Framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 13:49:39 (5543)

2002-03-05 13:49:39# 127. lþ. 87.94 fundur 376#B framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd búvörusamnings 1995--2000 er komist að þeirri niðurstöðu að markmið samningsins hafi náðst að hluta. Samningurinn kostaði ríkissjóð 10,5 milljarða og þar af fóru 7,4 milljarðar í beingreiðslur til bænda. Í lok samningstímans var staðan sú að sauðfjárbúum með greiðslumarki hafði fækkað um 208 en greiðslumarkið hafði færst til þannig að bú hafa stækkað í greininni en framleiðslan í landinu ekki minnkað.

Engu að síður er það niðurstaða Ríkisendurskoðunar að afkoma sauðfjárbænda sé afleit og afrakstur búanna dugi engan veginn til að greiða eigendum þeirra mannsæmandi laun.

Því miður er það svo að síðan árið 2000 hefur dregið úr neyslu á kindakjöti og nú á þessu ári hafa birgðir hrannast upp. Ekki hjálpaði Goðaævintýrið upp á stöðuna en þeir klykktu út með því að dengja öllu útflutningsskylda kjötinu sínu, eða sem var á þeirra vegum, út á innanlandsmarkað og selja það þar á fullu verði þó að ekki virðist það hafa dregið þá að landi í þeirri makalausu stöðu sem þeir voru búnir að koma sér og stórum hluta bænda í landinu í.

Næsta haust er útlit fyrir að þurfi að auka útflutningsskylduna hjá sauðfjárbændum og ekki lagast afkoma bænda við það. Það er illt til þess að vita að þessi gæðavara sem bændur fá tiltölulega mjög lágt verð fyrir sé orðin svo sliguð af milliliðakostnaði þegar hún nær á markað að verð hafi nánast þrefaldast þó að miðað sé við verð í heilum skrokkum. Það hlýtur að að vera markmiðið að lækka milliliðakostnaðinn svo neytendur fái tækifæri til að kaupa lambakjöt á verði sem er nær því sem þarf að borga bændum og hlutur bænda verði þá einnig réttlátari. Þannig mundi að mínum dómi ekki standa á fólki að velja sér lambakjöt á sinn disk.