Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:05:13 (5472)

2002-03-04 18:05:13# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:05]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fyrst varðandi fyrninguna og samþjöppunina. Ég hélt að það væri nokkuð ljóst að ef menn færu þessa tæru fyrningarleið með uppboðum væri mjög líklegt, þó maður geti auðvitað ekki sannað það fyrir fram, að það mundi við allar gefnar aðstæður leiða til aukinnar samþjöppunar, einfaldlega vegna þess að ef við færum þá leið eins og hún er tærust, er gert ráð fyrir því að menn gangi til uppboðs með einum eða öðrum hætti. Þá er auðvitað ljóst að sumir eru einfaldlega öflugri en aðrir. Mér finnst því þegar við skoðum þetta í þessu samhengi að þetta blasi alveg við.

Þetta er líka viðurkennt af báðum þeim aðilum sem eru að fjalla um málið í endurskoðunarnefndinni. Menn komast að þeirri niðurstöðu að það að nota þessa uppboðsleið eingöngu gangi ekki upp vegna þess að það stangist á við önnur markmið sem menn eru líka að reyna að setja sér í þessari stefnumótun. Það er nákvæmlega það, virðulegi forseti, sem ég var að reyna að segja hérna áðan, að þrátt fyrir allt tal manna á síðustu vikum um að fyrningarleiðin sé mjög hlutlaus og að hönd ríkisins komi þar nánast hvergi nærri og að þess vegna sé þess gætt að fyrst og fremst liggi til grundvallar viðskiptaleg sjónarmið, þá treystir enginn þeirra sem talar fyrir fyrningarleið í endurskoðunarnefndinni sér samt sem áður til þess að leggja hana fram hreina og tæra. Þeir segja: Fyrningarleið plús, og plús veruleg ríkisafskipti, fyrir fram ákvarðanir um hvernig eigi síðan að ráðstafa þessum veiðiheimildum og þá er það gert á grundvelli einhvers sem menn telja skynsamlegt, t.d. byggðanna, bátastærða o.s.frv. Ef við skoðum tillögur Samfylkingarinnar þá gerir hún ekki ráð fyrir öðru en því að innan gamla aflamarkshópsins geti farið fram þessi algeru uppskipti. Því er alveg ljóst að þó að talað sé um að smábátarnir séu sér, þá eru innan þessa stærri hóps minni útgerðir sem auðveldlega geta orðið undir í samkeppninni.