Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 17:17:28 (5465)

2002-03-04 17:17:28# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[17:17]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Virðulegi forseti. Af því að hæstv. sjútvrh. fór í sögu málsins langar mig til að fara örfáum orðum um aðdragandann. Mjög mikið er vitnað til niðurstöðu auðlindanefndar en hún lagði jú til tvær leiðir, svokallaða fyrningarleið og síðan veiðigjaldsleið með hóflegu veiðigjaldi, eins og sagt er.

Virðulegi forseti. Við mörg tækifæri á hinu háa Alþingi hafa þeir hv. þm. sem voru í svokallaðri auðlindanefnd úttalað sig um nefndarstörf sín og sagt að nefndin hafi verið með hina svokölluðu fyrningarleið á borðinu nánast alveg fram á síðustu metra vinnunnar. Síðan hefði möguleikinn á veiðigjaldsleið komið frá þremur aðilum í nefndinni og henni hafi verið þrýst inn í þetta nál. Hv. þm. sem voru í þessari nefnd hafa hver á fætur öðrum komið upp og sagt sína túlkun á því hver var niðurstaða auðlindanefndarinnar í raun og veru. Menn höfðu alltaf fyrningarleiðina að leiðarljósi þó að líka væri talið koma til greina í nefndaráliti að fara hina svokölluðu veiðigjaldsleið.

Virðulegi forseti. Ég var skipaður af mínum flokki í svokallaða sáttanefnd eða endurskoðunarnefnd um sjávarútvegsstefnuna sem var að störfum í tvö ár, eins og fram hefur komið í ræðum margra hv. þm. Alþjóð er kunnugt um að sú nefnd skilaði fjórum nefndarálitum, þ.e. meiri hlutinn skilaði nefndaráliti sem þetta frv. er síðan byggt á að sumu leyti en þó ekki öllu, og síðan voru þrjú minnihlutaálit þar sem menn voru nokkuð samstiga, hv. þm. Jóhann Ársælsson fyrir Samfylkingu og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fyrir Framsfl. Ég tel miður, virðulegi forseti, að ekki var tekið í þá sáttarhönd sem var rétt fram fyrir nokkrum mánuðum þar sem stjórnarandstaðan lagði til í þál. að nú yrði sest niður eina ferðina enn og þess freistað að ná einhverri niðurstöðu sem gæti byggt á svokallaðri fyrningarleið til að framkalla breytingar á því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við núna. Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við núna hefur á engan hátt skilað þeim árangri sem að var stefnt þegar þessi lög voru sett. Um tíu ára skeið höfum við keyrt á fiskveiðistjórnarkerfi sem skilar okkur lakara ástandi mikilvægustu fiskstofna okkar að frátöldum uppsjávarfiskum, lakara ástandi en þegar kerfið var sett á. Þetta hlýtur að gefa tilefni til umhugsunar um það hvort við höfum ekki verið og séum ekki á kolvitlausri leið í sambandi við stjórn fiskveiðanna. Það er jú mat margra.

Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, að það verði að koma skýrt fram í umræðunni að þau lög sem hér er verið að fjalla um breyta fiskveiðistjórnarkerfinu í sjálfu sér í engu, þau stuðla frekar að því að framkalla frekari ágalla þess kerfis sem við höfum búið við og erum svo óánægð með, frekari samþjöppun í útgerðinni, færri og stærri fyrirtæki, gríðarlegan byggðavanda og möguleika manna á því að fara með verulegar fjárhæðir út úr greininni. Þetta eru hlutir sem þjóðin getur engan veginn sætt sig við. Þess vegna er nauðsynlegt að koma fram með tillögur sem menn hafa trú á að geti á taktfastan hátt í rólegheitum fært okkur til betra fiskveiðistjórnarkerfis, og þá á ég sérstaklega við hvað það varðar að byggja upp fiskstofnana. Það er jú númer eitt, tvö og þrjú sem ekki hefur tekist, a.m.k. ekki í dýrustu tegundunum. Í uppsjávarfisktegundunum er að vísu miklu betra ástand.

Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði gengum inn í þessa vinnu með mjög opnum huga, við tókum stefnuskrá okkar og útfærðum í nefndaráliti þar sem ég skilaði áliti sem minnihlutaaðili, skilaði áliti sem ég og minn flokkur töldum að gæti verið nálgun, gæti verið á þá lund að við kæmum til móts við þá sem vilja keyra óbreytt núverandi kerfi áfram. Við lögðum gríðarlega vinnu í þessar tillögur okkar en þær byggja á því að við viljum nota hina svokölluðu fyrningarleið, nota hana til að losa kvóta til endurúthlutunar eftir sérstakri formúlu.

Í þeim tillögum sem við höfum lagt fram gerum við ráð fyrir því að við innköllum kvótann á 20 ára tímabili með 5% fyrningu á ári. Við keyrum með svokallaðan biðkvóta til aðlögunar fyrir útgerðina þannig að 3% af fyrningunni geta núverandi útgerðaraðilar leigt til sín aftur gegn hóflegu gjaldi, og síðan fari fyrningin að koma fram af fullum þunga á sjöunda ári.

Þessar tillögur byggja á því að við gerum okkur fulla grein fyrir stöðu útgerðarinnar í dag og við gerum okkur fulla grein fyrir því að það er ekki hægt að kúvenda í þessum málaflokki, okkar mikilvægustu atvinnugrein. Menn verða að framkalla aðlögun að nýju kerfi á löngum tíma. Það hefur komið fram hjá mörgum hv. þm. að sjávarútvegurinn er náttúrlega gríðarlega skuldsettur fyrir margra hluta sakir en að stórum hluta vegna þess að menn hafa getað selt veiðiheimildir og farið með gríðarlegar fjárhæðir, tugi milljarða, út úr greininni. Það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir þessu.

Þegar við tölum um breytingar á sjávarútvegsstefnunni er sú staða sem við erum í hvað varðar ástand fiskstofnanna allt of lítið inni í umræðunni. Við verðum að setja þá umræðu á nýjar brautir og fá breytingarhugmyndum veglegri sess. Alls staðar annars staðar í löndunum í kringum okkur eru menn með þetta efst á blaði, samanber t.d. vinnu Evrópusambandsins í sambandi við grænu bókina, ástand staðbundinna stofna og umræður um hvernig eigi að skipta í útgerðarflokka, hverjir eigi að fá að veiða o.s.frv. Það er mjög mikilvægt en þessi umræða um friðunina og ástand fiskstofnanna er allt of lítil hérlendis og við þurfum að hefja hana til vegs og virðingar.

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þær tillögur sem koma fram í frv. gera ekkert annað en að viðhalda núverandi kerfi og þær gera það að verkum að enn frekari samþjöppun veiðiheimilda verður heimiluð og stækkun útgerðarfyrirtækja mun leiða af sér fækkun lítilla og meðalstórra fyrirtækja í greininni. Tillögurnar endurspegla oftrú á hagkvæmni stærðarinnar og það viðhorf að stækkun fyrirtækja sé ein helsta leiðin til það auka arðsemina í útveginum.

Stóra málið, virðulegi forseti, er að eðli málsins samkvæmt hefur þessi stefna í för með sér að áfram verða erfiðleikar í hinum dreifðu byggðum landsins. Það kemur fyrir lítið þótt menn fari þá leið hér að vinna með svokallaða byggðakvóta upp á allt að 12 þús. tonn. Þeir eru ekki einu sinni virkir --- það hafa verið 1.500 tonn --- og engu að síður væri það að mínu mati læknisaðgerð sem skilar ekki árangri til lengri tíma litið. Hún byggir ekki þann grunn sem er nauðsynlegur fyrir byggðarlögin til að fólk hafi trú á því að einhverjir framtíðarmöguleikar séu við sjávarsíðuna í byggðarlögunum. Ég tel það algjöra nauðsyn, eins og kemur fram í hugmyndum okkar um endurskoðun, að fara fyrningarleiðina og endurúthluta, að veiðiréttur sjávarbyggðanna verði tryggður og sömuleiðis veiðiréttur sjávarjarða.

Þegar menn ræða þessi mál er ekki verið að tala um öðruvísi kerfi eða hugsun sem er frábrugðin hugsun margra annarra. Ef við tökum stærri einingar eins og t.d. Evrópusambandið byggir þetta stóra samband veiðitillögur sínar að stórum hluta á veiðireynslu þeirra landa sem mynda bandalagið þannig að menn hafa fengið úthlutað kvótum innan Evrópusambandsins á grunni veiðireynslu sinnar. Í tillögum okkar er ekki verið að leggja neitt annað til en að þeim sjávarbyggðum sem hafa átt allt sitt undir sjávarútvegi svo áratugum skiptir verði tryggður einhvers konar grunnveiðiréttur þannig að sett sé undir þann leka að hægt sé að fara með veiðiheimildirnar úr byggðarlögunum á einni nóttu. Þetta eru grundvallarviðhorf sem þarf að hafa í heiðri ef menn vilja á annað borð treysta sjávarbyggðirnar og gefa fólkinu möguleika á að lifa áfram á þeim grunni sem því er algjörlega nauðsynlegur til að vöxtur og viðgangur byggðanna geti haldið sér. Í umræðunni hefur komið fram að ein af tillögum endurskoðunarnefndarinnar var að verulegir fjármunir yrðu settir til hliðar og þeir yrðu notaðir til að byggja upp í sjávarbyggðum landsins. Menn voru mjög uppteknir af því við nefndarstörfin en nú sér þess hvergi stað að slíkt eigi að gera. Mig minnir að í nefndarvinnunni hafi menn verið að tala um 800 milljónir.

Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum teygt okkur langt að mínu mati til þess að koma á móti sjónarmiðum annarra í þessu sambandi eða þeirra sem vilja viðhalda kerfinu. Þegar við tölum um fyrningarleið okkar er hún mjög skilyrt og endurúthlutun veiðiheimildanna er gerð á varfærnislegan hátt þannig að aðlögunin að nýju kerfi verði sem sársaukaminnst og menn þurfi ekki að upplifa neinar kúvendingar. Í tillögum okkar varðandi fyrninguna gerum við ráð fyrir því að endurúthlutun fyrndra aflaheimilda eigi sér stað á þrennan hátt. Við erum ráð fyrir að þriðjungur þeirra aflaheimilda sem fyrnast á hverju ári verði boðinn upp á landsmarkaði og útgerðunum gefinn kostur á að leigja þær til allt að sex ára í senn. Fiskvinnslum sem stunda frumútgerð sjávarafurða gefst einnig kostur samkvæmt þessu kerfi á að bjóða í veiðiheimildir í hlutfalli við raunverulega vinnslu þeirra undangengin ár samkvæmt nánari reglum, og leigutekjum vegna þessarar úthlutunar eða leigu verður skipt á milli ríkis og sveitarfélaga eftir nánari reglum. Síðan erum við með annan þriðjung fyrndra veiðiheimilda og þar kemur byggðatengingin og hugmyndin um hana inn.

[17:30]

Við gerum ráð fyrir að öðrum þriðjungi þeirra aflaheimilda sem fyrnast á hverju ári verði varið til byggðatengdrar ráðstöfunar fyrir sjávarbyggðir umhverfis landið. Við skiptingu veiðiréttindanna milli sveitarfélaga verði byggt á vægi sjávarútvegs, veiða og/eða vinnslu í atvinnulífi viðkomandi sjávarbyggða og hlutfallslegu umfangi innan greinarinnar að meðaltali í 20 ár. Um skiptinguna verði síðan settar nánari reglur að viðhöfðu víðtæku samráði þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Síðan eru það hugmyndir okkar að hlutaðeigandi sveitarfélög sem fá þannig ráðstöfunarrétt yfir kvótanum geti ráðstafað þeim þriðjungi veiðiheimildanna fyrir hönd þeirra sjávarbyggða sem til þeirra heyra og sveitarfélögin geta leigt út veiðiheimildir eða ráðstafað þeim með öðrum almennum hætti á grundvelli jafnræðis, en þeim er einnig heimilt að verja hluta veiðiheimildanna tímabundið til að styrkja hráefnisöflun eða efla fiskvinnslu innan viðkomandi byggðarlaga. Þannig fá þau tækifæri til að efla vistvænar veiðar, styrkja staðbundna báta og dagróðraútgerð, gæta hagsmuna sjávarjarða innan sveitarfélagsins og auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti í sjávarútvegi. Við gerum ráð fyrir að óheimilt verði að framselja byggðatengd veiðiréttindi varanlega frá sveitarfélagi. Kjósi sveitarfélagið --- þeim er það í sjálfsvald sett --- að innheimta leigugjald fyrir aflaheimildir renna tekjurnar í viðkomandi sveitarfélag.

Síðasti þriðjungur eftir okkar formúlu, þriðjungur fyrndra aflaheimilda á hverju ári, verður boðinn þeim handhöfum veiðiréttarins sem fyrnt er frá til endurleigu gegn hóflegu kostnaðargjaldi á grundvelli sérstaks afnotasamnings til sex ára í senn. Samningnum fylgir sú kvöð að rétturinn verði aðeins nýttur af viðkomandi aðila. Ráðstöfun þessa hlutar aflaheimilda verði tekin til endurskoðunar að 20 ára fyrningartímabili liðnu.

Við höfum líka lagt í tillögu okkar mjög mikla áherslu á að reyna að þróa útgerðina meira til vistvænna veiða og höfum í því sambandi lagt fram tillögur um að vinna með nýtingarstuðla og umbuna þeim sem nota vistvæn veiðarfæri frekar en öðrum þannig að hugmyndir um nýtingarstuðla sem settar hafa verið fram eru að afli tekinn á handfæri reiknist ekki nema 0,8% í kvóta og afli tekinn á línu 0,85% og afli í önnur kyrrstæð veiðarfæri 0,95% og síðan í dregin veiðarfæri 1%.

Virðulegi forseti. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum staðið að víðtækri tillögugerð til að koma á móti andstæðum sjónarmiðum og reyna með þeim hætti að færa okkur inn á réttar brautir hvað varðar fiskveiðistjórnarkerfið. Við höfum stutt öll góð mál sem hafa komið upp í þinginu frá hæstv. sjútvrh. og t.d. í vetur studdum við tvö mál til þess að reyna að minnka eða hamla gegn brottkasti afla. Það var 5% meðaflareglan og síðan um möguleikana á því að hægt væri að landa skemmdum fiski, selbitnum fiski o.s.frv. Þessi mál höfum við stutt og við viljum styðja slík mál og veita þeim brautargengi.

En ljóst er, virðulegi forseti, að ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að keyra sjávarútvegsstefnuna áfram á þeim grunni sem hér er lagt upp með, þá verður enginn friður um þetta kerfi. Það er augljóst mál. Hér eru á ferðinni óverulegar breytingar og þær breytingar sem eru gerðar leiða að mínu mati frekar til þess að ýta enn undir þann vanda sem við höfum séð framkallast vegna sjávarútvegsstefnunnar. Þá bendi ég sérstaklega á byggðamálin. Það er alveg augljóst í mínum huga að þetta mun áfram leiða til byggðaröskunar í landinu, mikils óöryggis þess fólks sem vinnur bæði við útgerðina og vinnsluna og það er eitt af okkar aðalmeinum í dag, því að ekki er nóg með að byggðavandi skapist vegna þess að fyrirtækið hreinlega loki, byggðavandinn er líka að koma fram núna vegna þess að fólk er óttaslegið og það veit ekki sitt rjúkandi ráð hvað varðar stöðugleika í þessari grein. Það hefur engan grunnrétt. Jafnvel þeir sem ekki hafa verið að hugsa sér til hreyfings frá hinum dreifðu byggðum landsins eru farnir að flytja vegna þess að öryggisleysið er algert að mati fólksins. Við höfum mörg dæmi um það þar sem á einni nóttu er verið að selja lífsbjörgina undan fólki í smáum sjávarbyggðum og afleiðingarnar eru öryggisleysi sem leiðir til þess að fólk flytur sig um set.

Þetta er afleit þróun, virðulegi forseti, og með nýrri sýn á fiskveiðistjórnarkerfi, með nýtt fiskveiðistjórnarkerfi að leiðarljósi sem stuðlar að viðhaldi byggðarinnar og grunni þeirra út um allt land, stuðlar að því að rétta kúrs varðandi ástand fiskstofnanna, vernda þá, viðhalda þeim og byggja þá upp í rólegheitum, til þess verðum við að finna leið. Þetta sem hér liggur á borðum er ekki leið til þess að fara inn á nýjar brautir. Þetta er leið til að viðhalda gömlu kerfi sem ekki hefur skilað neinum árangri hvað varðar það meginmarkmið að byggja upp fiskstofnana í kringum landið.