Vestnorræna ráðið 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 18:43:42 (5423)

2002-02-28 18:43:42# 127. lþ. 85.11 fundur 543. mál: #A Vestnorræna ráðið 2001# skýrsl, 458. mál: #A vestnorræn samráðsnefnd um nýtingu náttúruauðlinda# þál., 459. mál: #A sjálfbær þróun og nýting lífríkis á Vestur-Norðurlöndum# þál., 460. mál: #A heimildaöflun um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[18:43]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Í ræðu minni kynni ég skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins um störf ráðsins á árinu 2001, en skýrslan í heild sinni er lögð fram sem þskj. 848, 543. mál.

Með leyfi hæstv. forseta, mun ég einnig mæla fyrir þremur þáltill. í beinu framhaldi af skýrsluflutningnum, það eru þáltill. sem Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hefur lagt fyrir Alþingi en tillögurnar voru allar samþykktar sem ályktanir á ársfundi Vestnorræna ráðsins í september sl.

Meginmarkmið Vestnorræna ráðsins er eins og öllum er kunnugt að starfa að hagsmunum grannríkjanna þriggja, Grænlands, Færeyja og Íslands, en þessar smáþjóðir norðursins ganga oft undir nafninu Vestur-Norðurlönd. Ráðinu er ætlað að gæta auðlinda, velferðar og menningar þjóðanna á sem víðtækastan hátt. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landstjórna með virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samstarfi við aðra aðila og samtök á Vestur-Norðurlöndum og skipulagningu á ráðstefnum og öðrum verkefnum. Vestnorræna ráðið rekur sérstaka skrifstofu og er framkvæmdastjóri ráðsins Færeyingurinn Ernst Olsen, sem hefur starfstöð hér á hv. Alþingi.

[18:45]

Ég vík nú, herra forseti, að skipan og störfum Íslandsdeildar á liðnu ári.

Í byrjun árs 2001 skipuðu Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins þingmennirnir Árni Johnsen formaður, Hjálmar Árnason varaformaður, Gísli S. Einarsson, Guðmundur Hallvarðsson, Svanfríður Jónasdóttir og Einar Oddur Kristjánsson. Varamenn voru Einar K. Guðfinnsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Birgisson, Ólafur Örn Haraldsson, Guðjón A. Kristjánsson og Arnbjörg Sveinsdóttir. Í ágúst sl. urðu þær breytingar á skipan Íslandsdeildar að Árni Johnsen sagði af sér þingmennsku og tók þá sá er hér stendur tímabundið við formennsku. Frá og með 8. október sl. tók Einar Oddur Kristjánsson við formennsku og sá er hér stendur við varaformennsku, auk þess sem Kjartan Ólafsson tók sæti aðalmanns af hálfu þingflokks Sjálfstæðisflokks. Jóhanna H. Halldórsdóttir var ritari Íslandsdeildar til 31. mars, Stígur Stefánsson gegndi þá starfi ritara tímabundið þar til í byrjun ágúst en þá tók Guðfríður Lilja Grétarsdóttir við starfinu.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt fjóra fundi á árinu. Fyrri hluta árs bar hæst skipulagningu og innlegg Íslandsdeildar til ráðstefnu Vestnorræna ráðsins um veiðimennsku Vestur-Norðurlanda, en ráðstefnan var haldin á Akureyri dagana 11.--14. júní. Íslandsdeildin tók virkan þátt í undirbúningi ráðstefnunnar og ræddi ýmsar tillögur að dagskrá, fyrirlesurum og erindum. Auk þess hafði deildin náið samráð við sérfræðinga hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Akureyrarbæ til að gera ráðstefnuna sem best úr garði.

Kappkostað var að fá gesti úr sem flestum áttum til þess að taka þátt í ráðstefnunni. Veiðimenn, vísindamenn, náttúruverndarsinnar, stjórnmálamenn og aðrir sem sinna veiði og nýtingu lífríkis landanna voru sérstaklega boðnir svo að opin og gagnrýnin umræða mætti skapast ólíkra hópa á milli. Þrjú stór mál voru tekin fyrir á ráðstefnunni. Í fyrsta lagi var fjallað um framtíðarhorfur hins vestnorræna veiðimannasamfélags og stað þess í nútímanum, í öðru lagi var fjallað um tengsl veiðimennsku og ferðamannaiðnaðar og í þriðja lagi um alþjóðlegar umhverfisstofnanir og náttúruvernd og tengsl þeirra við vestnorrænan veruleika. Ráðstefnan þótti einkar vel heppnuð og var einn liður í að halda á lofti þessum sérstæðu einkennum Vestur-Norðurlanda, veiðimennsku og veiðimenningu. Eins og ég mun koma að síðar, herra forseti, fjallar ein þáltill. sem ég mæli fyrir á eftir einmitt um veiðimenningu landanna.

Á fundum sínum hefur Íslandsdeild einnig lagt fram tillögur um aukið samstarf landsdeildanna á vefnum og hvernig nýta megi tölvutæknina betur til að styrkja samstarf og upplýsingaflæði milli landanna þriggja. Í samráði við framkvæmdastjóra vann deildin auk þess að tillögum um hvernig heimasíða ráðsins yrði betrumbætt og uppfærð, en sú vinna er enn í fullum gangi.

Íslandsdeild ræddi einnig tillögur að ýmsum verkefnum sem auka eiga þekkingu almennings á menningararfleifð landanna og styrkja eiga samstarf landanna í æskulýðs- og íþróttamálum.

Íslandsdeild lagði metnað sinn í að ígrunda vel tillögur að ályktunum fyrir ársfund. Nefndarmenn voru sammála um að nauðsynlegt væri að fylgjast betur með afdrifum ályktana ráðsins og að tryggja þyrfti skilvirkara upplýsingaflæði og eftirfylgni við framkvæmd þessara ályktana. Tilgangslaust væri að eyða orku og tíma í samningu og samþykkt ályktana sem aldrei yrðu að veruleika.

Ársfundur ráðsins var haldinn í Nuuk dagana 10.--14. september. Þá var kosin ný forsætisnefnd Vestnorræna þingmannaráðsins. Hana skipa Hjálmar Árnason, formaður Vestnorræna ráðsins og varaformaður Íslandsdeildar, Jógvan Durhuus, fyrsti varaformaður, og Ole Lynge, annar varaformaður. Sem nýkjörinn formaður ráðsins lagði sá sem hér stendur á það áherslu í ræðu sinni að samkomulag samstarfsráðherra Vestur-Norðurlanda um eftirfylgni og upplýsingaflæði um framkvæmd ályktana ráðsins yrði undirritað sem fyrst. Auk þess fjallaði ég í ræðu minni um ýmsa þætti vestnorrænnar samvinnu og leiðir til að efla þá vinnu, einkum á sviði menningarmála, íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Fundurinn fagnaði nýfenginni áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að þingmannanefnd um norðurskautsmál, en sú aðild var samþykkt á fundi þingmannanefndarinnar á Akureyri í ágúst sl. Ljóst er að málefni Vestur-Norðurlanda og málefni annarra ríkja við norðurskaut skarast á margvíslegan hátt og því ætti náið samstarf að vera beggja hagur.

Ársfundur samþykkti samhljóða þrjár tillögur um samvinnu ríkjanna. Ég mun síðar í máli mínu, herra forseti, kynna þessar ályktanir sérstaklega og mæla fyrir þeim.

Síðla hausts átti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundi með ráðherrum Vestur-Norðurlanda en fundirnir voru haldnir þann 30. október sl. samhliða þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Fundirnir þóttu einkar árangursríkir að þessu sinni og gáfu tækifæri til að fylgja eftir ýmsum áhersluatriðum sem rædd höfðu verið á ársfundi ráðsins.

Af fundunum mætti fyrst nefna að samstarfsráðherrar landanna samþykktu að skrifa undir yfirlýsingu sem tryggja á betra upplýsingaflæði og eftirlit með framkvæmd ályktana Vestnorræna ráðsins. Formleg undirskrift er ráðgerð um miðjan apríl nk. á meðan þemaráðstefna Norðurlandaráðs stendur hér í Reykjavík og er það vissulega fagnaðarefni og langþráð baráttumál Vestnorræna ráðsins þá í höfn.

Á fundi með menntamálaráðherrum landanna lýstu ráðherrar yfir stuðningi sínum við barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins en ráðið samþykkti árið 1999 að efna til slíkra verðlauna. Verðlaunin skulu veitt annað hvert ár og ein bók er útnefnd í hverju landi. Ráðuneyti landanna ábyrgðust að sjá um og borga allar þýðingar á verkunum sem tilnefnd væru. Menntamálaráðherrarnir sögðu einnig frá ýmiss konar ánægjulegu samstarfi landanna á milli, svo sem í tölvumálum grunnskóla, íþróttamótum, ráðstefnu vestnorrænna ungmennahreyfinga og öðru slíku. Þeir sögðu margt vera að gerast á þessu sviði og þökkuðu það m.a. ályktunum Vestnorræna ráðsins á liðnum árum.

Á sérstökum fundi með forstöðumönnum Norrænu húsanna var farið yfir stöðu mála varðandi veiðimenningarsýningu sem opnuð verður á vegum Vestnorræna ráðsins hinn 15. júní 2002 í Þórshöfn í Færeyjum. Undirbúningur gengur mjög vel og tölvulíkan af sýningunni mæltist vel fyrir. Ráðgert er að sýningin verði sett upp í ýmsum norðlægum löndum og margir hafa sýnt verkefninu áhuga og stuðning. Sýningin er þegar bókuð á öllum Norðurlöndum, sem og á Írlandi, Skotlandi og víðar.

Að lokum má nefna að samhliða öðrum fundum efndi forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins til blaðamannafundar vegna útgáfu bókarinnar ,,Viljen til Vestnorden``. Í þessari stuttu og handhægu bók, undir ritstjórn Ole Lindboes og Ernst Olsens, framkvæmdastjóra Vestnorræna þingmannaráðsins, er að finna margvíslegar ritgerðir og vangaveltur um vestnorrænu löndin og einkenni þeirra. Bókinni er ætlað að vekja athygli á sameiginlegum einkennum vestnorrænu landanna og vekja umræðu um stöðu þeirra. Forsætisnefnd og Ole Lindboe sátu fyrir svörum á vel sóttum blaðamannafundi um bókina, en bókinni hefur m.a. verið dreift til bókasafna og skóla á Vestur-Norðurlöndum auk þess sem þingmenn ættu allir að hafa fengið hana í hendur.

Margvísleg verkefni bíða Vestnorræna ráðsins á árinu 2002. Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins verður haldin í Þórshöfn dagana 13.--14. júní nk. og mun að þessu sinni verða fjallað um samgöngumál. Samgöngur landanna á milli eru, eins og vitað er, bæði dýrar og stopular og ráðstefnunni er ætlað að kanna frá sem flestum sjónarhornum hvaða úrbætur koma til greina í þessum málaflokki. Íslandsdeild hefur þegar hafið undirbúning að framlagi Íslands til ráðstefnunnar og hafið viðræður við aðila hérlendis sem lagt gætu málefninu lið.

Þá munu barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins verða veitt í fyrsta sinn á ársfundi ráðsins hér á landi í ágúst nk. Verðlaunin eru að upphæð 60.000 danskar krónur en verðlaunin skulu veitt annað hvert ár og ein bók er tilnefnd í hverju landi. Íslenska dómnefndin sem tilnefnir fulltrúa Íslands hefur nú þegar hafið störf og úrskurðar nefndarinnar að vænta þann 15. apríl nk.

Meginmarkmið verðlaunanna er að styðja við bókmenntahefð Vestur-Norðurlanda og hvetja barna- og unglingabókahöfunda til dáða. Auk þess er vonast til að með verðlaununum verði ungmennum Vestur-Norðurlanda gert betur kleift að kynna sér vestnorrænar bókmenntir og menningu, og gert er ráð fyrir því að bækurnar komi að gagni í fræðslu- og skólastarfi landanna.

Það er því ljóst, herra forseti, að margvísleg málefni eru á döfinni innan Vestnorræna ráðsins sem snerta hagsmuni, velferð og menningu þjóðanna þriggja. Það er von Íslandsdeildar að þessum málum verði áfram gert hátt undir höfði hér á Alþingi.

Að þessu orðum sögðum, herra forseti, læt ég lokið tölu minni um skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2001 en vík að þeim þáltill. sem liggja fyrir Alþingi af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.

Fyrsta þáltill. sem ég mæli fyrir á þskj. 738, 458. mál, hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, að koma á fót níu manna samráðsnefnd um nýtingu náttúruauðlinda. Nefndina skipi þrír fulltrúar frá hverju vestnorrænu landanna.``

Í grg. með tillögunni segir, með leyfi forseta:

,,Vestur-Norðurlönd búa yfir stórum haf- og landsvæðum þar sem fjölbreytilegar náttúruauðlindir er að finna. Afkoma vestnorrænu þjóðanna byggist öðru fremur á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu þessara auðlinda. Augu flestra beinast í þessu samhengi einkum að þeim auði sem býr í fiski og sjávarafurðum, en löndin eiga einnig margs konar aðrar nýtanlegar náttúru- og orkulindir sem gætu síðar meir orðið afar dýrmætar fyrir afkomu þeirra.

Aukið samstarf og upplýsingaflæði landanna á milli í þessum efnum gæti reynst þeim einkar notadrjúgt, ekki síst þar sem sérfræðingar þeirra búa að þekkingu á mismunandi sviðum auðlindanýtingar. Færeyingar hafa til dæmis mikla reynslu af olíuleit og ýmsum þáttum er lúta að uppbyggingu olíuiðnaðar, Íslendingar geta aftur á móti miðlað af reynslu sinni í orkumálum. Það gefur því augaleið að þjóðunum væri mikill akkur í skipulegri samræðu um auðlindanýtingu. Þannig mundu þær ekki einungis læra hver af annarri, heldur einnig koma í veg fyrir tvíverknað og mistök. Sérstök vestnorræn samráðsnefnd sérfræðinga, stjórnmálamanna og annarra sem reynslu hafa af auðlindanýtingu mundi gegna því hlutverki að tryggja upplýsingaflæði, þekkingarleit og samstarf landanna á milli. Þar eð mikilvægt er að sem flestir komi að þessari vinnu og úr sem flestum áttum yrði nefndin skipuð níu manns með þremur fulltrúum frá hverju landi. Nefndin kysi sér formann.``

Önnur þáltill. sem ég mæli hér fyrir á þskj. 739, 459. mál, hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, að halda alþjóðlega ráðstefnu um sjálfbæra þróun og nýtingu lífríkis á Vestur-Norðurlöndum. Tilgangur með ráðstefnuhaldinu væri að efna til opinnar og gagnrýnnar umræðu á milli sem flestra fylkinga um þessi málefni og ráðstefnugestir kæmu úr mismunandi áttum, þar yrðu fulltrúar stjórnmálamanna, vísindamanna, leikmanna og ólíkra hagsmunasamtaka, svo sem dýra- og náttúruverndarsamtaka.``

Herra forseti. Á þskj. 739 er nokkuð ítarleg greinargerð og hygg ég að frekari orð þurfi ekki um tillöguna, hún skýrir sig í rauninni sjálf. Markmiðið er að leiða saman ólíka menningarhópa ef svo má segja, þá menningu sem einkennir Vestur-Norðurlönd og svo aftur það sem kalla mætti borgarmenninguna og reyna að finna sameiginlega lausn á árekstrum sem oft hafa komið upp á milli þessara tveggja ólíku menningarhópa.

Þriðja þáltill. sem ég mæli fyrir, herra forseti, er á þskj. 740, 460. mál. og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, að efna til samstarfs um heimildaöflun og skráningu gagna um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda svo að þekking á þessari sameiginlegu arfleifð gleymist ekki.``

Herra forseti. Ég hygg að þessi þáltill. skýri sig einnig nokkuð sjálf. Svo sem kunnugt er hefur þróun orðið nokkuð hröð á Vestur-Norðurlöndum sem og annars staðar í heiminum. Við sjáum á Íslandi hvernig veiðimenning okkar hefur verið að víkja fyrir tæknivæðingu, ekki síður á það við um Færeyjar og Grænland. Markmið þessarar þáltill. er í rauninni ekki annað en það að skrá niður eða taka myndir af, nema hvort tveggja sé, og tryggja með því heimildaöflun um þá veiðimenningu sem einkennt hefur Vestur-Norðurlönd en kann að vera á undanhaldi vegna tæknivæðingar. Þess vegna teljum við afskaplega brýnt að ná þessari menningu, að afla heimilda til þess að varðveita fyrir óbornar kynslóðir.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég vil að síðustu þakka Íslandsdeildinni, félögum mínum í Íslandsdeild og ekki síður starfsfólki, riturum Íslandsdeildarinnar, gott samstarf á liðnu ári og lýsa ánægju minni með störf nefndarinnar. Ég læt með þessum orðum lokið máli mínu um starfsemi og þáltill. Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og vonast til að þeim þremur þáltill. sem ég hef mælt fyrir verði vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.