Framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:04:23 (5550)

2002-03-05 14:04:23# 127. lþ. 87.94 fundur 376#B framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Um dagana hef ég um margt verið sammála hæstv. landbrh. Guðna Ágústssyni. Þess vegna tekur mig sárt að vita til þess hve þjakaður hann er nú um stundir af áratugagamalli fortíðarhyggju. Stöðugt vísar hann í samninga sem gerðir voru árið 1990 og kenndir hafa verið við þjóðarsátt. Nú vill hann hengja þessa samninga á einn ráðherra sem þá sat en ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um að þessir samningar voru mjög skynsamlegir við þær aðstæður sem við bjuggum þá við. Aðild að þeim áttu verkalýðshreyfingin, Alþýðusamband Íslands, BSRB, Bændasamtökin, samtök atvinnurekenda og að sjálfsögðu áttu þeir sér bakhjarl í þeim stjórnarflokkum sem þá sátu, Alþýðuflokknum, Alþýðubandalaginu og Framsfl. Í aðdraganda þessara samninga bjuggum við við verðbólgu sem nam næstum því 30% og samningarnir gengu út á að ná verðbólgunni niður og treysta grunninn til framtíðarsóknar. Nú er þessi framtíð orðin að nútíð og nú heitir núverandi hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson. Er ekki kominn tími til að hann horfist í augu við eigin verk og eigin ábyrgð, og axli þá ábyrgð? Ef hann er óánægður með samninga sem gerðir voru í fortíðinni eða þau lög sem landbúnaðurinn býr nú við vil ég benda honum á að það er ekki bannað með lögum að breyta lögum.