Fangelsismálastofnun

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:03:55 (5428)

2002-03-04 15:03:55# 127. lþ. 86.91 fundur 368#B Fangelsismálastofnun# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna upplýsinga sem fram hafa komið þess efnis að Fangelsismálastofnun sé í verulegum vandræðum og fyrir liggi að fangelsin verði hugsanlega lokuð um tíma, deild á Litla-Hrauni verði hugsanlega lokað og jafnvel að Skólavörðustígnum verði lokað í sumar.

Það sem vekur sérstaka athygli mína, virðulegi forseti, er að í fréttum af þessum lokunum hefur komið fram að hæstv. dómsmrh. hefur heimilað 50% hækkun á almennum númeraplötum og það hlýtur að teljast dálítið sérstætt í ljósi þess að hæstv. forsrh. hefur gengið milli manna, kaupmannsins á horninu, verkalýðshreyfingarinnar og fleiri, þeirra erinda að tryggja það að verðhækkunum verði haldið í lágmarki.

Einnig hefur komið fram að ástæða þessarar hækkunar er m.a. sú að bílainnflutningur hefur dregist saman. Enn fremur hefur þetta haft áhrif vegna þess að smábátar hafa verið kvótasettir því að Fangelsismálastofnun hefur tekjur annars vegar af bílainnflutningi sökum þess að þeir eru með númeraplöturnar og hins vegar að fangar hafa verið að beita fyrir smábáta. Því beini ég því til hæstv. dómsmrh. hvaða innlegg það sé í baráttu verkalýðshreyfingarinnar og annað til þess að tryggja að verðlagsþróun hér verði í samræmi við þau markmið sem náðst hafa, og enn fremur, virðulegi forseti, hvaða verðlagshækkanir búa að baki því að nauðsynlegt hefur verið að hækka verð á númeraplötum um 50% því að það hefur ekki komið fram í umræðunni að laun fanga sem að þessu standa hafi hækkað eða nokkur annar kostnaður.

Virðulegi forseti. Ég beini þessu til hæstv. dómsmrh.