Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:29:50 (5441)

2002-03-04 15:29:50# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það mál sem ég fylgi úr hlaði á sér langan aðdraganda, jafnlangan og núverandi skipulag fiskveiðistjórnar hér við land ef grannt er skoðað. Hvorki er tími né ástæða til að rekja þá sögu alla. Mun ég því fyrst bregða niður fæti þar sem er samþykkt þáltill. sem þingmenn þáv. Alþýðubandalags fluttu á 122. löggjafarþingi 1997--1998, um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald. Þáltill. var samþykkt án mótatkvæða og var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa níu manna nefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, m.a. öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda, námur í jörð, orku í rennandi vatni og jarðhita neðan við 100 m dýpi. Nefndin skilgreini þessar auðlindir á skýran hátt og hvernig skuli með þær farið. Nefndin kanni einnig hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar, með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru. Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.

Um verði að ræða hóflegt gjald sem varið verði til að standa undir rannsóknum og til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlindanna og réttlátri skiptingu afrakstursins, m.a. til að styrkja byggð í landinu.``

Skipan auðlindanefndarinnar og síðan niðurstaða hennar var meginvendipunktur í öllum þessum málum. Í ljósi þessa er sérstök ástæða til að gefa niðurstöðum auðlindanefndarinnar sérstakan gaum. Hlutverki sínu lýsir nefndin með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

,,Nefndin hefur talið hlutverk sitt felast fyrst og fremst í því að gera tillögur um samræmda meginstefnu í stjórn auðlinda með sérstakri áherslu á stjórn og nýtingu auðlinda í þjóðareign en í samræmi við þingsályktun þá sem nefndin starfar eftir hefur hún gengið út frá því að þær eignir sem taldar eru upp í ályktuninni og nú eru í þjóðareign verði það áfram. Nefndin hefur hins vegar ekki talið það verkefni sitt að útfæra tillögur sínar í smáatriðum eða í formi fullbúinna frumvarpa.``

Um nytjastofna á Íslandsmiðum segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Nefndin hefur fjallað rækilega um fiskveiðar Íslendinga og telur að byggja eigi stjórn þeirra áfram á núverandi grunni þótt hún telji ýmsar breytingar á núgildandi reglum í átt að auknu frjálsræði í meðferð og handhöfn aflaheimilda æskilegar. Nefndin er þeirrar skoðunar að greiðsla fyrir afnot af auðlindinni geti stuðlað að því að sátt geti tekist um stjórn fiskveiða, enda verði sú gjaldtaka ákveðin með hliðsjón af afkomuskilyrðum og uppbyggingu sjávarútvegsins og þeirri óvissu sem hann á við að búa, m.a. vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á aflabrögðum og vegna alþjóðlegrar samkeppni, þar á meðal þau skilyrði sem sjávarútvegur annarra þjóða býr við. Til viðbótar slíkum rökum fyrir því að fara með gát í þessum efnum vísar nefndin til þess að í þingsályktun þeirri sem hún starfar eftir er beinlínis tekið fram ,,að um verði að ræða hóflegt gjald``.``

Og enn fremur, herra forseti:

,,Varðandi greiðslu fyrir afnot af auðlindinni hefur nefndin tekið tvær meginleiðir til skoðunar. Fyrri leiðin, sem nefnd hefur verið fyrningarleið, byggist á því að allar aflahlutdeildir verði skertar árlega um fastan hundraðshluta en síðan verði þær endurseldar á markaði eða með uppboði. Síðari leiðin, nefnd veiðigjaldsleið, felst hins vegar í beinni gjaldtöku ásamt ákvæðum um að breytingar á aflahlutdeildum krefjist ákveðins lágmarksaðdraganda.``

Ég skipaði nefnd í september 1999 til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og lauk hún störfum sl. haust. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Nefndinni ber að taka tillit til hagsmuna sjávarútvegsins, byggðanna og almennings í landinu í starfi sínu.

Markmið breytinganna er að ná fram sem víðtækastri sátt landsmanna um fiskveiðistjórnarkerfið. Þess skal þó gætt að fórna ekki markmiðum um skynsamlega nýtingu og bætta umgengni um auðlindir sjávar né heldur raska hagkvæmni og stöðugleika í greininni.``

Eins og sjá má af tilvitnuninni sem ég las voru nefndinni á engan hátt settar skorður í störfum sínum, t.d. hvað val leiða eða annað varðar. Eins og við mátti búast reyndust skoðanir skiptar en rétt eins og raunin varð í auðlindanefndinni var meiri hluti nefndarinnar hlynntur veiðigjaldsleiðinni. Endurskoðunarnefndin útfærði þá leið hins vegar öllu nánar og lagði til að gjaldinu yrði skipt í kostnaðargjald og sérstakt afkomutengt gjald. Þannig yrði innheimt gjald sem tæki mið af stjórn fiskveiða og breytilegur hluti sem tengist afkomunni í greininni. Með því móti var reynt að nálgast auðlindarentuna sjálfa sem mundi tryggja almenningi sýnilega hlutdeild í arði að auðlindinni.

Á veiðigjaldsleið og fyrningarleið sem rétt er að kalla uppboðsleið er grundvallarmismunur því að eftir veiðigjaldsleið er reynt að tryggja þeim sem nytja auðlindina mikilvægt rekstraröryggi án þess að þeir séu á nokkurn hátt firrtir þeim aga og aðhaldi sem samkeppni á frjálsum markaði tryggir. Með uppboðsleiðinni yrði rekstraröryggi hins vegar sett í uppnám, enda var það svo að tveir nefndarmenn í auðlindanefndinni skiluðu sérbókun gegn uppboðsleiðinni og sá þriðji skilaði bókun sem fólst í grundvallarafstöðu sem er ósamrýmanleg þeirri leið. Við frekari úrvinnslu málsins þótti sýnt að leið sú sem endurskoðunarnefndin lagði til yrði á ýmsan hátt torfær í framkvæmd af skattalögfræðilegum ástæðum. Í fyrirliggjandi frv. er því lagt til að innheimt verði eitt magn og afkomutengt veiðigjald og nær þetta eina gjald þeim meginmarkmiðum sem endurskoðunarnefndin leitaðist eftir að ná í tillögum sínum.

Vík ég nú, herra forseti, að frv. sjálfu. Í greinargerð þess segir m.a.:

Í frv. er gert ráð fyrir að lagt verði á magn- og afkomutengt veiðigjald. Með því móti næst fram hvort tveggja í senn, tenging við afkomu og magn veiðiheimilda hverju sinni. Er hér um að ræða útfærslu á hugmyndum nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Er gjaldið fundið út með því að draga helstu kostnaðarliði útgerðarinnar, olíu, laun og annan rekstrarkostnað ákveðins tímabils, frá aflaverðmæti sama tímabils. Gerir frv. ráð fyrir að 9,5% þeirrar fjárhæðar sem eftir stendur, reiknað í krónum á þorskígildiskílógrömm, verði lagt á þorskígildiskílógrömm komandi fiskveiðiárs. Til þess að fyrirtæki geti aðlagað rekstur sinn að breytingum er lagt til að veiðigjaldið verði tekið upp í áföngum á árunum 2004--2009.

Afkomutengingin sem gert er ráð fyrir í frv. er útfærð þannig að miðað er við að frá heildaraflaverðmæti ákveðins liðins tímabils séu dregnir stærstu kostnaðarliðir útgerðarinnar, þ.e. reiknuð laun, olíukostnaður og annar rekstrarkostnaður. Þær tekjur sem eftir standa þegar þessi kostnaður hefur verið greiddur verða notaðar sem grundvöllur gjaldtökunnar á komandi fiskveiðiári. Með þessu móti er tekið tillit til þeirra þátta sem mest áhrif hafa á afkomu útgerðarinnar, þ.e. sveiflna í fiskverði og afla og sérstaklega skilgreindra kostnaðarliða útgerðarinnar.

Magntenging gjaldsins samkvæmt frv. kemur til með tvennu móti. Annars vegar sem hluti af afkomutengingunni þar sem aflamagn mun hafa mikil áhrif og hins vegar við álagningu gjaldsins þar sem miðað er við að fast gjald sé lagt á hvert þorskígildiskílógramm. Með þessu er tryggt að álagning gjaldsins taki tillit til breytinga sem kunna að verða á afla og aflaheimildum.

Eins og sjá má af töflu sem birt er í almennum athugasemdum frv. má gera ráð fyrir að aflaverðmæti á viðmiðunartímabili veiðigjalds sem lagt yrði á 1. september nk. ef frv. væri að fullu komið til framkvæmda næmi 78 millj. kr. Þegar launa-, olíu- og annar kostnaður við veiðarnar er dreginn frá tekjunum standa eftir 22,3 milljarðar kr. Af þeirri fjárhæð er gert ráð fyrir að útgerðin greiði 9,5% veiðigjald eða rúmlega 2,1 milljarð kr.

Rétt er að hafa í huga að þá á útgerðin eftir að greiða allan fjármagnskostnað, arð til hluthafa og skatta og einnig á eftir að gjaldfæra afskriftir af varanlegum rekstrarfjármunum. Þannig er sýnt að verði frv. að lögum hefur það auknar álögur á útveginn í för með sér. Það sýnist vera í samræmi við fyrirliggjandi stefnumótun, bæði auðlinda- og endurskoðunarnefndar, sem m.a. styðst við þann skilning að almenningi beri sýnileg hlutdeild í hagnaði af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Jafnframt kemur þar til sá skilningur að atvinnugreinum beri hverri fyrir sig að taka aukinn þátt í útgjöldum sem hljótast beint af starfsemi þeirra.

Í frv. er jafnframt gert ráð fyrir að lagagrunnur að rannsóknaveiðum Hafrannsóknastofnunarinnar sé gerður afdráttarlaus. Tillaga er um að sjútvrh. geti að höfðu samráði við Byggðastofnun ráðstafað allt að 1.500 lestum af óslægðum botnfiski til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Er gert ráð fyrir að þessar 1.500 lestir verði teknar af þeim heimildum sem ráðherra hefur nú samkvæmt 9. gr. laganna um stjórn fiskveiða til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru.

Eins og kunnugt er lagði meiri hluti endurskoðunarnefndar til að rýmka kvaðir á veiðiskyldu en eins og málum er háttað er hún 50%, þ.e. að ef fiskiskip veiðir minna en helming af úthlutuðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð fellur hlutdeildin niður. Meiri hlutinn taldi að gera ætti fyrirtækjum enn frekar kleift að nýta sér þann sveigjanleika sem aflamarkskerfið býður upp á í þeim tilgangi að bæta afkomuna og minnka þessa veiðiskyldu í 25%.

Eftir áramót tóku allir stærstu hagsmunaaðilar í sjávarútvegi sig saman og lögðu til, þvert á hugmyndir meiri hluta nefndarinnar, að lögunum yrði breytt á þann veg að sveigjanleikinn yrði minnkaður til muna. Gengu tillögurnar út á það að takmarka mjög það magn sem skip geta framselt og það sem kannski var sérstakara að einnig var lagt til að takmarka bæri möguleika skipa til að flytja til sín aflamark. Jafnvel þótt það gæti á margan hátt verið góður kostur að breyta lögum í þá veru sem hagsmunaaðilar hafa óskað eftir tel ég það ekki ráðlegt. Hugmyndir hagsmunaaðila stríða gegn hagsmunum margra einstaklinga og fyrirtækja í sjávarútvegi og því er 180° beygja í þessa veru ekki til þess fallin að auka sátt um stjórn fiskveiða. Ég er hins vegar sammála þeirri greiningu hagsmunasamtakanna að það skapi margan vanda að fiskiskipaflotinn skuli vera að stækka á ný sem rekja má til dóms Hæstaréttar frá því í desember 1998. Dómurinn hefur síst orðið til þess að hjálpa til við stjórn fiskveiða. Þá hefur hann dregið úr hagkvæmni í greininni og gert okkur erfiðara með að ná tökum á auknum útblæstri fiskiskipa eins og okkur er uppálagt samkvæmt alþjóðasamningum.

Flestum tillögum endurskoðunarnefndarinnar um stjórn veiða krókabáta hefur þegar verið hrint í framkvæmd með lagabreytingum. Fyrirliggjandi frv. gerir þó ráð fyrir að lögfest verði sú tillaga að takmarkanir á stærð krókabáta verði rýmkaðar úr 6 brúttólestum eða brúttótonnum eins og nú er í 15 brúttótonn. Þá er í frv. lagt til að tillögum meiri hluta nefndarinnar um hámarksaflahlut verði fylgt en meiri hluti taldi ákvæði 11. gr. laga um stjórn fiskveiða óþarflega þröng hvað þetta varðar. Að mati meiri hlutans koma þessar reglur í veg fyrir að hagkvæmni stærðarinnar sé nýtt og hamla sérhæfingu fyrirtækja. Er því lagt til að hámarkshlutdeild einstakra aðila í þorski verði 12% en hámarkshlutdeild í öðrum bolfiskstegundum verði 50%, og 20% í uppsjávarfiski. Enn fremur er lagt til að samanlögð aflahlutdeild einstakra aðila verði 12% óháð því hvort fyrirtæki eru í dreifðri eignaraðild.

Í frv. er lagt til að settar verði ákveðnar reglur um hvenær unnt verði að flytja aflamark á milli skipa. Samkvæmt þessari grein er það fyrst unnt þegar aflamarkinu hefur verið úthlutað og lýkur fresti til þess 15 dögum eftir að veiðitímabilinu lýkur. Þá er lagt til að heimild til flutnings sé takmörkuð þannig að aflaheimildir séu ekki bersýnilega umfram veiðigetu skipsins. Gerðar eru tillögur um breytingar á þeim reglum sem nú heimila Fiskistofu að samþykkja að vikið sé frá takmörkunum á heimild til flutnings aflamarks. Þá er gert ráð fyrir að heimild ákvæðis til flutnings aflaheimilda milli skipa innan sömu útgerðar verði rýmkuð.

Hér að framan hafa helstu atriði frv. verið rakin en í því er einnig að finna aðrar breytingar á nokkrum greinum og eru þessar helstar.

Í 2. gr. frv. er lagt til að felldir verði út hlutar málsliða sem ekki þjóna lengur tilgangi í lögunum en hafa dagað uppi í kjölfar eldri breytinga laganna. Hefðu breytingar samkvæmt greininni því ekki efnislega þýðingu við framkvæmd laganna en gerðu texta þeirra skýrari.

Í 3. gr. er lagt til að eiganda skips sem aflareynsla er bundin við vegna veiða á viðmiðunartímabili í 1. mgr. 8. gr. verði heimilað að ráðstafa hlutdeildinni sem skip hans hefði fengið við úthlutun á það skip sem hann kýs hafi skip hans horfið úr rekstri áður en til úthlutunar kom. Samkvæmt 8. gr. er lagt til að 14. gr. núverandi laga verði felld úr gildi en þar segir að sérstök samráðsnefnd sem skipuð skuli einum fulltrúa sjómanna, einum fulltrúa útgerðar auk formanns sem skipaður sé af ráðherra skuli fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi veiðileyfi, úthlutun aflahlutdeildar og aflamarks samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og gera tillögur til ráðherra um úrlausn þeirra.

Í 9. gr. er lagt til að gert verði að skyldu að tilkynna Fiskistofu um eigendaskipti að fiskiskipi eða aðrar breytingar á útgerðaraðild fiskiskips sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd tilkynningarskyldu. Þetta er gert til að gera Fiskistofu betur kleift að gegna því eftirliti sem stofnuninni er ætlað að hafa með þeim sem veiðar stunda hér við land.

Í lokagrein frv. er lagt til að lögin öðlist þegar gildi. Þó er lagt til að þau ákvæði laganna er varða veiðigjald taki ekki gildi fyrr en 1. sept. 2004. Með þessu verði veittur aðlögunarfrestur að gjaldtökunni í samræmi við tillögur nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Til að veita frekari aðlögunarfrest er lagt til að álagningu gjalda samkvæmt 4. mgr. 23. gr., sbr. 1. mgr. 24. gr., verði komið á í jöfnun þrepum 2004--2009. Þannig verði veiðigjald miðað við 6% í stað 9,5% árið 2004 og hækki síðan í jöfnum þrepum árlega og endi þannig í 9,5% árið 2009.

Herra forseti. Hér hef ég fylgt úr hlaði frv. sem m.a. felur í sér að leggja skuli veiðigjald á sjávarútveginn, sem er í samræmi við þál. þá sem Alþingi samþykkti og kvað á um að innheimta skyldi hóflegt veiðigjald. Síðan verður fjallað um það í auðlinda- og endurskoðunarnefndum.

Ég gat þess í upphafi ræðu minnar að þál. um auðlindagjald hafi verið samþykkt á Alþingi mótatkvæðalaust. En auðvitað vitum við að ýmsir voru á móti gjaldtöku af þessu tagi og það eru því einmitt þeir sem mest hafa gefið eftir í því skyni að skapa sátt um stjórn veiða á Íslandsmiðum.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. sjútvn.