Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 20:29:17 (5495)

2002-03-04 20:29:17# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[20:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagðist vera að reyna að átta sig á ræðu minni. Ég reyndi að tala sæmilega skýrt. Ég er hins vegar að reyna að átta mig á afstöðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Hver er afstaða hans? Styður hann þetta frv.? Ég stóð meira að segja í þeirri trú þegar hann spurði framan í hvern verið væri að kasta stríðshanska að það væri m.a. framan í hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. (EOK: Nei, alls ekki.) Nú, ég hélt að hann hefði talað fyrir gagngerri uppstokkun á því kerfi sem við búum við núna. Þannig hefur hann talað. Ég er að mælast til þess og stjórnarandstaðan er að mælast til þess að menn reyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu og sátt í þessu máli en gefist ekki upp þótt ekki blási byrlega. Ef menn hafa staðfestu og sagan sýnir það að þegar menn sýna staðfestu og vilja til að ná sameiginlegri niðurstöðu, þá gengur það.