Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 17:55:28 (5467)

2002-03-04 17:55:28# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[17:55]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór yfir svokallaða fyrningarleið sem stjórnarandstaðan hefur viljað beita fyrir sig. Það er alveg rétt hjá honum að við lítum svo á að fyrningarleiðin sé verkfæri til að fara yfir í breytingar.

Ég kom hér upp, virðulegi forseti, til að spyrja hv. þingmann nokkurs. Hann telur mjög mikilvægt að gefa fyrirtækjum möguleika á að stækka og eflast eins og hann orðaði það, og að það sé gert með þessu frv. Þá gefur það náttúrlega augaleið að einhvers staðar veikjast menn og grunnurinn fer undan þeim eins og sagan sýnir. Mig langar þá að spyrja hv. þm. hvaða leið hann vilji fara í sambandi við byggðirnar. Er hann hlynntur byggðakvótauppsetningu af einhverju tagi? Stjórnarformaður Byggðastofnunar nefndi hér tölu sem hann taldi hæfilega, þ.e. 5%, 20 þús. tonn sem væru byggðatengd. Er hv. þm. inni á þeirri leið eða vill hann bara með þessu frv. gefa þann tón að byggðin grisjist áfram, fyrirtækin stækki og eflist og verði kannski bara, eins og sumir hafa sagt í umræðunni um sjávarútvegsmál, 5--7 öflug fyrirtæki á landinu öllu?

Þá stangast það á við það sem hv. þm. var svo hrifinn af þegar hann vitnaði í Mao Zedong um að þúsund blómin ættu að spretta. Ég er honum hjartanlega sammála um það. Eins og þetta er sett upp í frv. með 50% möguleika á aflahlutdeild í grálúðu og karfa og ýsu er náttúrlega verið að framkalla þvílíka einhæfni að það hálfa væri nóg.