þannig að í skýrslunni er ekki alltaf hægt að gera nákvæmlega grein fyrir öllum þeim atkvæðagreiðslum sem þar fara fram.