Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:52:23 (5534)

2002-03-04 22:52:23# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:52]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þó okkur greini nú á um ýmislegt, okkur hæstv. sjútvrh., greini okkur ekki á um að þetta er áætlað að taki gildi árið 2004. Nú verða alþingiskosningar árið 2003, árið á undan árinu 2004. Því mundi t.d. lögfesting stjórnarskrárákvæðis, sem þyrfti að samþykkja á tveimur þingum, ekki tefja þetta með nokkrum hætti. Til þess kæmi á árinu á undan. Ég held að rétt sé að halda því til haga. Því er náttúrlega ekki sanngjarnt að bera upp á þann sem hér stendur að fyrir honum liggi að tefja málið. Hér er hins vegar verið að leggja til að eignarréttarskipanin verði fest í sessi. Ég held að spurningin um það sé mikilvægari en að ana áfram og í því sambandi skipta mánuðir til eða frá ekki miklu máli. Það finnst mér ekki aðalatriðið.

Í öðru lagi vil ég segja þetta: Það sem stendur í skýrslunni það stendur í skýrslunni, hvort sem það er í samantektinni eða ekki. Það kemur líka fram, virðulegi forseti, í skýrslunni að auðlindanefndin er ekki með tæknilegar útfærslur á þeim leiðum sem hún leggur til. Það veit ég að hæstv. ráðherra veit, sérstaklega vegna þess að það kom fram í framsögu hæstv. ráðherra hér fyrr í dag. Hæstv. ráðherra er því alveg með það á hreinu. Þannig er ekki sanngjarnt, virðulegi forseti, að leggja það upp þannig að útfærsla á veiðigjaldsleiðinni með tiltekinni hlutdeild í uppboði mundi ekki geta tryggt að fleiri kæmust að. Ég eiginlega ætla nú ekki að henda mér í slíka röksemdafærslu.