Umræða um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:17:11 (5435)

2002-03-04 15:17:11# 127. lþ. 86.97 fundur 372#B umræða um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er ekki við öðru að búast en þeim vinnubrögðum sem hér hefur verið lýst. Við höfum séð hvernig stjórnarliðar hafa tekið á þessu máli frá upphafi og fylgst með ferlinu frá því fyrir kosningar, þegar þjóðinni var lofað sátt í þessu máli. Síðan höfum við fylgst með þeim nefndum sem fjölluðu um málið og hvernig stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um þennan feril allan. Þegar svokölluð sáttanefnd skilaði af sér í pörtum sem lýst var áðan lá ljóst fyrir að meiningin var aldrei að ná neinni sátt nema milli stjórnarflokkanna við LÍÚ um þetta mál. Það er þess vegna keyrt áfram.

Þegar sambærilegt mál stjórnarandstöðunnar er lagt fram í þinginu hefði maður náttúrlega talið eðlilegt að það væri tekið til umræðu og menn fengju að ræða hvort einhver flötur væri á samstarfi um að leysa málið á grundvelli þeirrar tillögu. En ekki aldeilis. Það er ekki meiningin að taka það á dagskrá áður en niðurstaða stjórnarflokkanna, sem er ekki einu sinni orðin niðurstaða, verður tekin til umræðu.

Hæstv. forsrh. hefur þegar lýst því yfir að sjútvrh. eigi mikið verk fyrir höndum til að ná samkomulagi við menn í stjórnarliðinu um þetta mál og vilji hann ná einhverju samkomulagi við stjórnarandstöðuna sé það verkefni líka eftir.

Svona hafa þessi vinnubrögð verið alla tíð og með þeim er engin von til að nokkurn tíma náist sátt í þessu mikla deilumáli sem hér hefur verið bryddað á umræðum um.