Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:49:14 (5481)

2002-03-04 18:49:14# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:49]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst eins og hv. þm. Sigríður Ingvarsdóttir talaði eins og við öll hin værum á móti því að sjávarútvegsfyrirtækin gerðu það gott. Ég vil bara benda hv. þm. á að vinna okkar hér snýst ekki um það. Við erum eflaust öll sammála um það. Það sem við erum að ræða er umgjörðin fyrir þennan rekstur. Þar greinir okkur á.

Mér fannst þingmaðurinn ansi kokhraust þegar hún vændi stjórnarandstöðuna á einu bretti um þröngsýni. Það ber ekki vott um að menn á þeim bæ vilji leita sátta. Ég vil spyrja hv. þm.: Eru þá þeir aðilar þröngsýnir sem innan hennar eigin þingflokks vilja breyta sjávarútvegsstefnunni í grundvallaratriðum eins og þráfaldlega hefur komið fram í þinginu? Eru kannski 20% eða meira í Sjálfstfl. menn sem eru þvílíkt þröngsýnir að þeir eigi væntanlega að skipa sér á bekk með stjórnarandstöðunni?