Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:45:54 (5442)

2002-03-04 15:45:54# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig knúinn til að leiðrétta rangfærslur í máli hæstv. sjútvrh. en hann sagði í ræðu sinni að meiri hluti auðlindanefndar hefði verið þeirrar skoðunar að fara ætti svokallaða veiðigjaldsleið.

Meginniðurstaða auðlindanefndar var sú að auðlindir eins og þær sem hér um ræðir ættu að vera í þjóðareign. Aðgang að þessum auðlindum ætti að afhenda tímabundið og í þeim efnum ætti að fara svokallaða uppboðsleið. Þetta er meginniðurstaða auðlindanefndar þegar þessi skýrsla er lesin. Sá er hér stendur sat í auðlindanefnd.

Frá þessari meginlínu víkja síðan þrír hv. nefndarmenn af níu og gera þann fyrirvara að þegar kemur að sjávarútvegi --- vegna þess að sjávarútvegurinn var tekinn sérstaklega út --- vildu tveir þeirra ekki sjá að farin yrði svokölluð uppboðsleið en einn þeirra gerði fyrirvara um að auðlindir af þeim toga sem auðlindanefndin fjallaði um væru í þjóðareign. Þrír af níu gera sem sagt fyrirvara við almenna niðurstöðu nefndarinnar. Almennt komst því nefndin að þeirri niðurstöðu að þessi auðlind væri í þjóðareign, aðgang að henni ætti að afhenda tímabundið og úthlutun að aðgangi ætti að fara samkvæmt svokallaðri uppboðsleið. Það er meginniðurstaða nefndarinnar, virðulegi forseti.