Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:05:44 (5570)

2002-03-05 15:05:44# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil beina því til hæstv. sjútvrh. að hann lesi stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í sjávarútvegsmálum. Ég tel það bara hreina skyldu hans sem ráðherra að gera það þannig að hæstv. ráðherra geti þá farið rétt með þegar hann vitnar til hennar.

Já, ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að það eigi ekki að láta hverja atvinnugrein bera allan þann kostnað sem að henni snýr. Við höfum líka samfélagsskyldur, m.a. gagnvart sjávarútveginum. Við höfum samfélagsskyldur gagnvart byggðunum vítt og breitt um landið. Við höfum samfélagsskyldur og kannski greinir okkur á, mig og hæstv. sjútvrh., um þessar samfélagsskyldur. Þegar hæstv. sjútvrh. getur ekki sett sig inn í þann hugarheim getur hann í sjálfu sér ekki heldur skilið hvað verið er að fara í þeim tillögum sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur fram. Við leggjum áherslu á að það sé samfélagsleg ábyrgð í þessu þjóðfélagi en ekki bara að einkaframtakið hafi þar óheftan rétt.

Gallinn er sá, virðulegi forseti, að það sem hér er lagt til í stefnu hæstv. sjútvrh. er stærsta einkavæðing á auðlindum Íslendinga sem hér er verið að keyra fram og því er ég á móti.