Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 17:59:38 (5469)

2002-03-04 17:59:38# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[17:59]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil áfram spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formann sjútvn. Eins og kom fram í ræðu hans erum við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði með hugmynd í tillögum okkar um byggðatengingu á þeim kvóta sem fyrnist. Ég spyr hv. þm. af hverju hann hafi áhyggjur af því að þetta vegi að einhverju leyti að stóru fyrirtækjunum vegna þess að þar höfum við allt aðra reynslu, t.d. úr Eyjafirði þar sem Grenivík á kvóta en stórfyrirtækið ÚA notar hann í ágætissamkomulagi við viðkomandi byggðarlag eða hreppsnefnd. Telur þingmaðurinn að byggðatenging muni rugla á einhvern hátt samningsmöguleika stórra útgerða til að nýta eða nota auðlindina sem er eyrnamerkt sem grunnur fyrir viðkomandi byggðarlag? Ég hef ekki þær áhyggjur. Ég tel að reynslan hafi sýnt allt annað, stórfyrirtæki í samvinnu við hreppsnefndir og fyrirtæki í minni byggðum. Ég tel að það skapi bara heppilega flóru í þessum sjávarútvegsmálum, veiðum og vinnslu, og get þess vegna ekki skilið áhyggjur hv. þm. af því að á einhvern hátt sé vegið að stórfyrirtækjum og möguleikum þeirra þó að byggðatenging eigi sér stað. Reynslan sýnir annað.