Umræðuefni undir þessum lið

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:20:46 (5437)

2002-03-04 15:20:46# 127. lþ. 86.98 fundur 407#B umræðuefni undir þessum lið# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:20]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þetta var dálítið sérstæð ræða hjá hv. formanni þingflokks sjálfstæðismanna, Sigríði Önnu Þórðardóttur.

Þrátt fyrir skýr ákvæði þingskapa hefur ákvæðið fengið á sig hefð og menn hafa unnið samkvæmt því um nokkuð langt skeið. Undir þessum lið hafa menn tekið upp þau málefni sem efst eru á baugi hverju sinni til að ná til hæstv. ráðherra. Það næst ekki til þeirra á hverjum degi.

Hins vegar vill svo til í þessu tilviki að ráðherra er m.a. borin þeim sökum í fjölmiðlum að hafa með þessum hækkunum lagt á skatta en ekki þjónustugjöld. Ég held að það sé mjög eðlilegt að menn taki það upp hér við umræður um störf þingsins. Það er einmitt hér sem þinginu er ætlað að veita ráðherrunum aðhald. Það er einmitt hér sem við getum borið upp fyrirspurnir við hæstv. ráðherra, einmitt undir þessum lið. Sú hefð hefur skapast að menn beiti þessum lið til að ræða þessi mál.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ræða hv. þm. ber þess vott að ekki eigi að fylgja þeirri hefð sem hér hefur skapast heldur beygja af leið. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér þótti miður að sú ræða var flutt.