Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:35:20 (5563)

2002-03-05 14:35:20# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta gjald gerir ekki gagn að mínu viti. Þetta gjald er fyrst og fremst hugsað til gagns fyrir hv. þm., meðflokksmenn hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, í því skyni að reyna að viðhalda kerfinu sem komið hefur verið á við úthlutun veiðiheimilda til þeirra sem hafa verið í útgerð á Íslandi og hleypa engum öðrum að. Þeir aðilar eru að taka fullt gjald fyrir aðgang að auðlindinni.

Ég spyr hv. þm. á móti: Hverjir heldur hann að borgi aðganginn að auðlindinni með því að kaupa veiðiheimildir af þeim sem eru fyrir í útgerð eða leigja af þeim veiðiheimildir? Hverjir borga það? Halda menn að veiðiheimildir muni eitthvað hækka í verði við að verða eign annarra en þessara útgerðarmanna? Það er markaðurinn sem ákveður hvers virði þessar veiðiheimildir eru og það er okkar bjargfasta skoðun að það eigi í raun og veru að vera útgerðarmenn sjálfir sem ákveða hvers virði það er að sækja sjó á Íslandi. Það ætti ekki að vera nein önnur aðferð við að meta slíkt.

Vitaskuld erum við ekki hrifin af þessu fyrirbrigði sem hér er. Hv. þm. veit það ósköp vel. Auðvitað eru þessar spurningar fyrst og fremst óbeint til annarra en okkar. Þeim er óbeint vísað til félaga hans sem eiga að hlýða á þessi svör. Hann hlýtur að ætlast til þess að þeir dragi af þeim þann lærdóm að þeir eigi eins og hann að vera bara á móti þessu máli.