Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:28:24 (5531)

2002-03-04 22:28:24# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:28]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Fyrningarleiðin byggist á því að ríkið bjóði upp kvótann. Ríkið er afskaplega sterkur aðili. Á móti ríkinu stendur svo fjöldinn allur af útgerðarmönnum allt niður í trillukarla. Og það er ekkert jafnræði þar á. Ríkið getur t.d. með ofbeldi boðið allan kvótann í einu og látið menn kaupa hann allan á einum degi sem einstaklingar í útgerð réðu mjög illa við.

Hins vegar ef allir landsmenn færu að selja kvótann, þá mundi verða miklu meira jafnræði, því fjöldinn allur myndi selja alla daga ársins og útgerðin gæti keypt hvenær sem er, jafnvel á stíminu heim gæti hún keypt kvóta fyrir fiskinn sem hún væri nýbúin að veiða.

Varðandi það að kvótasalan sé að mergsjúga útgerðina, þá geri ég ráð fyrir að þau viðskipti verði á jafnréttisgrundvelli eins og öll önnur viðskipti og útgerðin borgi nákvæmlega það gjald sem hún vill og hún telur sig geta veitt fisk fyrir með hagnaði.