Framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:08:31 (5552)

2002-03-05 14:08:31# 127. lþ. 87.94 fundur 376#B framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Þingmenn mega auðvitað ekki gleyma því að við erum að leita orsakanna. Ég var fyrst og fremst að vekja athygli á því. Það var ekki samstaða lengur um útflutningsuppbætur. 3.000 sauðfjárbændur á Íslandi lentu í því á einu augnabliki að 3.000 tonn af framleiðslu þeirra voru ekki lengur söluvara. Það var vissulega kreppa sem á þeim skall. Ég sagði einungis það sem ég meinti frá hjarta mínu. Ég hefði ekki viljað vera í sporum landbrh. á þeim tíma.

Ég hef hins vegar verið í sporum þess landbrh. sem hefur verið að byggja sauðfjárræktinni nýja framtíð, framtíð með nýjum samningi, framtíð sem skírskotar til neytandans. Ég sá það gleggst núna á matvæladögum sem hér eru haldnir hátíðlegir þar sem bestu kokkar heimsins komu að þessi vara á ekki aðeins möguleika ef við þróum hana, tökum okkur langan tíma og göngum skref fyrir skref, á að halda markaði sínum á Íslandi heldur jafnframt ná sókn á erlendum mörkuðum þar sem fólk spyr eftir vörum frá landi eins og Íslandi og finnst íslenska lambakjötið meyrara og betra en nokkurt annað.

Ég gladdist yfir því á matvæladögum og setningu búnaðarþings að heyra forstjóra Flugleiða halda svo magnaða ræðu um hlutverk íslenska hestsins að allar ræður mínar um þann mikla grip eru fölnaðar og fallnar. Ég vil segja hér að ég legg bara áherslu á að vinna með nýjan samning. Norður-Þingeyingar hafa keyrt í tvö ár eftir þessum samningi. Þeir segja að hann sé ekki reglugerðarverk frá Brussel, hann sé skynsamleg búfjárræktartilraun, auðveldur í framkvæmd og gefi bóndanum betri arð og betri afkomu. Þess vegna trúi ég því að þingið standi með mér í því frelsi sem íslenskir bændur hafa fengið með búvörusamningi og við afgreiðum hann hér fyrst og í gegnum hann eignast íslenskur landbúnaður og sauðfjárræktin nýja möguleika sem hún átti ekki í gær en sem hún á á morgun.