Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:02:32 (5518)

2002-03-04 22:02:32# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:02]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg sjálfsagt að leggja í hendur hæstv. sjútvrh. öll þau gögn sem ég hef undir höndum. Ég vitna til Haralds Líndals Haraldssonar sem vann þessa skýrslu. Ég tel að hún sé mjög marktæk og að eðlilegt sé að vitna til hennar. Ég held að þetta sé unnið á vísindalegan máta.

Aðeins vegna lífríkisrannsókna Hafrannsóknastofnunar. Ég tel að þær rannsóknir séu beint í þágu greinarinnar, sjávarútvegsins. Þess vegna tel ég eðlilegt að sjávarútvegurinn standi undir þeim kostnaði. Það er beint í þágu sjávarútvegsins að fram fari sem bestar rannsóknir á lífríkinu. Það kemur ekki bara sjávarútveginum beint til góða heldur auðvitað þjóðinni allri. En mér finnst eðlilegt að þetta sé greitt með því gjaldi sem á að leggja á vegna veiðanna.

Hv. þm. Kristján Pálsson kom að því í ræðu sinni að sumir leigðu til sín aflaheimildir fyrir 160 kr. kílóið og gerðu út með hagnaði. Það er á þeirri forsendu sem ég benti á að það væri jafnvel eðlilegt þó ekki væri farið í nema einn fimmta af því gjaldi og það lagt á, þ.e. að það væri arðurinn sem hugsanlega væri tekinn. Þá mundu þeir komast vel af með því að fara fyrningarleiðina. Aflaheimildum yrði skilað inn og menn fengju að leigja til sín afla. Þá mundu þeir skila fínum hagnaði sem græða nú í dag með því að gera út og leigja til sín heimildir á 160 kr. kílóið.