Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:27:04 (5558)

2002-03-05 14:27:04# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hlusta á þingmenn Samfylkingarinnar í þessu máli. Það vill svo heppilega til að fyrir þinginu liggur till. til þál. um nefnd er leiti sátta um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og eru flutningsmenn hennar þeir formenn hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Sverrir Hermannsson. Í þessari tillögu segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Veiðiheimildum verði endurráðstafað í formi aflahlutdeildarsamninga á grundvelli jafnræðis byggðanna og útgerðar til nýtingar þeirra.``

Nú liggur fyrir að þessir aflahlutdeildarsamningar verða auðvitað á sama grundvelli og kvótakerfið nú sem auðvitað svarar því hvort þeir sem flytja þessa tillögu telja skynsamlegt að viðhafa kvótakerfi til að stjórna veiðunum, og er afdráttarlaust samkvæmt þessari tillögu að svo er, og þá einnig sá þingmaður sem ég er nú í andsvari við því að hann segir að allir þingmenn Samfylkingarinnar séu sammála um þessi efni.

Jafnframt liggur fyrir samkvæmt ummælum hv. 5. þm. Vesturl. í gær að þær heimildir sem hér er verið að tala um eigi að njóta verndar sem óbein eignarréttindi, eins og hv. þm. sagði í gær, sem þýðir þá um leið að með því er verið að festa þessar veiðiheimildir til þeirra nýju útgerða sem við þeim taka.

Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að vekja athygli á því að hér er gert ráð fyrir að taka veiðiheimildirnar af þeim útgerðum sem nú hafa þær en endurúthluta þeim síðan á byggðaforsendum. Mig langar til að spyrja hv. þm. hvort hann búist við því að Akranes muni þá fá frekari veiðiheimildir en nú er eða hvort hér sé gert ráð fyrir því að svipta Akranes veiðiheimildum.