Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 21:01:46 (5503)

2002-03-04 21:01:46# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[21:01]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson kom víða við í sinni ræðu og styður þetta frv. sem hér er til umræðu, með örfáum fyrirvörum þó. En ég vil spyrja hv. þm., af því að kollegi hans, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom inn á það að meginmálið varðandi fiskveiðistjórnarkerfið í dag væri að ná fiskstofnunum upp. Bara í þorskinum hallar á um 100--150 þúsund tonn. Telur hv. þm. að með því að styðja þetta frv., sem byggir á óbreyttri stefnu, muni fiskveiðistjórnarkerfið skila þeim virðisauka í framtíðinni sem efni standa til? Ef hv. þm. telur að svo sé verður gaman að fylgjast með að örfáum árum liðnum hvernig til tekst með að byggja upp stofnana.

Það er nú einkennandi fyrir þessar umræður hér í dag að menn tala mest um praktíska hluti gagnvart útgerðinni en minna um það markmið að byggja upp fiskstofnana sem er algjört grundvallaratriði til að útgerðin geti dafnað og þjóðarbúið hagnast á veiðiskapnum.