Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:07:28 (5571)

2002-03-05 15:07:28# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ákveðin atriði í ræðu hv. þm. vöktu athygli mína sérstaklega. Annað hefur nú þegar komið hér nokkuð til umræðu en það er viðhorf hv. þm. og, eftir því sem hann segir, flokks hans til þess að atvinnuvegirnir greiði þann kostnað sem af þeim hlýst. Mér fannst, herra forseti, nánast eins og hv. þm. talaði um sjávarútveginn meira sem samfélagslegt úrræði en að hann væri alvöruatvinnugrein. Ég vildi gjarnan fá aðeins skýrari sýn hv. þingmanns á þessa hluti. Er hann sem sé þeirrar skoðunar að okkur beri að fara með sjávarútveginn eins og velferðarkerfið? Leggur hann þetta tvennt að jöfnu?

Í öðru lagi harmaði hv. þm. að fiskvinnslukvótinn skyldi ekki vera í frv. hæstv. ráðherra. Þá langar mig til þess að spyrja hv. þm. hvort hann sé búinn að leysa þá þverstæðu sem komi upp gagnvart sjómönnum og samningum þeirra ef kvóti verður settur á fiskvinnsluhús vegna þess að það er alveg ljóst að ef fiskvinnsluhúsin eignast kvóta verða þau að fá einhvern til að veiða upp í þennan kvóta fyrir sig. Hvaða aðferðir heldur hv. þm. að fiskvinnsluhúsin noti til þess að finna þá sem eru heppilegastir til þess? Ætli þess megi ekki vænta að þau bjóði veiðina út? Hvað er þá orðið um samninga sjómanna?