Fangelsismálastofnun

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:09:53 (5431)

2002-03-04 15:09:53# 127. lþ. 86.91 fundur 368#B Fangelsismálastofnun# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það var eins með mig og marga aðra hv. þm. að mér brá eilítið í brún að heyra fréttir helgarinnar sem sneru að stöðu fangelsismála og fjárhagserfiðleikum við rekstur fangelsa. Hæstv. ráðherra hefur reynt að skýra stöðu þeirra mála en eftir standa engu að síður, að minni hyggju, tvær veigamiklar spurningar sem ég óska eftir að fá skýrari svör við.

Í fyrsta lagi. Þykir hæstv. ráðherra það eðlilegt að framleiðsla númeraplatna sem fangar inna af hendi og er hið besta mál í sjálfu sér, vegi svo þungt í fjárhagslegu tilliti í rekstri fangelsanna sjálfra að þar þurfi menn að hækka og lækka verð þeirra eftir hendinni og það sé í beinu samhengi við umfang í starfsemi fangelsanna? Það þykir mér alls ekki og geri ég þó að engu leyti lítið úr þessari mikilvægu framleiðslu og það að fangarnr hafi eitthvað nýtilegt fyrir stafni og fái jafnframt einhverja aura fyrir.

Í annan stað vakti hæstv. ráðherra athygli á því að hann hefur nú þegar óskað eftir viðræðum við fjmrh. vegna þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um að loka verði deildum sökum þess að ekki eru fjármunir til staðar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra þar sem tveir mánuðir eru liðnir af yfirstandandi fjárhagsári og ástandið blasir nú þegar við: Hefur eitthvað gerst á þessum tveimur mánuðum frá því að fjárlög voru samþykkt og frágengin sem gerir það að verkum að þetta eru alveg nýjar fréttir í herbúðum ríkisstjórnarinnar?