Framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 13:38:42 (5541)

2002-03-05 13:38:42# 127. lþ. 87.94 fundur 376#B framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[13:38]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Tilefni þessarar utandagskrárumræðu er nýkomin skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem í gildi var frá 1. október 1995 til 31. desember 2000. Nýr samningur tók gildi 1. janúar 2001 eða fyrir rúmu ári og þar sem núgildandi samningur byggir að miklu leyti á sömu meginútfærslu þá þótti okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ástæða til að fara yfir úttekt Ríkisendurskoðunar og ræða sérstaklega afkomu og stöðu sauðfjárbænda eins og hún birtist í skýrslunni, reyna að gera okkur ljósa stöðuna í dag og spá í framtíð sauðfjárbúskapar, m.a. með tilliti til núgildandi samnings.

Herra forseti. Helstu markmið beggja sauðfjársamninganna eru eftirfarandi: Að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni sauðfjárframleiðslu, að treysta tekjugrundvöll sauðfjárbænda, að halda jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða og að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd. Þessu til viðbótar eru ný markmið í núgildandi samningi um að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda. Landnýtingarsjónarmið hafa komið inn með gæðastýringu og að efla beri fagmennsku, þekkingu og þróun í sauðfjárrækt.

En í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að tekjur sauðfjárbænda hafa ekki fylgt almennri launaþróun og eru langt undir meðaltali og að tekjugrunnur bænda var, miðað við aðrar viðmiðunarstéttir á tímabilinu 1995--2000 eins og ég sagði, langt undir meðaltali. Það er ljóst að afkoma sauðfjárbúanna dugði engan veginn til að greiða eigendum þeirra né öðrum þau launakjör sem verðlagsgrundvöllurinn gerði ráð fyrir. Ef tekjur bænda hafa fylgt almennri launaþróun á síðasta ári má þrátt fyrir það gera ráð fyrir að líklegt sé að kjör sauðfjárbænda hafi ekki batnað frá því sem fram kemur í skýrslunni vegna hækkana á ýmsum rekstrarþáttum, aukinnar útflutningsskyldu og minnkandi sölu innan lands. Verð á kindakjöti hefur verið lágt og er enn lágt miðað við framleiðslu- og launakostnað og möguleikar til hækkunar á kindakjöti eru takmarkaðir vegna samkeppni við verksmiðjuframleitt kjöt af alifuglum og svínum.

Herra forseti. Því má gera ráð fyrir að tekjugrundvöllur sauðfjárbænda sé jafnótraustur og áður þrátt fyrir stækkun búanna og því standi sauðfjárræktin enn höllum fæti.

Herra forseti. Rekstur sauðfjárbúanna er mjög veikur og mega bændur ekki við að taka á sig ógreidd útflutningsgjöld sem falla nú til vegna brota á útflutningsskyldu afurðastöðva á síðasta ári. Fækkun afurðastöðva, bæði í sauðfjárslátrun og mjólkurvinnslu, veldur bændum auknum útgjöldum og tekjutapi þegar vinna við afurðastöðvarnar verður ekki lengur fyrir hendi. Sameining og fækkun afurðastöðva veldur óöryggi og hefur áhrif á áframhaldandi búsetu og búskap á þeim svæðum sem eru nú þegar í vörn. Fækkun afurðastöðva eigum við að skoða með tilliti til sjálfbærrar þróunar en ekki eingöngu út frá rekstrarlegum grunni einstakra afurðastöðva.

Herra forseti. Félagslegir þættir eru einnig sauðfjárbændum í hinum dreifðu byggðum mótdrægir. Fækkun sauðfjárbúa, en það er m.a. eitt af markmiðum sauðfjársamningsins, veikir félagslega stöðu þeirra bænda sem eftir stunda búskap. Sérstaklega er smalamennska orðin erfið á mörgum stöðum. Menntun barna og ungmenna er bændum dýr og menntunarmöguleikar bændanna sjálfra eru takmarkaðir. Þar kemur bæði til bindingin við búskapinn og tæknilegir fjarskiptaerfiðleikar. Af þessu tilefni vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. landbrh.:

Er ráðherra sáttur við hvernig tókst til við að ná markmiðum sauðfjársamningsins frá 1995 um að treysta afkomu og tekjugrundvöll sauðfjárbænda og hvernig telur ráðherra að þessi markmið hafi náðst í nýjum samningi?

Til hvaða aðgerða mun ráðherra grípa til þess að tryggja sauðfjárbændum sambærileg launakjör og þeim stéttum sem gjarnan er miðað við?

Mun landbrh. beita sér fyrir því að ríkissjóður taki á sig ógreidd útflutningsgjöld sem féllu til vegna brota á útflutningsskyldu afurðastöðva sem hætt hafa rekstri?

Mun ráðherra beita sér fyrir því að Byggðastofnun ábyrgist áfram bakábyrgðir vegna afurðalána?

Hyggst ráðherra beita sér fyrir mótvægisaðgerðum vegna þeirra markmiða að fækka sauðfjárbúum og ef svo er, hvaða mótvægisaðgerðum verður beitt svo búseta veikist ekki enn frekar í hinum dreifðu byggðum?

Hvernig mun ráðherra tryggja áfram viðunandi rekstrargrundvöll sauðfjársláturhúsa svo og ullar- og skinnaiðnaðar í landinu?

Mun ráðherra beita sér fyrir því að bæta samkeppnishæfni landbúnaðarins og úrvinnslugreina hans, svo sem með því að lækka raforkuverð og tryggja bændum aðgang að þriggja fasa rafmagni?