Framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 13:44:02 (5542)

2002-03-05 13:44:02# 127. lþ. 87.94 fundur 376#B framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og þá athygli sem skýrslan fær.

Ég vil í upphafi máls míns segja að sauðfjárbændur eru ein fátækasta stétt landsins, að vísu misvel efnum búnir. Lífskjör þeirra eru mismunandi. Það fer eftir stærð búskaparins og ekki síður eftir hinu hvað þeir geta stundað með sauðfjárbúskapnum. Sauðfjárræktin er góð aukabúgrein. En hitt er annað mál að það er enginn vafi í mínum huga að á enga atvinnugrein í landbúnaðinum hefur skollið jafnhörð kreppa og þegar það varð niðurstaða um 1990 að klippa á útflutningsbætur með einu handbragði. Þá skall kreppa á íslenskum sauðfjárbændum. Ég hefði ekki viljað vera landbrh. í þeirri stöðu sem að því stóð á þeim tíma fyrir hönd ríkisvaldsins.

[13:45]

Segja má að sauðfjárbændur séu ekki enn komnir út úr þeirri kreppu. Við verðum auðvitað að reyna að vinna með þeim með nýjum samningum, og ég mun fara hér yfir spurningar hv. þm.

Árið 1995, þegar Guðmundur Bjarnason tók við landbúnaðarráðherrastörfum, blasti í rauninni þrot við sauðfjárræktinni. Samningur frá 1990 gekk ekki upp, birgðir höfðu safnast og þörf var á að fækka aðilum í sauðfjárrækt til að þeir sem eftir yrðu hefðu tekjur. Þá var framleiðslutakmörkunum hætt þannig að þeir sem höfðu hey og hús gætu aukið við framleiðsluna. Þá var birgðum komið í eðlilegt horf með markaðsaðgerðum, aðallega útflutningi, en verulegt markaðsátak fór fram innan lands og var m.a. ráðstafað 110 millj. kr. í því átaki. Því fóru birgðir úr 2.675 tonnum árið 1995 í 550 tonn árið 1998, reyndar 900 tonn árið 2000 vegna óútfluttra birgða.

Þetta var ekki auðvelt því allar útflutningsuppbætur höfðu verið skornar af, eins og ég sagði, árið 1990. Þá voru töluverðir fjármunir settir í umhverfismál enda var hluti markmiða samningsins í samræmi við umhverfisvernd. Sá þáttur samningsins tókst vel. Staða þeirra sem eru í greininni er miklu betri eftir samninginn frá 1995 þó að hún sé ekki góð. Þess vegna tókst það markmið að hluta vil ég segja.

Í sauðfjársamningi sem núv. ríkisstjórn gerði árið 2000 er megininntakið bætt sauðfjárrækt og að þeir peningar sem ríkisvaldið lætur af hendi verði sem mest til bændanna til að styrkja stöðu þeirra. Með gæðastýrðu framleiðsluferli er við því að búast að tekjur bóndans af eigin rekstri aukist auk þess sem ríkið greiðir álag vegna þessa ferils sem annars hefði ekki gerst og þeir peningar ekki komið inn í samninginn. Þá er í samningnum ákvæði um jöfnunar- og álagsgreiðslur sem auðvitað nýtast best þeim sem stunda þetta sem aðalatvinnu.

Hins vegar er samkeppni á kjötmarkaði grimm og neysla kindakjöts hefur örlítið dregist saman. Bændur og afurðastöðvar vinna eftir ákveðnum lögum hvað varðar útflutning dilkakjöts og ber að fara eftir þeim. Ekki er hægt að ætlast til þess að ríkið komi til bjargar í hvert sinn sem illa fer, menn verða auðvitað að bera ábyrgð á afurðastöðvum sínum og rekstri og þeir eiga sinn samning við ríkisvaldið.

Hins vegar mun ég beita mér fyrir því að ábyrgð bænda verði takmörkuð með því að heimilt verði að taka lögveð í útflutningsskyldum birgðum kindakjöts til að tryggja að þetta endurtaki sig ekki. Það verður gert með breytingu á búvörulögum.

Þá vil ég þakka hv. þm. sérstaklega fyrir að minna á þá aðgerð sem ég beitti mér fyrir síðasta sumar gagnvart sauðfjárbændum og sauðfjárræktinni þegar útlit var fyrir að ekki yrði hægt að slátra og að menn hefðu ekkert tryggt í þeim efnum. Þá kom ríkisstjórnin þar til hjálpar og tryggði það í gegnum Byggðastofnun að afurðalán yrði tryggt á betri kjörum en annars hefði gerst. Þetta hefur auðvitað skilað bændunum peningum og gerði kleift að lóga fé í haust.

Síðan eru í gangi margar mótvægisaðgerðir. Þar nefni ég ferðaþjónustu, hestamennsku, landgræðslu og gleggsta mótvægisaðgerðin vegna minnkandi byggðar eru landshlutabundin skógræktarverkefni sem Alþingi hefur stutt mjög vel. Þessi atriði eru hv. þm. að góðu kunn, og kannski skógræktin á Austurlandi gleggsta dæmið um gott verkefni sem er að skila byggðinni miklu.

Ég kemst ekki yfir að svara öllum þessum spurningum hér, hæstv. forseti, fyrr en þá í síðari ræðu, en ég vil segja að ég horfi bjartari augum fram á veginn með nýjan búvörusamning, nýjan þrótt í atvinnugreininni og góða samstöðu þjóðarinnar um íslenskan landbúnað.