Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 17:57:30 (5468)

2002-03-04 17:57:30# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[17:57]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta að ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög nauðsynlegt fyrir sjávarútveginn að þar geti verið stór og öflug fyrirtæki. Það er bara eðli málsins samkvæmt. Sjávarútvegurinn er í eðli sínu mjög fjármagnsfrek atvinnugrein. Hann þarf stundum að takast á við mjög stór, erfið og fjármagnsfrek verkefni. Við getum tekið dæmi af kolmunnaveiðum sem eru greinilega ekki á færi nema öflugri fyrirtækja vegna þess að þær kalla á öflug og dýr skip. Ég vil ekki misskiljast með það að ég tel mjög öflug, stór og góð fyrirtæki þurfa að vera til staðar og við höfum líka verið að þróa okkur í þá átt.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé of langt gengið þegar menn fara upp í þessi 50% mörk og talaði fyrir því áðan að því þurfi að breyta.

Hv. þm. spurði þá, sem var ósköp eðlileg spurning: Er það ekki á kostnað einhvers ef fyrirtækin stækka og potturinn ekki? Það er út af fyrir sig rétt. Við höfum séð að aflaheimildir hafa verið að færast til. Það er ein meginástæðan fyrir því að ég hef verið mjög harður talsmaður þess að efla sérstöðu smábátaflotans. Ég hef séð í henni heilmikla vörn fyrir byggðirnar.

Eins og menn vita var ég mikill talsmaður gamla þorskaflahámarksins. Þegar það mál varð einfaldlega úr sögunni lagði ég mig fram um að auka veiðirétt smábátanna sem mér sýnist að hafi skilað sér mjög vel til tekjuauka úti um landið.

Hins vegar er alveg rétt að ég hef ekki verið sérstaklega mikill talsmaður byggðakvóta sem hv. þm. nefndi, einfaldlega vegna þess að ég hef séð vandamál samfara því að útdeila þeim kvótum. Ég tel hins vegar að slíkur byggðakvóti þurfi að vera til í einhverjum mæli þó að ég geri það ekki að grundvallaratriði varðandi fiskveiðistjórnina. Þegar þetta er skoðað í þessu samhengi tel ég mig hafa svarað spurningu hv. þm.