NATO-þingið 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 18:14:14 (5417)

2002-02-28 18:14:14# 127. lþ. 85.9 fundur 510. mál: #A NATO-þingið 2001# skýrsl, TIO (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[18:14]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Á þskj. 803 liggur fyrir skýrsla frá Íslandsdeild NATO-þingsins fyrir árið 2001 og vil ég fylgja skýrslunni úr hlaði með nokkrum orðum.

Árið 2001 var tímamótaár. Hugtökin ógnir, öryggi og varnir tóku á sig áður óþekkta mynd að morgni dags 11. sept. þegar liðsmenn hryðjuverkasamtaka gerðu fólskulega árás á New York og Washington D.C. þar sem þúsundir saklausra borgara létu lífið. Árásirnar á Bandaríkin vógu að hjarta hins frjálsa og lýðræðislega samfélags þjóðanna og þar með að öllum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, meginstoðar öryggis og varna Atlantshafssamfélagsins. Viðbrögð öryggis- og varnarkerfis vestrænna þjóða, undir forustu Bandaríkjanna, einkenndust af yfirvegun.

Nokkrum dögum eftir árásirnar var söguleg ákvörðun tekin á fundi Norður-Atlantshafsráðsins er 5. gr. stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins var beitt í fyrsta sinn í 52 ára sögu þess, en hún kveður á um að vopnuð árás á eitt aðildarríki í Evrópu eða Norður-Ameríku skuli talin árás á þau öll. Yfirlýsing Norður-Atlantshafsráðsins markaði straumhvörf í hálfrar aldar farsælli sögu bandalagsins. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum, hernaðurinn í Afganistan, hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi og hin breytta heimsmynd eftir hryðjuverkaárásirnar höfðu óhjákvæmilega mikil áhrif á öll alþjóðasamskipti og þar með talið starf NATO-þingsins seinni hluta ársins 2001. Sýnt þykir að áhrif þessi verði til langframa og hefur NATO-þingið þegar skipulagt nefndarstörf sín með það að markmiði að fjalla heildrænt um alla þætti hinnar umfangsmiklu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi.

[18:15]

Af öðrum málefnum sem bar hátt á árinu má nefna hin nýju verkefni á sviði Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum en áframhald varð á gagngerri umfjöllun NATO-þingsins í þeim málaflokki. Sem fyrr hefur Íslandsdeild NATO-þingsins lagt áherslu á sem ríkasta þátttöku Íslands og annarra evrópskra aðildarríkja NATO sem standa utan Evrópusambandsins í Petersberg-verkefnunum svonefndu og hefur áréttað hagsmuni Íslands á því málefnasviði. Stækkun NATO til austurs bar enn fremur hátt í störfum NATO-þingsins á árinu. Fyrir liggur að á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Prag haustið 2002 mun verða tekin ákvörðun um næstu lotu stækkunar til austurs. Eystrasaltsríkin þrjú binda miklar vonir við að gerast aðildarríki í næstu stækkun og hefur Íslandsdeild NATO-þingsins lagt ríka áherslu á það í málflutningi sínum að Eistlandi, Lettlandi og Litháen verði boðin formleg aðild. Áframhald varð á umræðum nefnda NATO-þingsins um eldflaugavarnaáætlun Bandaríkjastjórnar og stöðu mála í suðausturhluta Evrópu, einkum þó í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu. Segja má þó að málefni Balkanskaga, sem borið hefur hátt á dagskrá þingsins undanfarin missiri, hafi fallið í skugga annarra verkefna og nýrra ógna á árinu.

Íslandsdeild NATO-þingsins var þannig skipuð á árinu: Aðalmenn Íslandsdeildar NATO-þingsins árið 2001 voru Tómas Ingi Olrich, þingflokki Sjálfstæðisflokks, formaður, Guðmundur Árni Stefánsson, þingflokki Samfylkingarinnar, varaformaður, og Jón Kristjánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Árni R. Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jónína Bjartmarz, þingflokki Framsóknarflokks. Í kjölfar þess að hv. þm. Jón Kristjánsson tók við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu 14. apríl tók Jónína Bjartmarz sæti hans í Íslandsdeildinni 26. apríl. Magnús Stefánsson tók þá sæti sem varamaður.

Ritari Íslandsdeildarinnar var Andri Lúthersson.

NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og svo ársfund að hausti. Auk þess fundar stjórnarnefnd sérstaklega ár hvert, ýmist í mars eða apríl.

Árið 2001 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum svonefndu í Brussel og fundi stjórnarnefndar sem haldinn var í Rómaborg, vor- og ársfundum þingsins í Vilníus og Ottawa, auk átta nefndafunda sem efnt var til utan þingfunda. Ekki verður fjallað um þessa fundi hér, enda liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um þátttöku og framlag Íslandsdeildarinnar í ársskýrslu.

Vil ég þá víkja stuttlega að ársfundi NATO-þingsins sem haldinn var í Ottawa dagana 6.--9. október. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Tómas Ingi Olrich formaður, Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður og Jónína Bjartmarz, auk ritara Íslandsdeildarinnar. Formaður sat fundi stjórnarnefndar og stjórnmálanefndar. Guðmundur Árni Stefánsson sat fundi félagsmálanefndar og Jónína Bjartmarz sat fundi varnar- og öryggismálanefndar.

Sem fyrr sagði var fundurinn haldinn í skugga hryðjuverkanna í Bandaríkjunum og bar þinghaldið þess merki.

Í upphafi fundar stjórnmálanefndarinnar var efnt til opinnar umræðu um áhrif hryðjuverkanna í Bandaríkjunum og tóku margir þingmenn til máls og lýstu yfir samúð með bandarísku þjóðinni og fullum stuðningi við aðgerðir Bandaríkjastjórnar. Fundurinn hófst á því að bandaríski þingmaðurinn Porter Goss, varaformaður nefndarinnar, þakkaði fyrir þann stuðning sem bandaríska þjóðin hefði fengið á undangengnum vikum og ítrekaði mikilvægi þess að allar þjóðir störfuðu saman í baráttunni gegn hryðjuverkum. Í umræðunum sem á eftir fylgdu lýsti formaður Íslandsdeildarinnar yfir fullum stuðningi við Bandaríkjastjórn og sagði að fyrstu viðbrögð hennar eftir árásirnar hefðu einkennst af ákveðnum, yfirveguðum og ábyrgum viðbrögðum við áður óþekktum aðstæðum. Kom þar fram að með árásunum á Bandaríkin þann 11. september hefði í raun verið vegið að hinu frjálsa og lýðræðislega samfélagi ríkjanna og þar með öllum aðildarríkjum NATO. Bandaríkin gætu því reitt sig á stuðning þjóðþinga aðildarríkjanna. Í ræðunni kom fram að hryðjuverkin hefðu ófyrirséðar afleiðingar á mörgum sviðum og að NATO yrði að taka á mörgum álitamálum og hrinda sameiginlegum aðgerðum í framkvæmd. Í fyrsta lagi var bent á hve mikið áfall hryðjuverkin hefðu verið fyrir leyniþjónustur þar sem ekki hefði verið unnt að sjá fyrir í hvað stefndi og bregðast við í tæka tíð. Í þessu tilliti var talið mikilvægt að alþjóðaþing aðildarríkja NATO yrðu í auknum mæli að axla þá ábyrgð að koma almenningi í skilning um mikilvægi samstilltrar baráttu gegn hryðjuverkum og að þjóðaröryggi til lengri tíma litið vægi þyngra en skammtímasjónarmið. Þá var einnig í þessari ræðu greint frá því að viðsjárvert væri hve efnahagslega háð Bandaríkin og raunar vestræn ríki einnig væru Miðausturlöndum hvað orkuframboð varðar. Svæðið fyrir botni Miðjarðarhafs einkenndist oftar en ekki af pólitískum óstöðugleika og hin nýja heimsmynd sem skapaðist eftir hryðjuverkin 11. september gæfi öfgaöflum sem andsnúin væru lýðræði og frelsi markaðarins aukið vægi ef litið væri til orkuforðans sem Miðausturlönd hefðu að geyma. Var því hvatt til þess að ráðamenn hygðu að þeim leiðum sem væru færar til að snúa þessari þróun við, ella stæðu Vesturlönd berskjaldaðri en hægt væri að sætta sig við frammi fyrir miklum og nýjum vanda.

Meðan á haustfundinum stóð hófust hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og Breta í Afganistan sem beint var gegn þeim sem taldir voru sekir um hryðjuverkin í Bandaríkjunum. Atburðir þessir höfðu óhjákvæmilega mikil áhrif á haustfundinn í Ottawa og voru málefni alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi og hinnar breyttu heimsmyndar í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum rædd í öllum málefnanefndum þingsins. Var jafnframt ákveðið í stjórnarnefnd þingsins að umræðan um hryðjuverk skyldi tekin upp í öllum nefndum NATO-þingsins og er ljóst að á komandi starfsári munu pólitísk, efnahagsleg, tæknileg og samfélagsleg viðbrögð við alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi bera mjög hátt í störfum NATO-þingsins. Af öðrum málefnum sem rædd voru á þinginu bar hæst umræðuna um stækkun NATO til austurs. Þá var þróun Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum til umræðu í stjórnmálanefnd og í öryggis- og varnarmálanefnd. Í báðum málaflokkum gerði Íslandsdeildin grein fyrir sjónarmiðum sínum. Öll þessi atriði koma fram í skýrslunni sem hér hefur verið lögð fram, en ég taldi rétt, herra forseti, að gera grein fyrir þeim í stuttu máli.