Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:52:59 (5485)

2002-03-04 18:52:59# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:52]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Æðimargir fyrirtækjaeigendur á Íslandi mundu vilja sitja við sama borð og sjávarútvegsfyrirtækin og fá úthlutað einkarétti til að nýta auðlind eins og núna tíðkast hér.

Mig langaði til að koma því að --- af því að hv. þm. segist vera á móti veiðileyfagjaldi --- að veiðileyfagjald er það þegar menn selja aðgang að veiðiheimildum eða veiðirétti. Veiðileyfagjald er tekið á Íslandsmiðum fyrir hvern einasta fisk sem kemur að landi. Það er tekið af þeim sem fá veiðiréttinum úthlutað frá ríkinu. Það er t.d. þannig að fyrirtækið Þormóður rammi frá Siglufirði, sem ég veit að hv. þm. þekkir vel, seldi aðgang að miðunum fyrir ekki minna en 250 millj. á síðasta ári. Einhver hefur þurft að borga það.

Það þýðir ekki fyrir menn að halda því fram að veiðileyfagjald sé ekki til staðar á Íslandsmiðum. Við erum að tala um að breyta kerfinu. Við erum ekki að tala um að auka gjald fyrir veiðiréttindi á Íslandsmiðum, síður en svo. Það er ekki hægt að hækka veiðileyfagjaldið sem núna er innheimt með aðgangi að auðlindinni. Markaðurinn hefur séð um að hafa það í toppi, miklu hærra en nokkur skynsemi virðist í þannig að mér finnst skorta svolítið á að menn tali skýrt og greinilega um þessa hluti og að gerð sé grein fyrir þeim af hálfu hv. þm. og fleiri stjórnarþingmanna. Mig langar til þess að fá svör við því hvort hv. þm. telji ekki að það skipti litlu máli fyrir þann sem þarf að fá veiðiheimildir hverjum hann borgar fyrir þær. Skiptir ekki mestu máli að hann fái þær?