Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:56:33 (5536)

2002-03-04 22:56:33# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:56]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Einhvern veginn finnst mér eins og við séum aftur dottnir inn í menntaskólaumræðuna eða menntaskólapólitíkina. Það sem ég var að reyna að segja --- ég ætla að reyna að segja þetta aftur og jafnvel hægar: Grundvallaratriðið er að festa eignarréttarskipunina í sessi svo menn viti nákvæmlega um hvað er verið að ræða. Auðlindanefndin skilaði af sér árið 2000. Síðan er liðinn nokkur tími. Hæstv. ráðherra reynir enn og aftur að útfæra leið, skilgreina hana og fjalla um hana, veiðigjaldsleiðina, sem er ekkert útfærð í skýrslu auðlindanefndarinnar. Í skýrsluni er gert ráð fyrir að með þessu megi bæta aðgengi nýrra aðila. Halda menn að það verði útfært með þeirri aðferð hæstv. sjútvrh. að enginn komist inn? Þessi leið er ekki útfærð heldur eru þarna settar fram hugmyndirnar sem áttu að verða grundvöllur sátta.

Grundvallaratriðið var að eignarréttarskipanin væri skýr. Það er boðið upp á tvær leiðir, báðar þessar leiðir gera ráð fyrir ákveðnu uppboði þannig að aðgengi nýrra aðila væri tryggt. Það er ekkert, ekki nokkur skapaður hlutur, í hugmyndum hæstv. sjútvrh., í frv. sem hann hefur lagt fram, sem gerir ráð fyrir þessum grundvallaratriðum.

Ég ætla að segja í lokin, virðulegi forseti, af því að ég er í andsvari við hæstv. sjútvrh. og hef rætt þetta nokkrum sinnum við hæstv. ráðherra --- ég ætla að láta þetta verða lokaorð mín í þessari umræðu --- og lýsa því yfir enn og aftur að hæstv. ráðherra skilur þetta en hefur ákveðið að skilja þetta með sínum hætti og ég ætla að skilja þann bolta eftir í fanginu á honum.