Framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:06:08 (5551)

2002-03-05 14:06:08# 127. lþ. 87.94 fundur 376#B framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svörin og eins þá umræðu sem hér hefur orðið. Mér finnst mikilvægt að draga þessa skýrslu fram og ræða stöðu sauðfjárbúskapar, og að við getum átt í umræðu um stöðu einstakra stétta, að það gerist ekki eingöngu þegar komið er til verkfalla og allt í upplausn að við ræðum jafnalvarlega stöðu eins og er hjá sauðfjárbændum þó að nú standi ekki yfir samningar. Það er alveg ljóst að staða þeirra er veik.

Við stöndum frammi fyrir því að samkvæmt núgildandi samningi verður frjálst framsal beingreiðslna innan skamms tíma og það mun hafa áhrif til fækkunar jarða í ábúð. Við skulum þá skoða líka hvaða áhrif það hefur á samfélagið því að fækkun jarða í ábúð hefur margfeldisáhrif út í öll sveitarfélög og samfélögin verða önnur. Þetta er þróun sem þarf að skoða miklu betur og kortleggja, m.a. með tilliti til annarra atvinnugreina eins og ferðaþjónustu. Hvert landsvæði hefur sína menningarlegu sérstöðu og möguleika til að nýta kosti lands og sjávar. Þessa kosti eigum við að virða, draga fram og svo efla nýsköpun í atvinnulífinu sem byggir á sérstöðu hverrar sveitar. Sauðfjárbúskapur getur verið ein af þessum greinum og því eigum við að styrkja hann áfram.

Herra forseti. Hér hefur margt komið fram sem áhugavert væri að ræða betur. En ég vara við því að við séum stöðugt að horfa til samnings sem var gerður árið 1991 undir fyrirsögninni ,,þjóðarsátt``. Þetta var hluti af því að ná þjóðinni saman um ákveðnar aðgerðir til þess að bæta almennt lífskjör í landinu. Fallið var frá útflutningsbótum og farið í beingreiðslur og ég vil beina því til hæstv. landbrh. að við horfum frekar fram á veginn en að festa okkur í 10 ára gömlum samningi.