Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 20:00:25 (5489)

2002-03-04 20:00:25# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[20:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér fer fram umræða um stórmál, mál sem óhætt er að segja að hafi verið eitt mesta hita- og átakamál í íslenskri efnahags- og stjórnmálaumræðu undanfarin tíu, tuttugu ár.

Í upphafi þingfundar í dag vakti ég máls á því að fyrir hönd stjórnarandstöðunnar hefði ég óskað eftir því að á dagskrá fundarins, samhliða þessu máli, væri till. til þál. sem stjórnarandstaðan hefði sameinast um. Frv. sem hér er til umræðu, stjfrv. um stjórn fiskveiða, byggir á nefndarstarfi að hluta til. Að sögn ríkisstjórnarinnar alla vega byggir það á starfi nefndar sem skipuð var haustið 1999 til þess að freista þess að skapa sátt um fiskveiðikerfið. Í athugasemdum með þessu lagafrv. er vísað í erindisbréf sem þessi nefnd fékk. Þar segir m.a. á þá leið að nefndinni beri að taka tillit til hagsmuna sjávarútvegsins, byggðanna og almennings í landinu í starfi sínu.

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Markmið breytinganna er að ná fram sem víðtækastri sátt landsmanna um fiskveiðistjórnarkerfið.``

Þetta var tilvitnun í erindisbréf sem þessi svokallaða sáttanefnd átti að byggja starf sitt á.

Eins og kunnugt er náði nefndin ekki að sættast á eitt sjónarmið. Hún klofnaði reyndar í fernt. Stjórnarandstaðan skilaði tveimur álitum og sama gildir um stjórnarmeirihlutann. Hann klofnaði einnig. Einum stjórnmálaflokki, Frjálslynda flokknum, var haldið fyrir utan þetta nefndarstarf sem mönnum fannst nú æði hart, ekki síst í ljósi þess að sá flokkur hefur flestum flokkum framar staðið í baráttunni um breytt fiskveiðistjórnarkerfi.

Síðan gerist það, eins og ég sagði áðan, að stjórnarandstaðan, Samfylkingin, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn sameinast um það hér á þinginu að bera fram þáltill. sem byggir á því að enn skuli leitað sátta. Og það er ljóst að þessir flokkar hafa allir verið að færast nær hverjir öðrum um leiðir. Menn hafa þar sameinast um leið sem kennd hefur verið við fyrningu.

Í greinargerð með þáltill. segir, með leyfi forseta:

,,Formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eru í stjórnarandstöðu telja afar mikið í húfi fyrir þjóðina og fyrir sjávarútveginn að friður komist á um nýtingu auðlindarinnar og vilja því freista þess að gera tilraun til að forða mönnum frá enn hatrammari deilum en staðið hafa til þessa. En í það stefnir ótvírætt verði þeim stríðshanska kastað í andlit þjóðarinnar sem það er að ætla að festa í sessi óbreytt kerfi, eignarhald útgerðarinnar í reynd, með málamyndagjaldtöku.``

Og það er þetta frv. sem við höfum hér núna til umfjöllunar.

Það er ljóst að ríkisstjórnin lítur ekki lengur svo á að um stjórn fiskveiða eigi að leita sátta. Ef til vill hafa þeir sem trúðu því að það stæði til yfir höfuð alltaf vaðið villir vegar. Fiskveiðistjórnarkerfið er mikið hagsmunamál og ljóst er að ríkisstjórnin ætlar að taka afstöðu með stórútgerðinni í landinu og handhöfum kvótans. Það má segja að það sé í rauninni gott að ríkisstjórnin skuli koma til dyranna eins og hún er klædd, en um þetta er nú að tefla.

Ég hef fylgst með umræðunni hér í dag og fundist hún fróðleg fyrir margra hluta sakir. Ég lagði mjög eyrun við málflutningi hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar hér í dag, formanns þingflokks Framsfl. Hann fór orðum um ýmsar fjárhagslegar stærðir og ef ég skildi málflutning hans rétt þá vísar hann þar í stærðir sem fram hafa komið hjá Seðlabankanum að því er mér skilst, þar sem því er haldið fram að á árabilinu 1995--2001 hafi veiðiheimildir verið seldar fyrir 50--60 milljarða kr. Á sama tímabili, á þessum rúma hálfa áratug, hafi skuldsetning sjávarútvegsins verið að aukast um 60 milljarða kr.

Síðan gengur rökstuðningurinn út á það að vegna þessarar lántöku hafi streymt út úr sjávarútvegi inn í fjármagnskerfið 9--13 milljarðar kr. Og hvernig reiknast þetta út? Jú, ef við gefum okkur að samsvörun sé á milli þess að sjávarútvegurinn hefur verið að auka skuldsetningu sína um 60 milljarða á sama tíma og veiðiheimildir ganga kaupum og sölum fyrir 50--60 milljarða og ef við gefum okkur að útgerðin þurfi að greiða þessi lán á tíu árum þá mundi það þýða 6 milljarða ári. Og ef við gefum okkur vaxtaprósentu upp á 10% þá eru það 6 milljarðar, að jafnaði 3 milljarðar. Þar er summan orðin 9 milljarðar, 6 milljarðar í afborganir og 3 milljarðar í vexti. Síðan bætti hv. þm. því við að að auki væri verið að leigja aflaheimildir fyrir 3--4 milljarða á ári.

Ef þetta er rétt, 9 milljarðar plús 3--4 milljarðar þá erum við komin upp í 13 milljarða sem renna þarna út úr greininni inn í fjármagnskerfið. Menn hafa reyndar skoðað ýmsar aðrar stærðir og ég kem að því síðar. Ekki má gleyma því að hv. þm. hefur bætt því við að þetta byggi á því að aðeins sé þó búið að selja um inn þriðja af aflaheimildum í landinu, enn eigi eftir, ef svo vindur fram sem horfir, að selja tvo þriðju af aflaheimildunum og ef það verði gert þá muni enn meira fjármagn renna út úr greininni inn í fjármagnskerfið.

Önnur stærð sem menn hafa verið að velta upp er heildarverðmæti kvótans. Þar hafa ýmsar stærðir verið nefndar. 300 milljarðar eru ein stærð sem nefnd hefur verið. Ég veit að það er mjög umdeilt. Bent hefur verið á að menn þurfi að gæta sín á því að heimfæra ekki rándýran jaðarkostnað upp á allt kerfið og ofreikna þessar stærðir, menn þurfi að gæta sín á því.

En færum þessar stærðir verulega niður og tökum annað viðmið. Menn eru að kaupa kvóta á sjö- til áttföldu leiguverði og þar með geta kvótakaupin borgað sig upp á átta til tíu árum, ef við reiknum fjármagnskostnað inn í það dæmi. Færum síðan þá formúlu upp á þessi heildarverðmæti. Við skulum ekki halda okkur við hinar hærri tölur, 300 milljarðana. Förum með það niður í 200 milljarða. Ef þessar formúlur ganga allar upp gæti sjávarútvegurinn keypt þessi verðmæti á tíu árum. Hann gæti verið að kaupa þessi verðmæti á tíu árum. Ef við höfum viðmiðið 200 milljarða, heildarverðmætin, þá væru þetta 20 milljarðar kr.

Hvað er ég að reyna að segja með þessu? Ég er að segja að kerfið sem við búum við núna byggir á þessari gjaldtöku eða gjaldtöku af þessari stærðargráðu. Við erum þegar búin að smíða kerfi sem byggir á gjaldtöku af þessari stærðargráðu. Ég nefndi 20 milljarða. Ég nefndi í fyrra tilvikinu, og vitnaði þar í útreikninga hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, 13 milljarða sem þegar hafa farið út úr greininni inn í fjármagnskerfið. Þetta eru þær stærðir sem sjávarútvegurinn og það kerfi sem við höfum búið við núna er þegar að greiða þannig að við búum við geysilega gjaldtöku. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er því ekki hvort það eigi að vera gjaldtaka í sjávarútveginum heldur í hvaða formi hún eigi að vera og í hverra vasa þetta gjald eigi að renna. Það er spurningin sem við stöndum frammi fyrir. Á þetta gjald að renna í vasa núverandi kvótaeigenda eða kvótahafa eða eigum við að reyna að smíða kerfi sem beinir þessari gjaldtöku í vasa ríkis og sveitarfélaga? Eigum við frekar að fara þá leið?

Ég segi það fyrir mína parta að ég hef aldrei verið talsmaður þess að blóðmjólka sjávarútveginn. Sjávarútvegurinn hefur staðið undir íslensku efnahagslífi svo lengi sem menn muna. Arðurinn hefur skilað sér í margvíslegri veltu, skattheimtu og atvinnu, blómlegu atvinnulífi. Þannig hafa þessir fjármunir skilað sér inn í atvinnulífið. Sú hætta sem við stöndum öðru fremur frammi fyrir núna er að of mikil samþjöppun eigi sér stað. Eins og við vitum hefur átt sér stað mikill flutningur á kvóta frá ýmsum byggðarlögum þannig að það hefur ekki orðið jöfn dreifing á þessum verðmætum upp úr sjónum. En síðan erum við að færa okkur yfir í kerfi þar sem þessi mikla gjaldtaka er við lýði, þar sem þessi mikla prívatgjaldtaka er við lýði. Spurningin er: Hvernig getum við komist út úr því kerfi og beint þessum fjármunum í ríkari mæli í vasa almennings í gegnum sveitarfélögin og ríkissjóð? Út á það ganga tillögur okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, þ.e. að finna leið til að komast út úr þessari sjálfheldu sem er þessi prívatgjaldtaka, þetta prívatveiðileyfagjald, og færa okkur inn á samfélagsvinsamlegri brautir.

Þar viljum við ekki fara nein heljarstökk. Við viljum taka þetta í áföngum. Við erum að leggja til að við fyrnum þetta kerfi sem við búum við núna á 20 árum. Við viljum fara mjög varlega fyrst í stað og fyrna 5%, en láta hluta kvótans sofa hjá viðkomandi fyrirtæki í ein sex ár og síðan herða á þessari þróun að þeim árum liðnum.

Hvað viljum við síðan gera við þennan kvóta sem við höfum fyrnt? Jú, við viljum skipta honum í þrjár einingar, láta hann renna í gegnum þrjár brautir. Í fyrsta lagi viljum við láta þriðjunginn renna inn á sameiginlegan markað fyrir landið. Í öðru lagi viljum við byggðatengja kvótann að þriðjungi. Þriðjung viljum við byggðatengja og við erum með ákveðna reikniformúlu fyrir því hvernig hægt er að binda kvótann við tiltekin byggðarlög og horfa þar til veiðisögu síðustu 20 ára ef ég man rétt samkvæmt okkar tillögum. Byggðarlögin gætu síðan farið ýmsar leiðir til þess að ráðstafa þessum kvóta. Þau gætu þess vegna sett hann á uppboð. Þau gætu einnig ráðstafað honum með öðrum hætti eða farið blöndu af þessari leið með uppboði á einhvern skilyrtan hátt. Í þriðja lagi á síðasti þriðjungurinn að okkar mati að hvíla hjá útgerðinni, en gegn umsömdu gjaldi. Þetta er hugsunin sem við erum að reyna að feta okkur inn á.

Síðan viljum við einnig fara aðrar leiðir, leggja áherslu á aðra þætti einnig. Við viljum nefnilega stuðla að aukinni smábátaútgerð sem við teljum umhverfisvænni og einnig vænni fyrir byggðarlögin. Við teljum að smábátaútgerðin sé mjög mikilvæg fyrir byggðarlögin. Við viljum þess vegna hafa pundið misþungt í kvótanum þannig að sá sem dregur fisk á línu fái leyfi til að draga fleiri fiska að landi en sá sem aflar þeirra á stórvirkum togurum. Þetta teljum við umhverfisvæna leið.

Herra forseti. Við viljum með öðrum orðum finna leið til að beina þeirri milljarða gjaldtöku sem þegar á sér stað í sjávarútvegskerfinu og rennur í vasa þeirra sem hafa kvótann, til samfélagsins með þessum hætti, til sveitarfélaganna og ríkisins. Út á það ganga tillögur okkar. Það verður ekki búið við það til framtíðar að fyrirtækjum og einstaklingum verði mismunað eins og með núverandi kerfi. Það gengur ekki. Hvernig sem á málin er litið, hvort sem það er út frá jafnræðisreglu eða sanngirnissjónarmiðum, þá gengur það kerfi sem við búum við núna einfaldlega ekki upp og tillögur okkar ganga út á það að finna heppilegri leiðir. Ég vona að menn gefi sér tíma og dragi andann djúpt, láti ekki freistast til að böðla þessu í gegnum þingið heldur gefi sér enn betri tíma til þess að kanna hvort ekki sé hægt að ná sátt sem heldur.