Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 21:13:34 (5510)

2002-03-04 21:13:34# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[21:13]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að öfundast út af þessum launum, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, og sem gamall sjómaður hef ég alltaf talið standa mér næst að verja það sem sjómenn hafa. Ég er aftur á móti dálítið hræddur um að af stað fari þróun sem við eigum eftir að þurfa að ræða um hér í þinginu, þ.e. að útgerðirnar ráði einfaldlega til sín verktaka þannig að þær losni undan því að greiða þessi miklu laun og verktakarnir fái bara ákveðna prósentu sem er ekki í neinum takti við hlutaskiptaregluna sem við höfum notað í áratugi. Ég held að við horfum fram á allt annan veruleika innan skamms tíma með sama áframhaldi.