Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:56:23 (5487)

2002-03-04 18:56:23# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:56]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Stór biti að kyngja? Það er örugglega minni upphæð en sú sem menn þurfa að greiða í dag. Ég er sannfærður um það að ef menn koma á eðlilegu kerfi sem væri hugsað sem þjónusta við útgerðina, fyrna veiðiheimildir og koma þeim á markað með þeim hætti, mun útgerðin fá miklu hagstæðari aðgang að veiðiheimildum en hún hefur í dag. Það verður ríkjandi jafnræði í greininni.

Það skortir fyrst og fremst og hefur valdið mörgum byggðarlögum og fólki af landsbyggðinni mestum skaða, að hafa ekki aðgang að veiðiheimildum til jafns við aðra í greininni. Það er sko ekki jafnræði fólgið í að þurfa að kaupa réttindin á hæsta verði af þeim sem fyrir eru í greininni eða leigja þau af þeim, jafnvel réttindi sem fyrirtækin hafa ekki nýtt sjálf árum saman en nota til að selja og hafa peninga út úr þeim sem þurfa að veiða.