Fangelsismálastofnun

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:05:42 (5429)

2002-03-04 15:05:42# 127. lþ. 86.91 fundur 368#B Fangelsismálastofnun# (aths. um störf þingsins), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil segja að ég hef einmitt beðið um sérstakar upplýsingar út af þessu máli og þeim fréttaflutningi sem hv. þm. spyr um. Það er alveg ljóst að fjárhagsstaða fangelsanna er afar slæm og ástæður eru ýmsar eins og forstjóri Fangelsismálastofnunar hefur útskýrt. Við höfum m.a. brugðist við með því að auka tekjur fangelsanna af númeraplötum í samræmi við kröfur fjárlaga um sértekjur fangelsanna en það eitt og sér er því miður ekki nægilegt til þess að tryggja að ekki þurfi að grípa til lokana eins og forstjórinn gerði tillögur um til að mæta rekstrarvandanum.

Þessar upplýsingar um stöðu fangelsanna eru tiltölulega nýjar og eiga auðvitað eftir að fá meiri umfjöllun innan stjórnkerfisins. Ég hef fundað með fjmrh. sérstaklega út af stöðu fangelsanna og verið er að vinna í þessu máli.

Númeraplötur hafa verið framleiddar á Litla-Hrauni um 12 ára skeið og þær hafa reynst ákjósanlegt verkefni fyrir fanga. Meginreglan er sú að selja plöturnar á kostnaðarverði en verðákvörðun hefur verið gerð á nokkurra ára fresti. Þegar síðasta breyting var gerð hafði kostnaðarverð hækkað óvenjumikið frá síðustu verðákvörðun sökum verðhækkana á efni sem kemur erlendis frá.

Í tilefni af ummælum framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda hef ég beðið um verðútreikninga og ég get látið þá hér í té. Þess skal getið að framleiðsla bílnúmera er algengt verkefni í fangelsum erlendis og byggir það m.a. á því að það þarf að hafa strangt eftirlit með slíkri framleiðslu.

Út af öðrum ummælum hv. þm. get ég líka upplýst að haft var samband við Hagstofuna í sambandi við áhrif á vísitöluútreikninga og þau reyndust hverfandi en þá útreikninga og upplýsingar hef ég undir höndum ef hv. þm. hefur áhuga á að fá það afhent.