Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:39:43 (5566)

2002-03-05 14:39:43# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Í upphafi máls míns ætla ég að rifja upp hvað stendur í 1. gr. núgildandi laga um stjórn fiskveiða, með leyfi forseta:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Herra forseti. Ég held að það sé afar mikilvægt, við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, að gleyma ekki og horfa ekki fram hjá þessum fyrstu setningum laganna sem munu áfram standa óbreytt. Þá er líka rétt að líta til hvernig hefur til tekist. Þessi lög eru að stofni til frá 1990. Skoða þarf reynsluna af þeim, bæði hvernig þau hafa nýst til að ná markmiðum í verndun og hagkvæmri nýtingu fiskstofnanna og að treysta atvinnu og byggð í landinu, og eins gera sér grein fyrir og meta áhrif breytinganna sem verið er að leggja til á lögunum varðandi þessa grundvallarþætti.

Það var ágreiningur um hvort framkvæmd laganna færi eftir þessum meginmarkmiðum þeirra eða ekki. Um það hefur verið ágreiningur sem hefur skipt þjóðinni upp í andstæðar fylkingar um framkvæmd stefnunnar í sjávarútvegsmálum. Þessi staða var ástæðan fyrir því að hæstv. forsrh. lýsti því yfir fyrir síðustu kosningar að eitt brýnasta málið væri að ná sátt um stjórn fiskveiða, meðferð og nýtingu þessarar auðlindar. (LB: Ekki Einar Oddur?) Það var hæstv. forsrh., formaður Sjálfstfl., sem mælti þau orð og einnig hæstv. utanrrh., formaður Framsfl. Fyrir þeim báðum var þetta eitt mikilvægasta málið fyrir síðustu kosningar. (Gripið fram í.) Spurt er hvernig þeir ætluðu að leysa það, virðulegi forseti.

Við sjáum hvernig verið er að efna þau loforð og þau fyrirheit sem þá voru gefin þjóðinni um brýnasta verkefnið. Við sjáum hvernig verið er að efna þau loforð og þau fyrirheit í þeim frv. til laga sem hér eru lögð fram. Þau gera einmitt þveröfugt. Þau taka ekki á því sem mestur ágreiningur er um, verndun og hagkvæmri nýtingu fiskstofnanna. Staða þeirra hefur síður en svo skánað, við stöndum ekki í sömu sporum og fyrir nokkrum árum hvað varðar afkastagetu. Þau markmið laganna hafa ekki náðst. Einnig hefur framkvæmd laganna haft mikil áhrif á byggð og búsetu í landinu og sett byggðir í mikla erfiðleika og fjárhagslega erfiða stöðu, þ.e. breytingar sem orðið hafa á útgerðarmunstrinu í landinu.

En víkjum aðeins að einstökum greinum þessa lagafrv. Í 1. gr. frv. er, með leyfi forseta, lagt til að við bætist svohljóðandi málsliður:

,,Afli sem veiddur er í rannsóknarskyni á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar fellur ekki undir ákvæði laga þessara.``

Sá afli reiknast ekki inn í aflakvóta og er frjálst að veiða hann af þeim sökum. Meginmarkmið þessarar greinar er í sjálfu sér gott og blessað en í fyrsta lagi sé ég ekki að þessi skylda eigi alveg klippt og skorið að gilda fyrir Hafrannsóknastofnun heldur ætti sá afli sem veiddur er í rannsóknarskyni á vegum opinberra aðila eða á ábyrgð opinberra aðila að vera undanþeginn. Ég tel að menn ættu ekki að einskorða sig við Hafrannsóknastofnun í lögunum þó að hún beri að sjálfsögðu meginþungann og ábyrgðina af þeim rannsóknum sem gerðar eru er fjarri því að svo þurfi að vera. Margir aðrir aðilar geta líka komið að þessum rannsóknum og ætti því ekki að binda þetta í lög með þessum hætti.

[14:45]

Auk þess finnst mér líka, virðulegi forseti, að þessi setning ásamt fleirum í frv. skírskoti til þess að rannsóknir og þjónusta við þennan mikilvægasta atvinnuveg landsins, sjávarútveginn, eigi að greiðast af þeim sem stunda þennan atvinnuveg. Samfélagsleg ábyrgð, samfélagslegar skyldur og samfélagsleg þjónusta við þann atvinnuveg eigi nánast engin að verða. Því sjónarmiði er ég andvígur. Ég er andvígur því og tel að sjávarútvegurinn sé einmitt ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins og þjóðarinnar og það eru sameiginlegir hagsmunir hennar að þar sé best að staðið og þess vegna á hún að taka ábyrgð með þeim hætti en ekki að krefjast þess að atvinnugreinin sjálf afli tekna og greiði gjöld til að standa undir nauðsynlegri þjónustu og þróunarstarfi í þeim atvinnuvegi. Þeirri þróun sem hér er lagt upp með er ég andvígur og tel að þarna eigi að koma inn hrein og klár samfélagsleg ábyrgð í að rannsaka og þróa þennan atvinnuveg.

Annað meginmarkmið í þessu frv. til laga er að afnema eða rýmka stærðarmörk útgerða. Þar er meira að segja lagt til, virðulegi forseti, að sami aðili megi hafa allt að 50% af ýsuaflanum, 50% af ufsanum, 50% af karfanum og 50% af grálúðunni. Það geti sem sagt tveir aðilar í landinu tekið að sér og fengið yfirráðarétt yfir öllum kvóta í þessum fiskveiðitegundum. (JÁ: Er ekki rétt að ráðherrann sé í salnum?) Hæstv. ráðherra er nálægur, virðulegi forseti, og fylgist með og ég mun einmitt beina til hans spurningum viðvíkjandi þessu.

Sama er líka, herra forseti, varðandi þorskinn. Þar eru að vísu stærðarmörkin enn sett 12% af hámarksaflahlutdeild sem megi vera í eigu einnar útgerðar en þó er það hækkun frá því sem áður var. Verið er að rýmka það að útgerðirnar megi stækka mjög verulega. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða rök liggja að baki því að heimila slíka stækkun á útgerðunum? Fyrir því verða að vera veigamikil rök, því að þarna er um takmarkaða auðlind að ræða og stækki ein útgerðin getur það ekki gerst öðruvísi en aðrar minnki eða leggist af. Ég tel að veigamikil rök þurfi að vera fyrir því að slík lagaheimild sé veitt, veigamikil rök sem hvergi er að finna í frv. Talað er almennum orðum um hagkvæmni stærðarinnar sem segir ekki neitt og með því að setja ó fyrir framan, þá verður óhagkvæmni stærðarinnar jafnrétt þegar rökstuðningurinn er enginn fyrir þessu, þannig að bara með þeirri einu breytingu gæti frv. staðið gersamlega óbreytt með því að setja ó fyrir framan. Ég tel að í svo veigamiklum atriðum eigi að rökstyðja svona mikla kerfisbreytingu sem hér er verið að leggja til. Ekki síst, virðulegi forseti, þegar maður sér hvað hefur verið að gerast undanfarin ár.

Útgerðirnar hafa fyrst og fremst verið að stækka á síðustu fjórum, fimm árum, þá fyrst fer þetta raunverulega stækkunarferli í gang. Ef við horfum jafnframt á hvernig launaþróun og tekjur í hinum ýmsu byggðarlögum sem hafa byggt alla afkomu sína á sjávarútvegi og fiskveiðum, hvernig tekjur þessara byggðarlaga sumra hverra hafa hrapað á móti, og eðlilega þegar kvótinn flyst burt frá hinum minni til hinna stærri í önnur byggðarlög, þá missa þeir náttúrlega tekjur sínar sem hæstar tekjur höfðu, sjómenn og þeir sem stóðu í forsvari fyrir viðkomandi atvinnufyrirtæki á staðnum og tekjur sveitarfélaganna minnka. Fólkið sem hafði hærri tekjur flytur burt og möguleikar sveitarfélaga og viðkomandi byggðar til þess að skapa ný atvinnufyrirtæki eða standa klár á þjónustu verða lakari. Stækkun útgerðarfyrirtækjanna hlýtur því að leiða til þess að önnur fyrirtæki minnka eða leggjast af.

Hvaða áhrif hefur þetta á byggðirnar? Að mínu viti, herra forseti, gengur þessi tillaga og sú stefna sem hér er lagt upp með þvert á þá málsgrein í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem markmiðið er að treysta atvinnu og byggð í landinu. Hún gengur þvert á þá grein, og er gersamlega órökstudd dýrkun á hagkvæmni stærðarinnar sem hér er látin reka þróunina áfram. Það tel ég ábyrgðarhluta í meðferð þessa máls, verulegan ábyrgðarhluta og óska eftir því að í meðferð nefndarinnar komi fram rækileg rök fyrir því að þetta sé í raun hagkvæmt fyrir íslenska byggð og búsetu í landinu og fyrir nýtingu þessara auðlinda að leyfa stöðugt stækkun fyrirtækjanna sem leiðir til þess að önnur minnka. Þessi ofdýrkun, órökstudda dýrkun á hagkvæmni stærðarinnar í þessu máli.

Þá er og lagt til að tekið verði upp fast og skilgreint veiðigjald. Hlutverk þess virðist vera að festa í sessi það fiskveiðistjórnarfyrirkomulag sem við höfum búið við á undanförnum árum og stefna að því að eignfæra fiskveiðiheimildirnar beint eða óbeint á fyrirtækin. Þetta veiðileyfagjald hefur að mínu viti fyrst og fremst þann tilgang í lagafrv.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvernig verður skattaleg meðferð á þessu veiðileyfagjaldi? Verður gjaldið frádráttarbært til skatts hjá viðkomandi útgerðum? Hvernig reiknast það sem slíkt? Það kemur ekki fram í frv. En sé litið á þetta sem hluta af rekstrargjöldum eða veiðigjöldum þá er um allt aðra stöðu þess að ræða. Að mínu viti er ekki um það að ræða og ég hef á tilfinningunni, virðulegi forseti, að hér sé bara um beina skattlagningu að ræða á þennan atvinnuveg sem ég tel að ekki eigi að fara að með þeim hætti.

Ekki er tekið á stöðu fiskvinnslunnar. Fiskvinnslan er áfram í sama óöryggi og áður. Fiskvinnslufyrirtæki sem ekki hafa útgerð að baki fá ekki rétt með þessu frv. til að geta leyst til sín eða eignast kvóta til að styrkja fiskvinnslu sína og það tel ég vera mikinn veikleika í því sem hér er lagt fram.

Herra forseti. Að vísu er gert ráð fyrir því að á móti veiðileyfagjaldinu verði felld niður ákveðin gjöld sem núna eru lögð á sjávarútveginn. Gert er ráð fyrir að gjald til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins verði fellt niður á móti. En í farvatninu er líka lagafrv. sem felur í sér aukin gjöld á sjávarútveginn sem eru fólgin í nýjum hafnalögum þar sem gert er ráð fyrir að hafnirnar vítt og breitt um landið, þessar litlu hafnir, hafnir sem eru lykilatriði fyrir þjónustu við veiðiflotann, þjónustu fyrir atvinnulífið á viðkomandi stöðum, eigi núna að fara að heimta hærri gjöld, þær eiga að fara að reka sig, bera sig fullkomlega af þeirri umferð sem er um hafnirnar sem er fyrst og fremst fiskveiðiflotinn. Það þýðir þá hærri löndunargjöld á fiskveiðiflotann. Mig minnir að hæstv. sjútvrh. hafi nefnt að þar gæti verið um að ræða 700--900 millj. miðað við óbreyttar aðstæður sem mundu leggjast þar til viðbótar á flotann. Ég tel að í þeim hafnalögum sem er angi af stefnu stjórnvalda í atvinnu- og byggðamálum felist mikil hætta og röng stefna gagnvart atvinnulífinu, gagnvart sjávarútveginum vítt og breitt um landið og vara við því sem þar er verið að leggja til.

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram skýra stefnu í sjávarútvegsmálum og tekið mið af þeim höfuðmarkmiðum sem voru sett við setningu laganna í upphafi um að nytjastofnar á Íslandsmiðum skuli vera sameign þjóðarinnar og markmið þeirra sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Við leggjum til, virðulegi forseti, að auðlindir sjávar verði í raun sameign þjóðarinnar og einstökum byggðarlögum verði tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda og viðunandi öryggi.

Við leggjum líka áherslu á það, virðulegi forseti, að sjávarútvegurinn aðlagi sig markmiðum sjálfbærrar þróunar og vinni markvisst að því að bæta umgengni um náttúruna og lífríkið, þ.e. einstaka nytjastofna, vistkerfi hafsbotnsins og hafsbotninn sjálfan og að rannsóknir í fiskveiðum og í lífríkinu miðist að því að líta á þetta sem eina heild en ekki hvern stofn og hvert dýr út af fyrir sig heldur að líta á lífríkið sem heila heild og nýtingu þess út frá þeim sjónarmiðum.

Það er líka markmið sjávarútvegsstefnunnar að treysta byggð og atvinnu í landinu öllu ásamt því að stuðla að aukinni fullvinnslu framleiðslunnar og þar með aukinni verðmætasköpun og hámarksafrakstri auðlindanna innan lands á grundvelli þeirrar stefnu sem við leggjum hér til. Við leggjum líka til og ég leyfi mér að vitna til stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í sjávarútvegsmálum, með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegsstefnan stuðli að réttlátri og jafnri skiptingu gæðanna ásamt jöfnum og góðum lífskjörum þeirra sem við greinina starfa og veita henni þjónustu. Markmiðið er að afraksturinn af nýtingu sameiginlegra auðlinda dreifist með réttlátum hætti til landsmanna allra.

Sjávarútvegurinn, ekki síst fiskvinnslan, þróist og verði fær um að bjóða vel launuð og eftirsóknarverð störf og standa sig í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hvað launakjör, starfsaðstæður, vinnuumhverfi og aðra slíka þætti snertir.``

Ég tel, herra forseti, að frv. og þær breytingar sem hér eru lagðar til miði í þveröfuga átt. Þær miða að aukinni misskiptingu þessarar auðlindar milli landsmanna. Þær stuðla ekki að verndun fiskimiðanna og þeirra auðlinda. Þær tillögur sem hér eru miða ekki að því að treysta byggð og búsetu í landinu öllu. Því miður, herra forseti, er ríkisstjórnin á kolrangri leið í fiskveiðistjórnarmálum.