Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 20:34:32 (5498)

2002-03-04 20:34:32# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[20:34]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hélt heilmikla ræðu um fiskveiðistjórnarkerfið. Ég ætla ekki að fara að ræða mikið um hana. Ég tók aftur á móti eftir því að hv. þm. sagði í lokaandsvari sínu að ég hefði fram að þessu, eða hér á árum áður, verið með miklar ræður um að þjóðin ætti fiskinn í sjónum eða kvótann, ég man ekki hvort þingmaður sagði heldur. Ég sagði að ég liti svo á að fiskurinn í sjónum væri eign þjóðarinnar og það er þannig samkvæmt 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, að fiskurinn eða fiskstofnarnir eru sameign íslensku þjóðarinnar. Þannig er það. Aftur á móti er aflahlutdeildin annað. Aflahlutdeildin er það sem er úthlutað til útgerðarmanna og það er sú aflahlutdeild sem hv. þm., sem mælir með fyrningarleið, er að tala um að þjóðnýta og færa yfir til annarra. Í þessu erum við í grundvallaratriðum algjörlega ósammála. Þess vegna vildi ég, herra forseti, koma þessu á framfæri hér strax svo hv. þm. áttaði sig á því hvað ég meinti þegar ég talaði um að þjóðin ætti fiskinn í sjónum. Og það er mikill munur á því annars vegar og aflahlutdeildinni hins vegar sem kemur af því að stýra þarf veiðunum vegna þess að stofnarnir eru takmarkaðir. Herra forseti. Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram svo þessi misskilningur milli okkar þingmannsins væri þegar leiðréttur og ég hef ekkert í sjálfu sér breytt þeirri afstöðu minni.

Ég hef aftur á móti orðið var við það að ýmsir þeir sem núna eru að tala um breytingar á kerfinu og biðja um fyrningarkerfi eða fyrningarleið, þeir hinir sömu og töluðu hér, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, samþykktu á sínum tíma að það mætti veðsetja aflaheimildir í sjávarútvegi (KHG: Það væri bannað að veðsetja þær.) og hann samþykkti það, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Hann samþykkti að veðsetja mætti aflaheimildir með skipi. Hefur reyndar aldrei áttað sig á því að með því að heimila veðsetningu aflaheimilda með skipi var verið að veðsetja kvóta. Það var öllum ljóst nema kannski hv. þm. Fyrir vikið eru allar leiðir til að breyta þessu kerfi mjög erfiðar og mjög langvarandi ef menn á annað borð ætla sér að reyna einhverjar breytingar.

Þetta veðsetningarmál var á sínum tíma mjög mikið til umræðu hér og veðsetningar hafa haft miklar afleiðingar því að stór hluti aflaheimildanna var veðsettur fyrir vikið á mjög skömmum tíma.

En þetta er nú gömul saga og ég ætla ekkert að rifja hana frekar upp, nema vegna þess að þeir sem eru að ræða um þetta fyrningarkerfi voru með allt aðrar hugmyndir og festu þær í rauninni með ákvörðun sinni fyrir nokkrum árum.

Ég er í meginatriðum sammála því frv. sem hæstv. sjútvrh. leggur hér fram sem sáttaleið í sjávarútvegsmálum. Ég er a.m.k. sammála því sem hæstv. ráðherra er að reyna að gera. Ég tel alla vega að þetta sé skref í rétta átt, þó ýmislegt megi gera öðruvísi en hér er lagt til.

Ég vil leyfa mér að segja í upphafi varðandi frv. sjálft, þá eru þrjú atriði sem ég hefði viljað hafa öðruvísi. Ég tel m.a. að það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í 4. gr., að fara út í frekari byggðakvóta heldur en nú þegar er gert, verði einungis til þess að skapa óróleika og í rauninni andstöðu við kerfið því ég hef ekki orðið var við að þær úthlutanir sem hafa verið á byggðakvótum fram að þessu hafi leitt til neinna sátta um fiskveiðistjórnarkerfið. Það er varla hægt að segja að það hafi leyst mikinn vanda heldur á þeim stöðum sem því hefur verið beitt. Ég man eftir því þegar kvótakerfið var á sínum tíma til umræðu og sveitarfélögin voru beðin um að skoða það hvort þau ættu að taka að sér slíkar úthlutanir og það var að mati flestallra sem þá komu nálægt þessu talinn alveg ógjörningur að láta sveitarfélögin standa í þeim slag að reyna að sætta menn við það að einn fengi meira en annar og það væri ekki einu sinni samfella í því milli ára, enda kannski ekki hægt að ætlast til þess að menn í svo mikilli nálægð séu að standa í slíkri úthlutun, sem er í rauninni ákvörðun ríkisvaldsins og það er ríkisvaldið sem á að bera hitann og þungann af því. Ég efast því um að þessi 4. gr. um 1.500 lesta byggðakvóta verði til neinna sátta. (GE: En 12.000 tonnin?) Það eru 1.500 tonn, hv. þm. Gísli S. Einarsson. Það eru 1.500 tonn af 12.000. Það eru 12.000 tonn sem ráðherra hefur til ráðstöfunar samkvæmt 1. málsl., en ráðherra er heimilt samkvæmt þessu ákvæði að úthluta 1.500 tonnum með sérstöku samráði við Byggðastofnun til svæða sem hafa orðið illa úti í sjávarútvegi, þannig að það sé á hreinu. (GE: En 10.500?)

Í 5. gr., herra forseti, er talað um heimild til þess að stækka megi svokallaða krókabáta úr sex tonnum í hámarki upp í 15 tonn í hámarki. Ég er mjög sammála því að stækka eigi bátana í krókaaflamarkskerfinu, enda var það þegar ég var ungur maður á sjó draumur allra sjómanna að komast á stærri skip. Þá dreymdi alla um að komast um borð í togara. Þetta voru skipin sem fóru vel með áhöfn sína. Þar var góð aðstaða og menn gátu staðið uppréttir í lestinni. Eftir að farið var um borð í þessar trillur, þá var eiginlega horfið aftur til þeirra ára þegar menn voru hokrandi ofan í þröngu rými við lítið öryggi og þurfa núna að leggja nótt við dag til að halda sínu gangandi, þó það sé ekki endilega út af smæðinni, heldur er það fyrst af því að menn eru útkeyrðir á svona litlum bátum í veiði. Ég hefði sagt að það hefði mátt réttlæta að fara upp í 30 tonn, því 15 tonna bátur er mjög lítill bátur. Mörg þessara skipa eru með gríðarlega mikinn kvóta miðað við stærð og hreint ótrúlegt hvað hægt hefur verið að fiska á þessar litlu fleytur. Ég hefði þá um leið talið eðlilegt að heimila ætti þessum krókabátum að ná aflahlutdeild sinni með þeim veiðarfærum sem þeir kysu sjálfir, að þeir mættu nota dragnót, net eða þær veiðiaðferðir sem þeir kysu, þó svo að þetta kerfi væri þá áfram kallað smábátakerfi, þá eru það í mínum huga smábátar sem eru undir 30 tonnum.

Ég hefði haldið að þar mætti ganga lengra. Þó að ég geri ekki ágreining um það, þá finnst mér það vera athugunarefni í nefndinni hvort fara ætti með þetta mark hærra, því þar er ég fyrst og fremst með öryggissjónarmið í huga og þau sjónarmið sem lúta að mannskapnum sjálfum um borð.

Varðandi 6. gr., herra forseti, þá vil ég lýsa yfir dálitlum áhyggjum mínum yfir því að festa eigi í lög að hámarksaflahlutdeild einnar útgerðar geti verið 50% af einstökum fisktegundum. En samkvæmt þeirri grein, þá má ýsa og ufsi vera í eigu tveggja útgerðarmanna á landinu. (ÁSJ: Karfi líka.) Já, karfi líka. Þökk fyrir, hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson. Það eru þrjár tegundir, þ.e. ýsa, ufsi og karfi. (ÁSJ: Og grálúða.) Og grálúða líka, 50%. Það eru fjórar tegundir sem gætu verið í eigu tveggja útgerðarmanna á landinu, á tveimur skipum þess vegna, ef út í það væri farið, það er reyndar kannski dálítið mikið.

[20:45]

Mér finnst þetta of langt gengið í úthlutun aflaheimilda til einnar eða tveggja útgerða til að það geti talist ásættanlegt. Þá fyrst mundi ég segja að skörin væri nú farin að færast upp í bekkinn og við værum farin að tala um lénsfyrirkomulag í kvótaútgerðinni. Ég lít ekki svo á að það sé til staðar núna en við erum að bjóða upp á það með þessari heimild. Ég held því að við eigum að fara mjög varlega og þetta mætti færa niður í það sem áður var. Við eigum ekki að taka þessa áhættu því að ég stórefast um að það muni skapa nokkra sérstaka sátt meðal þjóðarinnar að gera tveimur útgerðarmönnum á landinu það kleift að eiga allan afla sem leyft er að veiða í þessum tegundum. Ég held, herra forseti, að þarna sé eitthvað sem hv. sjútvn. eigi að skoða.

Herra forseti. Að öðru leyti get ég samþykkt þetta frv. Ég get aftur á móti sagt varðandi veiðileyfagjaldið að ég hef alla tíð verið ósammála því að útgerðin greiði eitthvert veiðileyfagjald eða að leggja eigi á útgerðina einhverja skatta umfram aðra. Ég leit aftur á móti á þetta sem sáttaleið sem útgerðin hefði fallist á. Sáttanefndin svokallaða og hvað þær heita allar þessar nefndir sem búið er að skipa um þetta komust smám saman að þessari niðurstöðu og ég féllst á þetta á þeirri forsendu að verið væri að ná sátt í sjávarútveginum. Það er náttúrlega spurning hvað þetta gjald eigi að vera hátt en segja má að um leið og farið er að leggja þetta gjald á útgerðina þá megi gera ýmislegt annað í leiðinni. Mér fyndist t.d. að nefndin ætti að skoða sjómannaafsláttinn samhliða þessu.

Sjómannaafslátturinn hefur verið meðgjöf með útgerðinni í gegnum síðustu áratugi. Ég held nærri 50 ár séu síðan sjómannaafslættinum var komið á. Ég hef alltaf verið mjög hlynntur því að sjómenn fengju sérstakan afslátt. En það er náttúrlega spurning hvort það sé eðlilegt í ljósi þess hversu tekjurnar hafa breyst gríðarlega um borð í skipum vegna samþjöppunar aflaheimilda og vegna mjög hás fiskverðs sem endurspeglast náttúrlega í mjög háum launum sjómanna. Við sjáum að launamunur í sveitarfélögum í dag liggur allur í því að sjómennirnir eru hátekjumenn á hæsta stigi á meðan fiskverkunarfólkið er á lægstu laununum og samkvæmt könnunum er mesti munur á launum í dag í sjávarútvegsplássunum. Því er spurning hvort þetta sé réttlætanlegt lengur.

Herra forseti. Vegna mótmæla Landssambands íslenskra útvegsmanna út af auðlindagjaldinu ætti að kanna hvað hafi í rauninni falist í þeirri sátt sem ég hélt að hefði verið komin frá útvegsmönnum um að leggja hóflegt auðlindagjald á útgerðina og að það yrði ásættanlegt af hálfu þeirra. Ef það hefur eitthvað breyst þá finnst mér að það eigi að taka til sérstakrar skoðunar.

Ég get aftur á móti ekki séð að það samkomulag sem sjómenn og Landssamband ísenskra útvegsmanna komust að fyrir nokkrum vikum síðan og mér skildist að hefði átt að koma inn í þetta frv., um að banna leiguframsal eða takmarka það svo mjög að það væri nánast bannað, geti nokkurn tíma orðið til neinna sátta því að það mundi hafa gríðarleg áhrif á sjávarútvegspláss alls staðar á landinu og áhrif bæði á fiskvinnslu og útgerðarfélög sem hafa byggt sig upp í kringum þessar heimildir. Að kippa því í burtu í einu vetfangi eða banna það bara yfir höfuð þýðir í raun ekki nema eitt í mínum huga, þ.e. að verið sé að gelda kvótakerfið, verið sé að vængstýfa kvótakerfið algjörlega. Hagræðingin og nýliðunin í kvótakerfinu hefur verið í gegnum leiguframsalið og ef það er ekki leyfilegt lengur þá er búið að loka þessum klúbbi. Ég hef fullyrt að aðgangseyririnn að þeim klúbbi mundi þá kosta 100 millj.

Ég held því að það hafi verið mjög skynsamlegt af hæstv. sjútvrh. að taka ekki inn í frv. þær hugmyndir þessara aðila. Ég held að þær hafi að mörgu leyti ekki verið hugsaðar til enda af þessum aðilum því það er nokkuð augljóst, herra forseti, að þessi hugmynd stangast á við stjórnarskrána og atvinnufrelsi í stjórnarskránni og hinn svokallaða Valdimarsdóm sem hefur nú tröllriðið þinginu síðan hann féll. Ég held því að þegar upp er staðið hefði sennilega aldrei verið hægt að koma þessu í lög. Þó að ég hafi ekki gert neina sérstaka könnun á því sjálfur kom strax upp í huga mér hvort þetta yrði ekki niðurstaðan. Ég hef ekki heyrt neina opinbera skýringu á þessu en ég held að þetta sé samt eitt af því sem hljóti að ráða nokkru.

Herra forseti. Ég fékk svar frá hæstv. sjútvrh. um viðskipti með aflaheimildir á fiskveiðiárinu 2000--2001 sem dreift var hér í þinginu. Þar kemur í ljós hvað þetta er gríðarlega umsvifamikið kerfi. Það eru 58 þúsund þorskígildistonn leigð á milli sveitarfélaga allt í kringum landið. Til dæmis leigja Akureyringar frá sér 9.377 tonn umfram það sem þeir leigja til sín. Ef við tökum fleiri dæmi um að mikið er leigt frá sveitarfélögum þá eru leigð frá Hafnarfirði 1.500 tonn umfram það sem þeir leigja til sín. Frá Hornafirði eru leigð 1.700 tonn, frá Neskaupstað 560 tonn, frá Rifi 5.600 tonn, frá Siglufirði 1.100 tonn, frá Skagaströnd 1.300 tonn og frá Þórshöfn 1.600 tonn (Gripið fram í: Umfram ...?) Umfram það sem þeir leigja til sín. (KHG: Hvað ætli menn borgi?) Hv. þm. spyr hvað þeir borgi fyrir það. Ég veit að sumir leigja til sín aflaheimildir fyrir 160 kr. kílóið af þorski. Og ég veit dæmi þess að þeir sem leigja til sín fyrir 160 kr. eru að hagnast á því, eru mjög ánægðir með það. Þetta heldur uppi vinnslu hjá þessum aðilum. Þeir geta gert út skipin sín og þeir geta skaffað tugum manna vinnu. (Gripið fram í.) Og ef þeir hefðu ekki þennan möguleika þá þyrftu þeir að loka sínu fyrirtæki og leggja skipum. (Gripið fram í.) Ég get sagt ykkur það, hv. þm., að það er nefnilega fullt af sveitarfélögum sem hafa notið þessa, t.d. Garður sem leigir til sín 2.700 tonn, Grenivík 800 tonn, þ.e. umfram það sem þau leigja frá sér, Grindavík 2.700 tonn, Grundarfjörður 280 tonn og Grímsey 220 tonn. Keflavík leigir til sín 200 tonn umfram það sem þeir leigja frá sér. Húsavík leigir til sín 2.000 tonn og Patreksfjörður leigir til sín 1.100 tonn umfram það sem þeir leigja frá sér. Svo ég taki eitt dæmi í viðbót þá leigir Ólafsvík til sín 4.700 tonn umfram það sem þeir leigja frá sér. Þetta eru stórar tölur og segja okkur hvað þessi viðskipti eru mikilvæg.