Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 16:51:39 (5461)

2002-03-04 16:51:39# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[16:51]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. að í frv. er ekki um að ræða neinar verulegar breytingar frá núverandi fyrirkomulagi. Breytingin við að taka upp veiðigjald frá því sem við höfum verið með, er ekki mjög mikil. Að sumu leyti má segja að það sé grundvallarbreyting en þegar það er skoðað að efni til, í fjárhæðum, þá er ekki um verulega breytingu að ræða og úthlutunarkerfinu er haldið óbreyttu. Það er niðurstaða sem varð á milli flokkanna og ég vek athygli á því eins og ég rakti, að það var niðurstaða miðstjórnar Framsfl. að leggjast ekki á þá sveifina að þessu sinni að gera róttækar breytingar á kerfinu aðrar en þær sem ég hef þegar rakið og við það verður auðvitað að búa. Við fylgjum ekki öðru eftir fyrir hönd flokksins en því sem flokkurinn hefur samþykkt.

Ég tel hins vegar ekki líklegt að sú niðurstaða sem hér er borin fram í frv. verði varanleg. Ég tel hana ekki líklega til að lægja öldurnar um kerfið. Það eru aðrir sem eru annarrar skoðunar og trúa því að þetta geti orðið ásættanleg niðurstaða, en tíminn verður að leiða í ljós hver hefur rétt fyrir sér í þeim efnum.

Ég tel hins vegar rétt að halda áfram að vinna málið í samræmi við þau sjónarmið sem ég hef rakið.